Fyrningarleið: Ráðstöfun aflahlutdeilda sem byggir á fyrningu á tilboðsmarkaði

Greinargerð um efnið, fyrningarleiðina, var upphaflega samin sumarið 2010 fyrir Starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem þáverandi ríkisstjórn setti á laggirnar.  Höfundar greinargerðarinnar voru þeir Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor í reiknifræði við Háskóla Íslands, og Jón Steinsson, prófessor í hagfræði við Columbia-háskóla í New York. Þessa eldri gerð er að finna á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=285.

Annar höfundanna, Þorkell Helgason, hefur endurskoðað greinargerðina þar sem m.a. eru felld brott nokkur útfærsluatriði sem áttu sérstaklega við í umræddu pólitísku samhengi. Auk þess er þar nýtt viðhengi þar sem sérstaklega er vikið að því hvers virði það sé fyrir útgerðina að eytt sé óvissu um framtíð aflamarkskerfsins. Nýja gerðin finnst hér: Fyrningarleið 25juni2020

Í hnotskurn er í báðum gerðum greinargerðarinnar reifuð leið um breytt fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem grundvallast á hugmynd um hægfara fyrningu aflahlutdeilda, þ.e. endurúthlutun þeirra að stærstum hluta en það sem losnar við fyrninguna sé boðið upp. Fjallað er um afbrigði af grunngerð fyrningarleiðarinnar m.a. með vísan til kosta hennar og galla.

 

Aukum rétt kjósenda strax

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]

Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.

Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.

Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.

Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.

Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.

Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði


 

Hvaða þingmenn standa tæpast?

Höfundur hefur ritað greinargerðir um úrslit allra þingkosninga á þessari öld, en er enn að dunda sér við að semja þá um kosningarnar 29. október 2016. Kallað hefur verið eftir kaflanum þar sem fjallað er um tæpustu tölur. Þeim kafla má þjófstarta með því að klikka hér: atkvaedabreytingar-2016.

Líta verður á þennan kafla sem drög. Hann kann að breytast eitthvað í lokagerð, en varla efnislega.

Þurfum við ríkisstjórn?

Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi –  að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.

„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.

Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.

Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.

Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði  þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!

 

Færeyingar leggja til að fiskveiðiheimildir verði alfarið boðnar upp

[Við Jóns Steinsson, hagfræðingur höfum tekið saman eftirfarandi yfirlit yfir fyrirætlanir Færeyinga um kvótauppboð og komið efninu á framfæri við nokkra fjölmiðla.]

Nefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra Færeyja skilaði 3. október s.l. ítarlegri skýrslu um skipan fiskveiðistjórnunar sem taki gildi í ársbyrjun 2018 en þá falla núverandi fiskveiðistjórnunarlög úr gildi. Skýrsluna má finna á vef ráðuneytisins færeyska; sjá http://www.fisk.fo/kunning/tidindi/neydugar-tillagingar-i-foroysku-fiskivinnuni/.

Skýrsla nefndarinnar ber heitið „Ný og varanleg skipan fiskveiðimála fyrir Færeyjar“. Hún er afar ítarleg, nær 250 síður að lengd, og áhugaverð fyrir alla þá sem er umhugað um að finna góða málamiðlun í kvótamálunum hér á landi.

Nefndinni var með erindisbréfi ráðherra falið að fjalla um öll lykilatriði í skipan færeysks sjávarútvegs. Í þessu yfirliti verður þó einblínt á þann þátt í erindisbréfinu sem felur nefndinni að útfæra skipan á stjórnun veiðanna sem byggir á markaðslausnum. Nefndin leggur til að þetta verði útfært með uppboðum á veiðiheimildum. Nánar tiltekið leggur hún til  að árlega verði allstór hluti fiskveiðiheimilda boðinn upp en rétturinn að afganginum framlengdur til árs í senn. Þó skal það þannig gert að þegar frá upphafi renni auðlindarentan að fullu í landssjóð. Lagt er til val á milli tveggja leiða sem þó eru náskyldar. Hér verður þó aðeins horft til þeirrar leiðarinnar sem er einfaldari í framsetningu, leiðar 2.

