by Þorkell Helgason | nóv 19, 2013 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2013]
Þorkell Helgason:
Uppbygging
Skálholt var í raun höfuðstaður landsins um aldir. Síðan hallaði undan fæti og um miðja síðustu öld var þar orðið lítt meira en stekkur. En þá spratt upp hreyfing um endurreisn staðarins en fyrir henni stóð einn mesti kirkjuhöfðingi seinustu aldar, sr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Allt gekk undravel. Vinir staðarins nær og fjær, ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum, gáfu fé og önnur verðmæti sem dugðu til að reisa þá göfugu höfuðkirkju sem þar stendur, verk Harðar Bjarnasonar húsameistara og hans manna, skreytt ómetanlegum listaverkum þeirra Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur. Við vígsluna fyrir fimmtíu árum færði þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni jörðina Skálholt að gjöf og með vilyrði um viðvarandi heimanmund.
Sumarið 1975 hófst það menningarstarf í Skálholti sem alþjóð þekkir, Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Helga Ingólfsdóttir, sem þá var nýkomin frá námi í semballeik, fyrst Íslendinga, og um leið brautryðjandi í túlkun barokktónlistar, hreifst af Skálholti og skynjaði hvílíkt undur hljómburður í Skálholtskirkju er fyrir þá tónlist sem hana langaði að koma á framfæri. Fjölmargir komu til liðs, svo sem Manúela Wiesler sem töfraði alla með flautuleik sínum. Margir heimsfrægir tónlistarmenn urðu þátttakendur, jafnvel þótt þeir eins og aðrir fengju litla sem enga umbun fyrir. Brautryðjandi í endurvakningu barokktónlistar, Hollendingurinn Jaap Schröder, hefur tekið ástfóstri við Skálholt og komið á hverju sumri í tvo áratugi. Ekki nóg með það heldur hefur hann gefið geysiverðmætt nótna- og bókasafn sitt til staðarins.
En Sumartónleikarnir voru og eru ekki aðeins smiðja barokktónlistar, og þar með tónlistar Jóhanns Sebastíans Bachs, heldur markaði Helga strax í upphafi þá stefnu að Sumartónleikarnir ættu að vera miðstöð nýrrar tónlistar. Tónskáld voru fengin til að semja, ekki einhverja tónlist heldur þá sem hæfði staðnum og helgi kirkjunnar. Tónskáldin hlýddu þessu kalli, bæði þau sem þekkt voru en ekki síður ungskáldin sem náðu mörg að hasla sér völl í gegnum Sumartónleikana. Tónverkin, stór og smá, sem frumflutt hafa verið á Sumartónleikum í Skálholtskirkju skipta hundruðum. Sum þeirra hafa orðið að þjóðargersemum, eins og Óttusöngur að vori eftir Jón Nordal við texta Matthíasar Johannessen; verk sem var endurflutt á kristnitökuhátíðinni á Þingvöllum aldamótaárið síðasta.
Sumartónleikar í Skálholtskirkju undir listrænni stjórn Sigurðar Halldórssonar sellóleikara stefna nú á fertugasta sumarið í starfsemi sinni. Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð er elsta starfandi barokktónlistarhátíð á Norðurlöndum. Af þeim sökum er ráðgerð mikil norræn hátíð á komandi sumri, á fertugsafmæli hátíðarinnar.
Niðurrif
En nú stefnir í að öll þessi uppbygging og starf í Skálholti verði lagt í rúst og það strax á komandi ári. Kirkjuráð, sem virðist búið að taka öll völd innan Þjóðkirkjunnar, ætlar að leigja allan staðinn út undir ferðamennsku. Þetta kom fram á kirkjuþingi því sem haldið er þessa dagana. Hvorki vígslubiskupinn í Skálholti né aðrir heimamenn hafa verið spurðir álits á þessari ákvörðun æðsta ráðsins. Þeir sem vilja koma til starfa á staðnum mega þá þóknanlegast borga hótelprísa fyrir allan beina og það ekki af lægra taginu, því að þetta á að verða mikill bisness sem skili fúlgum fjár. Sumartónleikarnir munu þá leggjast af. Kirkjuráð hefur smám saman verið að skera niður fjárframlag til Sumartónleikanna og var ekkert beint framlag á seinasta sumri. En nú á að úthýsa þeim alveg.