Þessa meginleið færeysku nefndarinnar má bera saman við hugmyndir hér á landi um varfærna fyrningu veiðiheimilda og uppboð á þeim heimildum sem þannig losna. Má þar vísa til skýrslu sem við undirritaðir unnum fyrir stjórnskipaða nefnd um endurskoðun á stjórn fiskveiða sumarið 2010, nánar tiltekið til þeirrar gerðar þar sem hluti aflaheimilda er boðinn upp til árs í senn en með skertum forleigurétti um framhaldið. Skýrsla okkar er aðgengileg hér: http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/tilbodsleidin.pdf

Bæði í færeysku hugmyndunum og hugmyndum okkar er gengið út frá aflamarkskerfi til ráðstöfunar á leyfðum heildarafla. Jafnframt hafa hugmyndirnar það sammerkt að í upphafi er gengið er út frá þeim heimildum sem útgerðirnar hafa þá og þeim endurúthlutað með vissri skerðingu eða fyrningu. Þessi skerðing haldi síðan áfram hlutfallslega á hverju ári. Það sem þannig losnar verði boðið upp til árs í senn með fyrirheiti um endurúthlutun en með fyrrgreindum skerðingarákvæðum. Í báðum hugmyndunum má setja tilbjóðendum skilyrði eins og að þeir verði að vera innlendir og að setja megi því skorður hvað safnast megi á sömu útgerð.

Hugmyndirnar eru þó gjörólíkar að því leiti að Færeyingar vilja bæði bjóða stærri hluta heimildanna upp á hverju ári en við lögum til í okkar hugmyndunum. Ennfremur fá núverandi handhafar veiðiréttindanna enga fjárhagslega aðlögun í tillögum Færeyinganna, en í okkar hugmyndunum er núverandi kvótahöfum veitt drjúg aðlögun. Draga má þennan afgerandi mun saman þannig:

  • Færeyingar vilja bjóða upp 20% heimildanna á hverju ári en endurúthluta 80%. Í okkar hugmyndum er gengið út frá mun hægari innkomu uppboða, eða 8% á ári. Endurúthlutunarhlutfallið er að sama skapi hærra í okkar tillögum, eða 92%.
  • Færeyingar veita þeim útgerðum, sem fyrir eru, engin grið. Enda þótt þeim sé gefin kostur á að fá 80% af fyrri heimildum endurúthlutuðum – fram hjá uppboðunum – þurfa þeir að greiða fyrir þær heimildir fullt verð, það verð sem verður til á uppboðunum. Í okkar hugmyndum fá núverandi kvótahafar 92% réttinda sinna framlengd og það án nokkurs endurgjalds, en með árlegri skerðingu.
  • Auðlindaarðurinn – sá umframarður sem verður til við nýtingu takmarkaðra en eftirsóttra gæða – er strax í upphafi innheimtur að fullu í landssjóðinn í tillögum Færeyinga. Í okkar hugmyndum er aðeins 8% arðsins innheimtur á fyrsta ári og eftir að nýtt kerfi væri búið að vera í gildi í 9 ár skiptist þessi aukaarður enn að jöfnu milli samfélagssjóða og gömlu útgerðanna.

Aðferðafræðin í hugmyndum færeysku nefndarinnar og í uppboðs- og fyrningarleiðinni eins og við höfum útfært hana er að grunni til eins. Það sem á milli skilur er hvað Færeyingar vilja fara greitt af stað. Okkar tillögur eru varfærnari og veita núverandi útgerðum mjög drjúgan aðlögunartíma.

Meginatriðin í færeysku hugmyndunum og okkar hugmyndum koma fram í eftirfarandi viðauka, þar sem tillögurnar eru um leið bornar saman.

 

Þorkell Helgason, thorkellhelga@gmail.com, + 354 499 3349 og + 354 893 0744

Jón Steinsson, jsteinsson@columbia.edu, +1 857 919 3675


 

 

Viðauki: Samanburður á tillögum nefndar Færeyinga og okkar hugmyndum um fyrningar- og uppboðsleið. Þau atriði þar sem verulegu munar eru með rauðu letri.
Atriði Færeyingar Þorkell og Jón
Stjórn fiskveiðanna Aflamarkskerfi, þar sem skilgreindur er leyfilegur afli hvers fiskiskips af hverri tegund á viðkomandi ári. Aflamarkskerfi, eins og verið hefur og tillaga Færeyinga gengur út frá.
Uppboð 20% aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun. 5-15% (t.d. 8%) aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun.
Fyrirkomulag uppboða Ýmsar hugmyndir reifaðar en lagt til að leitað verði til alþjóðlegra sérfræðinga um endanlega útfærslu. Setja megi ýmis skilyrði, svo tilboð aðeins frá innlendum útgerðum og takmörkun á samansöfnun. Fyrirkomulagið er reifað, en einkum bent á jaðarverðsuppboð þar sem enginn greiði meira en felst í því lægsta tilboði sem tekið er. Sömu skilyrði nefnd og hjá Færeyingum.
Endurúthlutun Útgerðum standi til boða að fá 80% aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað en gegn fullu markaðsgjaldi. Útgerðum standi til boða að fá 85-95% (sem dæmi 92%) aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað, en án endurgjalds.
Viðmið fyrningar og forkaupsréttar Afli fyrra árs. Aflahlutdeild fyrra árs.
Eru hlutföll endurúthlutana og fyrninga föst? Nei, þeim má breyta vegna breytinga á leyfðum heildarafla. Já, en þó eru reifaðar hugmyndir um breytileika.
Greiðsla fyrir endurúthlutun uppboðinna aflaheimilda Allir greiði að fullu fyrir endurúthlutaðar heimildir, það sama verð og fram kemur í uppboðunum. Greitt verði uppboðsverð hvers tíma fyrir framlengingu þeirra aflaheimilda sem fegnar hafa verið til ársleigu á uppboðunum.
Greiðsla fyrir endurúthlutun gamalla aflaheimilda Reglan um greiðslu fyrir framlengingu leyfa gildir jafnt um þá sem stunduðu veiðar fyrir upptöku nýs kerfis sem og hinna sem afla sér nýrra heimilda á uppboðunum. Allir greiða fullt auðlindagjald. Þeir sem eru handhafar kvóta þegar kerfið tekur gildi þurfa EKKI að greiða neitt fyrir hinn endurúthlutaða hluta leyfa sinna.
Greiðslufyrirkomulag Nefndur er sá möguleiki að ekki þurfi að greiða fyrr en fiskinum er landað. Jafnframt bent á að greiðsla fyrir endurúthlutuð leyfi geti tekið mið af almennu fiskverði. Allt þetta kemur og til greina í hugmyndum undirritaðs, en viðmiðið við fiskverð virðist bæði flókið og óþarft, þar sem breyting á fiskveði mun strax endurspeglast í uppboðsverðinu.
Aðlögun núv. útgerða Engin aðlögun. Allir greiða markaðsverð fyrir allar veiðiheimildir. Eina aðlögunin er forkaupsréttur m.v. fyrri afla (kvóta). Mikið forskot. Núverandi kvótahafar fá endurúthlutað, með vægri skerðingu, endurgjaldslausa kvóta.
Auðlindarentan Skilar sér strax að fullu í landssjóðinn. Núv. kvótahafar halda eftir um helmingi auðlindarentunnar, þegar allt framtíðarvirðið er dregið saman á núvirði.