Vígslubiskupa á að leggja niður í núverandi mynd. Þetta kemur fram í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem liggur fyrir kirkjuþingi sem situr þegar þetta er ritað. Greinargerð með frumvarpinu tekur af allan vafa um þessa ætlan. En ekki aðeins það. Heldur stendur nú til að gera sjálfan biskup Íslands að „undirkontórista“, ekki í kirkjumálaráðuneytinu eins og segir í Kristnihaldi Kiljans, heldur hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi. Þetta jaðrar við að biskupi sé steypt af stóli. Alþingi Íslendinga verður að hafna þessu ákvæði frumvarpsins.
Rekstur Skálholtsstaðar mun hafa verið í ólestri og skuldir höfðu safnast upp. En núverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, hefur náð að snúa þeirri þróun við. Það þarf því ekki að braska með Skálholt til að bæta fjárhag staðarins. Hver hefur gefið þessu Kirkjuráði heimild til að setja Skálholt undir Mammon? Samræmist það skilmálum gjafar ríkisins? Stjórnvöld verða að svara því. Er þá ótalin sú vanvirða sem öllum þeim er sýnd sem hafa lagt líf sitt og sál til endurreisnar Skálholts.
Mala domestica maiora sunt lacrimis varð Brynjólfi Skálholtsbiskup að orði um harmasögu sína og sinna. Nú dugar ekki harmagrátur heldur verður að skera upp herör gegn atlögunni að Skálholti, einum þeirra höfuðstaða sem geyma okkar þjóðarsál að fornu og nýju. Það á enginn að geta ráðskast með Skálholt með þessum hætti, ekki frekar en Þingvelli. Skálholt er þjóðareign – eins og Þingvellir.
Höfundur er ekkill eftir Helgu Ingólfsdóttur
by Þorkell Helgason | ágú 25, 2011 | Á eigin vefsíðu
Myndina af Skálholtskirkju tók Eiður Guðnason 12. ágúst 2011. Norðaustan við kirkjuna sést upphleðsla sú sem þegar er komin ofan á tóft Þorláksbúðar. Innfelda myndin sýnir hýsið sem stendur til að rísi þarna á kirkjuhólnum og kynnt er á spjaldi sem grillir í norðan við tóftina.
[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2011]
Í Kristnihaldi undir Jökli hefur Umbi eftir biskupi „að risin væri höfuðósmíð fyrir vestan“ en þar er sú kirkja sem séra Jón Prímus telst þjóna. Umbi staðfestir þetta: „Það er eitt fyrir sig að ekki hafa þeir getað látið þetta ferlíki standa samhliða kirkjunni, heldur hornskakt á hana. Annaðhvort höfðu þeir sem reistu ekki tekið eftir að þarna var kirkja, ellegar vildu troða kirkjunni um tær.“
Slík „höfuðósmíð“ er að rísa norðan við Skálholtskirkju, hornskakkt á kirkjuna. Kannski er það ekki „ferlíki“ en treður Skálholtskirkju vissulega um tær. Sagt er að verið sé að endurreisa „fornar rústir“ Þorláksbúðar, tóftar sem enginn veit mikil deili á. Tóftin má vera í friði, en að fara að búa þar til gervifornminjar er „til merkis um … inkongrúens, … í því fólginn að vera ójafn að stærð og lögun við alla hluti í kríngum sig“ eins og Umbi skráir um „skrauthýsi sem próf. dr. Godman Sýngmann hefur látið reisa hornskakt á kirkjuna (fylgir mynd).“ Lesendur Kristnihaldsins fá ekki að sjá myndina sem Umbi tók fyrir vestan, en meðfylgjandi mynd varpar ljósi á ósmíðina í Skálholti.
Hver ber ábyrgð?
Margt er á huldu um það hverjir beri ábyrgð á þessum verknaði.
Í fundargerð kirkjuráðs 15. apríl 2010 segir að félag áhugafólks hafi „í hyggju að byggja upp búð með grjóthleðslu og timbri á rúst hinnar gömlu Þorláksbúðar.“ Hinn 15. desember sama ár veitir kirkjuráð 1,5 m.kr. á ári í þrjú ár til verkefnisins, en fram kemur að kostnaðaráætlun sé upp á 38 m.kr. Gögn voru ekki fullnægjandi og ráðið „heimilar ekki frekari verklegar framkvæmdir við Þorláksbúð í Skálholti uns framangreind gögn liggja fyrir og hafa fengið staðfestingu og samþykki kirkjuráðs.“ Bersýnilegt er á þessu að framkvæmdir eru þá hafnar án allra leyfa, sbr. það sem síðar segir. Næsta bókun kirkjuráðs finnst 2. mars 2011. Þar kemur fram að bókunin frá 15. desember hafi verið kynnt fyrirsvarsmanni Þorláksbúðarfélagsins, Árna Johnsen. Mánuði síðar, 6. apríl, virðist umræddur fyrirsvarsmaður hafa náð sínu fram, en þá samþykkir kirkjuráð að sækja um leyfi til framkvæmdarinnar.
Hinn 20. apríl 2010 er málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd svæðisins þar sem málaleitan um „uppbygging[u] á Þorláksbúð“ er samþykkt með skilyrðum. Fram kemur að mannvirkið sé 90,1 m2 eða 244,7 m3. Byggingarfulltrúi frestar afgreiðslu málsins á fundi 28. apríl „vegna ófullnægjandi gagna“. Leit á vef byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu gefur engar frekari vísbendingar. Hefur byggingarleyfi verið veitt? Engu að síður „heimilar kirkjuráð að framkvæmdir við húsið haldi áfram í Skálholti“ eins og fram kemur í bókun ráðsins 6. apríl 2011.
Arkitekt Skálholtsskóla, Manfreð Vilhjálmsson, hefur aldrei verið spurður um framkvæmdirnar, né heldur Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt staðarins sem hefur séð um skipulagsmál þar. Garðar Halldórsson, síðasti húsameistari ríkisins, kannast heldur ekkert við málið en hann fer með umsjá yfir arfleifð þess sem teiknaði kirkjuna, Harðar Bjarnasonar húsameistara. Á túninu umhverfis kirkjuna hefur til skamms tíma ekkert risið upp fyrir grassvörðinn annað en lágreist leiði. Hörður Bjarnason vildi bersýnilega að kirkjan fengi að standa ein og óáreitt fyrir öðrum mannvirkjum.
Hver er Godman Sýngmann ?
Hugsanlega var það Byron lávarður sem fyrstur benti á að sannleikurinn sé einatt undarlegri en nokkur skáldskapur. Það er eins og Halldór Laxness hafi séð firringuna í Skálholti fyrir sér, en úr yfirheyrslu Umba yfir séra Jóni Prímusi má lesa: „Umbi: Hvað viljið þér segja um þessa annarlegu húsasmíði hér á staðnum? Séra Jón: Þeir geta lagt á stað með þetta stykki fyrir mér hvenær sem þeir vilja, hvert á land sem er. Ég lít á það sem tjald. Umbi: Má bóka að þetta mannvirki hafi verið reist án leyfis prestsins og megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum þegar þau vilji? Séra Jón: Þér bókið það sem yður sýnist.“
„Upptimbranir af þessu tagi eru ytra kallaðar búngalóar, hvaða túnga sem það kann að vera og hvað sem það kann að merkja. Venjulega á orð þetta við lágreist sveitahús einsog ríkir menn hvítir í nýlendum hafa smíðað sér til að herma eftir húsagerð innborinna“. Þetta færði Umbi í skýrslu sína til biskups. Slíkan búngaló er nú verið að reisa utan í Skálholtskirkju.