 

Kvótakerfið: Kjósendur eiga valið

[Eftirfarandi pistill eftir Þorkel Helgason og Bolla Héðinsson birtist í Fréttablaðinu 20. október 2016 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/kvotakerfid–kjosendur-eiga-valid/article/2016161029996]

Fyrir skömmu rituðum við grein í Fréttablaðið þar sem við lýstum fyrningar- og útboðsleið. Málið snýst um það hvernig ráðstafa skuli aflahlutdeildunum og innheimta eðlilegan auðlindaarð í gegnum varfærin útboð. Við teljum það raunhæfa málamiðlun. Af þeim flokkum sem bjóða fram í komandi kosningum verður að ætla að hið minnsta Björt framtíð, Dögun, Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri grænir, vilji að farin verði leið í anda þeirrar sem þar er reifuð.

Núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, hafa hingað til viljað halda sig fast við óbreytt kerfi sem mun smám saman færa útgerðinni eignarhald á þjóðareigninni, fiskimiðunum, gegn óverulegu afgjaldi. Veiðigjöld hafa verið lækkuð á kjörtímabilinu að tilstuðlan þessara flokka. Á hinn bóginn er augljóst að þrýstingur frá kjósendum fer sívaxandi um að horfið verði frá þessu gjafakvótakerfi eins og það er einatt nefnt. Þessi vilji kjósenda kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 á þann hátt að meira en 80% þeirra vilja að ákvæði um þjóðareign á auðlindunum sé fest í stjórnarskrá.

Hvað vilja ríkisstjórnarflokkarnir?

Stefnuskrár stjórnarflokkanna eru afar rýrar um kvótamálin, sé horft til þess sem er að finna á vefsíðum þeirra. Það eina bitastæða, sem fram hefur komið um breytta stefnu úr herbúðum þeirra er frá Jóni Gunnarssyni alþingismanni og formanni atvinnuveganefndar Alþingis. Hann hlýtur því að teljast helsti talsmaður þessara flokka í kvótamálunum enda heyra þau undir nefnd hans. Jón hefur lýst hugmyndum sínum í grein í Morgunblaðinu 4. júlí sl. svo og í viðtali á morgunvakt á RÁS 1 hinn 19. september sl. Hann telur leið sína vera sáttaleið í þessu lykilmáli þjóðarinnar. Þessi leið verður hér eftir nefnd „ríkisstjórnarleiðin“.

Ríkisstjórnarleiðin er í vissulega einföld: Núverandi kvótahafar fái fiskimiðin afhent til langs tíma, væntanlega til eilífðarnóns, gegn því að skila ríkinu broti af þessum verðmætum. Lagt er til að útgerðin skili 5-7% kvótanna til eigendanna, þjóðarinnar, en haldi eftir 93-95% og þá endurgjaldslaust. Þetta gerist í eitt skipti, aðeins í upphafi þurfa útgerðirnar að láta 5-7% aflaheimilda sinna af hendi og síðan ekki söguna meir. Fyrirkomulagið er að vísu fært í flóknari búning; þann að útgerðin haldi kvótunum að fullu en láni ríkinu 5-7% af aflamarki hvers árs sem það geti síðan leigt út til smáútgerðanna. Leigugjaldið, sem ríkið kunni að fá, komi þá í stað veiðigjalds sem útgerðirnar greiða nú. Þar með séu kvótahafarnir kvitt við þjóðina.

Fyrning eða smáskil í eitt skipti

Hver er munurinn á ríkisstjórnarleiðinni og þeirri hugmynd um fyrningu og uppboð sem hefur lengi legið fyrir? Á þessu tvennu er reginmunur eins dregið er fram í meðfylgjandi töflu.