Smekkleysuna í Skálholti verður að stöðva tafarlaust og færa tóftina til fyrra horfs; „megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum“ eins og Halldór Laxness lætur Umba bóka. Godman Sýngmann á ekkert erindi í Skálholt.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur, áhugamaður um málefni Skálholts.
by Þorkell Helgason | feb 17, 2011 | Á eigin vefsíðu, Greinar
[Þessi pistill birtist á mbl.is 17. febrúar 2011 og í styttri gerð á 22. síðu Morgunblaðsins sama dag. Því miður hafa skáletur og gæsalappir utan um tilvitnanir farist fyrir hjá Mogganum. Lesið því heldur grein þessa hér.]
Hvers vegna verður orðræða um þjóðmál á Íslandi svo oft að skætingi eða aulafyndi um leið og gert er lítið úr þeim sem eru annarrar skoðunar, þeir gerðir tortryggilegir í hvívetna eða þeim jafnvel gerðar upp illar hvatir? Hvers vegna er lítt hirt um staðreyndir heldur kastað fram fullyrðingum án rökstuðnings, einatt án þess að minnsta tilraun sé gerð til að grafast fyrir um sannleiksgildi þeirra?
Í dagbók sem Matthías Johannessen hefur birt á vefsíðu sinni segir skáldið frá því að 18. maí 1998 hafi hann snætt hádegisverð með Davíð Oddssyni, þáv. forsætisráðherra, og þriðja manni þar sem borið hafi á góma skrif tveggja blaða sem einkennist af allskyns illgirni sem komið sé fyrir í litlum klausum, eins og Matthías skrifar, og segir síðan að Davíð [sé] sama sinnis og ég um þetta efni; að fólk vilji ekki kaupa illgirni. Þessi orð eiga ekki síður við nú en þá.
Dylgjur
Undanfarið hefur a.m.k. í þrígang verið dylgjað um undirritaðan í Morgunblaðinu í sambandi við stjórnlagaþingið og kosninguna til þess. Ég hef hummað þetta fram af mér og hugsað sem svo að dylgjur afhjúpi sig sjálfar. Ástæða þess að ég svara þessu núna er því fremur til að nota tækifærið til að koma á framfæri nokkrum réttum upplýsingum um viðfangsefnið, kosninguna til stjórnlagaþingsins og aðkomu mína að því máli öllu.
Þau skrif sem ég ætla að bregðast við eru annars vegar frá ónafngreindum höfundi tveggja Reykjavíkurbréfa og hins vegar frá fyrrverandi ráðherra, Guðna Ágústssyni.
- Á s.l. aðfangadag jóla fékk ég og félagi minn þessa sendingu í Reykjavíkurbréfi: [T]il þess að kjósa til slíkrar ráðstefnu [stjórnlagaþingsins] skyldi nota kosningaaðferðir sem ekki nokkrir menn skildu nema þá helst þeir tveir sem sömdu kerfið og höfðu síðan geð í sér og siðferðisstyrk til að bjóða sig fram. Þessir tveir óþurftarmenn er ekki nafngreindir, en við erum aðeins tveir sem falla að lýsingunni, ég og Pawel Bartoszek.
- Eftir að Hæstiréttur felldi hinn alkunna úrskurð um ógildingu kosningarinnar var langur bálkur í Reykjavíkurbréfi 30. janúar. Honum lýkur með þessu: Aðeins þrír menn í heiminum skilja regluna. Einn er indverskur prófessor, sem lést fyrir fáeinum misserum. Annar missti vitið við vinnslu málsins og er nú talinn reika um í regnskógum Suður-Ameríku. Sá þriðji er vanhæfur til að fjalla um það, því hann skellti sér í framboð til stjórnlagaþings eftir að hann var búinn að fá stjórnmálamenn sem botnuðu ekki neitt í neinu til að lögfesta regluna. Pawel virðist nú sloppinn en ég sit uppi með það að hafa afvegaleitt stjórnmálamennina.
- Guðni Ágútsson skrifar í blaðið 3. febrúar: Þegar tæknimeistararnir höfðu komið andanum eða reiknireglunum í heilann á róbótanum sem taldi atkvæðin á dularfullan hátt, brugðu þeir á það undarlega ráð að fara sjálfir í framboð, menn sem bjuggu yfir miklu leyndarmáli. Hugsunin er sú sama og hjá ritstjóranum nafnlausa en nú er gengið sínu lengra, ekki aðeins vandlæting yfir framboði mínu heldur beinlínis verið að væna mig (og Pawel?) um e.k. „innherjasvik“ að hætti útrásarvíkinga. Ætli slíkt sé ekki athæfi sem varði við margra ára tugthús?
- Enda þótt það snerti ekki sjálfan mig get ég ekki stillt mig um að vitna áfram í orð Guðna: Ennfremur virðast varaþingmenn hafa brotið lögin, fóru í framboð og tveir þeirra náðu kjöri. Það lét yfirkjörstjórnin átölulaust. Það átti að standa þó lögin hafi harðbannað svoleiðis fólk, svo ekki sé talað um alþingismenn. Jafnframt heyrði ég talað um að aðstaða frambjóðenda hefði verið mjög misjöfn, einhverjir þeirra hefðu sent tölvupósta í þúsundavís, þess vegna á kostnað almennings, aðrir höfðu yfir engu fé að ráða. Mér er sagt að sigurvegari kosninganna hafi hlotið 3% atkvæða og að 14 stjórnlagaþingmenn hefðu alls ekki náð kosningu. Þessar aðdróttanir eru rangar, enda byggðar á Gróu á Leiti samanber hina merku heimild „mér er sagt“. En báðar þær talnafullyrðingar sem settar eru fram í síðustu setningunni eru kolrangar. Sá sem fékk flest atkvæði í kosningunni, og það að fyrsta vali, fékk nær þrefallt meira fylgi en Gróa sagði Guðna, eða tæp 9%, og fullyrðingin um að 14 stjórnlagaþingmenn hefðu alls ekki náð kosningu hefur margoft verið rekin ofan í Gróu.
Svör
Hverju er til að svara og þá með það í huga að upplýsa?
- Er kosningaraðferðin, hin svokallaða STV-aðferð, íslensk uppfinning? Höfundur Reykjavíkurbréfanna telur uppfinningarmanninn hafa verið undirritaðan. (Sama segir Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, í mörgum bloggpistlum sínum en það væri að æra óstöðugan að eltast við þau skrif öll.) Hið rétta er að höfundar aðferðarinnar voru tveir, Englendingurinn Thomas Hare og Daninn Carl Andræ, báðir uppi á 19. öld. STV-aðferðinni er beitt víða um lönd og er til í ýmsum gerðum en sú útfærslan sem notuð var hér er skosk, ekki íslensk. Írar hafa einna mesta reynslu af aðferðinni en þar hefur hún verið notuð í öllum kosningum í ein 90 ár. Á Bretlandi var stofnað félag árið 1884, Electoral Reform Society, til að berjast fyrir því að STV-aðferðin verði tekin upp í almennum kosningum þar í landi. Félagið hefur nú unnið þann áfangasigur að breska ríkisstjórnin ætlar að leggja það í þjóðaratkvæði að horfið verði frá meirihlutakosningum og tekið upp afbrigði STV-aðferðarinnar í þingkosningum þar í landi.
- Hvers vegna varð kosningaraðferðin, STV-aðferðin, fyrir valinu hér? Höfundur seinna Reykjavíkurbréfsins telur að ég hafi vélað stjórnmálamenn sem botnuðu ekki neitt í neinu til að lögfesta regluna. Málavextir eru hins vegar þeir að ég var fenginn til þess á árinu 2009, ásamt fleirum, að semja frumvörp um innleiðingu persónukjörs í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Margar leiðir voru reifaðar, m.a. STV-aðferðin. Ríkisstjórnin valdi hana og tel ég það hafa verið gott val. Frumvarpið um stjórnlagaþing var seinna á ferðinni og þá þótti sjálfsagt að viðhafa sömu aðferð við kosningu til þess, þó ekki væri nema til þess að rugla ekki kjósendur í ríminu mörgum ólíkum reglum. Fróðlegt er að STV-aðferðinni var einna fyrst hampað hér á landi af foringjum ungliðahreyfinga „lýðræðisflokkanna“ eins og þeir voru kallaðir þá. Þetta var árið 1976 og þeir sem voru í forsvari heita Finnur Torfi Stefánsson, Jón Sigurðsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og hafa allir orðið þjóðþekktir menn. Sá síðast nefndi skrifaði ítarlega tímaritsgrein um aðferðina. Hann hefur heldur betur komið við sögu umrædds máls nú. Það má því rekja a.m.k. aldarfjórðung til baka að stjórnmálamönnum sé bent á þessa ágætu persónukjörsaðferð.