 

Fyrningar- og uppboðsleið Ríkisstjórnarleiðin
Hvar enda kvótarnir? Færast smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar. Verða að langmestu leyti (amk. 93%) að ævarandi eign núverandi kvótahafa.
Hvert skilar auðlindaarðurinn sér? Þegar upp er staðið til þjóðarinnar í þeim mæli sem útgerðin sjálf telur sig ráða við. Aðeins 5-7% af arðinum skilar sér til baka. Útgerðin heldur eftir afganginum.
Markaðslausn? Já, þær aflahlutdeildir sem losna á hverju ári eru boðnar upp. Leigukvótarnir, sem útgerðin skilar, ættu að geta farið á markað. En þetta er aðeins brot af verðmætunum.
Eru allir jafnréttsettir? Já; þegar í byrjun verður enginn greinarmunur á þeim sem kaupa kvóta á uppboðum og hinum sem hafa þá frá fyrri tíð. Nei; annars vegar verða það núverandi kvótaeigendur, sem halda amk. 93% kvótanna, en hinir verða leiguliðar.
Pólitísk inngrip? Það er pólitísk ákvörðun að ákveða fyrningarhlutfallið í upphafi, en eftir það er þarf engin inngrip. Viðbúið að skilahlutfallið á aflamarki verði að árlegu pólitísku bitbeini. Sömuleiðis ráðstöfunin á ríkisleigukvótunum.
Er leiðin þegar útfærð? Fyrningarfyrirkomulagið sjálft er sáraeinfalt. Útfærsla á uppboðunum kallar á vandaðan undirbúning. Það er einfalt að afhenda núv. kvótahöfum 93% kvótanna til eilífðarnóns. En eftir situr útfærsla á kvótaleigu ríkisins.
Verður kollsteypa? Nei; það verður engin kollsteypa.  Með hóflegri fyrningu fær útgerðin ríflegan aðlögunartíma. Útgerðarmenn, núverandi og nýir, munu hafa megnið af sínum réttindum tryggð frá einu ári til þess næsta. Það ekkert stórmál fyrir útgerðina að skila lítilræðinu 5-7% af kvótunum. Ríkisstjórnarleiðin felur hins vegar í sér kollsteypu eigi hún að vera jafngild fyrningarleiðinni.
Er þetta sáttaleið? Núvirði alls auðlindaarðsins skiptist nokkuð jafnt á milli þjóðarinnar og útgerðarinnar. Er það ekki ekta málamiðlun, sáttleið? Kjósendur verða að dæma um það hvort það felist sátt í því að afhenda einkaaðilum 93% þjóðareignarinnar endurgjaldslaust.
Varanleg lausn Eftir að kerfið er komið á heldur það sér sjálft við og er því til frambúðar. Aðeins varanleg lausn ef þjóðin getur sætt sig hina miklu eftirgjöf.

Í þingkosningunum 29. október nk. verða kjósendur m.a. að taka afstöðu til hugmynda um farsæla lausn á áratuga deilumáli, um skiptingu þeirra miklu gæða sem felast í  nýtingu fiskimiðanna. Fyrningarleiðin er leið til að hafa opna gegnsæja tilhögun á úthlutun veiðiheimilda þar sem allir standa jafnir og þjóðin sér og veit að tímabundin úthlutun fiskveiðiheimildanna er á valdi þjóðarinnar en ekki forréttindi fárra.

Valkostirnir eru vald stjórnmálamanna í bakherbergjum með þeirri óvissu sem því hefur fylgt eða markaðsákvarðanir sem teknar yrðu með útboði fyrir opnum tjöldum með tilboðum frá fyrirtækjum sem gerst þekkja eigin rekstur og vita hvaða upphæðir þeir treysta sér til að bjóða.

Vilja kjósendur  þá flokka sem hyggjast festa óbreytt ástand í sessi með varanlegri afhendingu nánast allra aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna? Eða vilja þeir að farin sé varfærin málamiðlunarleið sem færi auðæfin til baka til samfélagsins? Þessu verður að svara við kjörborðið.