- Framboð mitt. Bæði ritstjórinn og Guðni lýsa vanþóknun sinni á því að ég hafi brug[ið] á það undarlega ráð að fara sjálf[ur] í framboð. Ég hef haft þann starfa um áratugaskeið að stýra opinberum stofnunum og jafnframt verið ráðgjafi stjórnvalda um margvíslega mál, ekki síst kosningamál. Ég taldi mig því hafa mikla reynslu af því hvernig stjórnkerfið virkar í reynd og búa yfir sérþekkingu um kosningafræði, allt sem gagnast mætti við endurgerð stjórnarskrár. Þeirri hugmynd laust því niður hjá mér að bjóða mig fram. Ég hugleiddi ítarlega hvort ég væri of nákominn viðfangsefninu til að geta farið í framboð og fór því í gegnum alla aðkomu mína að málinu en hnaut ekki um neitt sem gæti valdið hugsanlegum hagsmunaárekstri eða að ég hefði komið þannig að undirbúningi málsins að það hefði vanhæfi í för með sér. Ég ákvað því að liggja ekki á liði mínu og bjóða mig fram. Um leið og sú ákvörðun lá fyrir hætti ég ráðgjöf við stjórnvöld og fór í leyfi frá hlutastarfi mínu þar að lútandi. Fyrir þessu gerði ég grein á vefsíðu minni þegar ég bauð mig fram, sjá https://thorkellhelgason.is/?p=192.
- Leyndarmálið mikla. Guðni telur mig hafa búið yfir leyndarmáli eftir að hafa komið andanum í heilann á róbótanum (sem er orð sem var upphaflega notað um tölvur). Svona aðdróttanir eru grafalvarlegar. Vitaskuld kom ég hvergi nærri talningartölvunum eða forritun þeirra. Það var allt í höndum óháðra aðila, mestmegnis erlendra. Að öðru leyti er svona aulafyndni ekki svaraverð. En aðdróttanirnar kynnu að varða við meiðyrðalöggjöf. Það verður þó látið liggja á milli hluta en ég get bent á verðlaunaða menningarstarfsemi í fyrrum kjördæmi ráðherrans sem hann mætti styrkja til að sýna iðrun og yfirbót.
Niðurlag
Margt fleira mætti upplýsa um hina merkilegu kosningu til stjórnlagaþings sem heppnaðist vonum framar sem slík – og læt ég þá liggja á milli hluta þá þætti framkvæmdarinnar sem Hæstiréttur telur hafa verið með annmörkum. Þeim sem vilja vita meira um kosninguna bendi ég á vefsíðugrein mína um málið, sjá https://thorkellhelgason.is/?p=715.
Mikið væri ánægjulegra að búa á Íslandi ef hér væri upplýst og rökvís umræða um vanda okkar og viðfangsefni, þar sem hlustað væri á aðra án þess að gera lítið úr þeim, þar sem aulafyndi væri ekki notuð til að ná athygli. Ég er þess fullviss að sá góði hópur sem var kjörinn var til setu á stjórnlagaþingi 27. nóvember s.l. færi aðrar og uppbyggilegri umræðuleiðir en þær sem tíðkast hafa fengi hann til þess tækifæri.
by Þorkell Helgason | sep 9, 2007 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Sunnudaginn 9. september, 2007
UMRÆÐA um rafbíla er að aukast. Lengi vel var þá aðeins átt við bíla sem ganga alfarið fyrir rafmagni sem geymt er á rafhlöðum í bílunum. Þróun í gerð rafhlaðna í því skyni hefur þó ekki verið sem skyldi; rafhlöðurnar hafa ekki getað geymt nægilegt rafmagn til að akstursvegalengd á milli endurhleðslna væri viðunandi. En með gerð svokallaðra tvinnbíla hafa skapast ný viðhorf. Á útlensku kallast þeir „hýbrid-bílar“, en það eru bílar sem ganga í raun fyrir bensíni eða olíu, en nota jafnframt rafhreyfil og rafhlöðu til að auka nýtni eldsneytisins. Talsverður fjöldi slíkra bíla er þegar á götum hér á landi. En nú er skammt í næsta þrep í þessari þróun. Rafhlaðan í tvinnbílunum verður stækkuð þannig að hún nægi fyrir akstri á rafmagninu einu nokkra tugi kílómetra. Og það sem meira er, geymana má endurhlaða með rafmagni úr almenna rafkerfinu. Notkunarmunstur venjulegra einkabíla hérlendis er þannig að ætla má að tvinnbílar af þessari gerð geti gengið að þremur fjórðu hlutum fyrir innlendu rafmagni, en aðeins um fjórðungur orkunnar þurfi að koma úr innfluttu eldsneyti.
Í Morgunblaðinu og Blaðinu 7. sept. sl. eru fróðlegar frásagnir af þessum væntanlegu bílum. En þar eru þeir kallaðir „tengitvinnbílar“. Enska heitið á þessum bílum, „Plug-in Hybrids“, vísar til þess mikilvæga eiginleika þeirra að orkan í þá, rafmagnið, kemur í gegnum venjulega raftengla. Við á Orkustofnun höfum um nokkurt árabil fylgst með þessari þróun og fyrir tæpu ári var skrifuð skýrsla m.a. um slíka bíla. Áður en skýrslan var birt veltu málhagir menn á stofnuninni fyrir sér heiti á þessa gerð bíla og niðurstaðan var sú að kalla þá „tengiltvinnbíla“, þ.e.a.s. vísa skýrt til raftengilsins í heitinu. Án l-sins í nafninu þótti hætta á að heitið yrði tengt við annað orð sem hefur hlotið sess, „tengivagn“, og sá misskilningur kynni jafnvel að komast á kreik að rafhlöðurnar væru hangandi aftan í bílunum á e.k. tengivögnum!
Við mælum því með „tengiltvinnbílum“ þar til hugmynd um enn þjálla orð kemur upp.
ÞORKELL HELGASON
orkumálastjóri.
Frá Þorkeli Helgasyni
by Þorkell Helgason | mar 7, 2007 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Miðvikudaginn 7. mars, 2007
Þorkell Helgason gerir athugasemdir við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins
Í REYKJAVÍKURBRÉFI Morgunblaðsins 3. mars sl. eru athyglisverð skrif um nauðsyn þess að draga úr hvers konar mengun af völdum bílaumferðar, þar með talin losun bíla á gróðurhúsalofttegundum. Ritari Reykjavíkurbréfsins hvetur til aðgerða af hálfu hins opinbera og segir m.a.: „Í ljósi þess að ríkisvaldið getur með skattlagningu sinni ráðið miklu um útsöluverð bifreiða er nærtækt að spyrja af hverju sé ekki byrjað að undirbúa það í fjármálaráðuneytinu að breyta innflutningsgjöldum á bifreiðum til sama horfs og í Noregi.“ Framar í bréfinu hafði bréfritari nefnt að Norðmenn hefðu „ákveðið að innflutningsgjöld á bifreiðar fari eftir útblástursgildi“. Í leiðara Morgunblaðsins hinn 20. febrúar sl. hafði verið hvatt til hins sama, en þar er lagt til að „gjöldum á bifreiðar verði [hagað] þannig að það ýti undir kaup á bílum sem losa minna af gróðurhúsaloftegundum.“
Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi að breyting Norðmanna tók gildi um sl. áramót en er ekki jafnróttæk og sagt er í Reykjavíkurbréfinu; aðeins hluti innflutningsgjaldanna er gerður háður útblæstrinum. En hitt er mikilvægara að leiðrétta, að það sem Morgunblaðið leggur til að stjórnvöld geri er nú þegar á fleygiferð. Á Orkustofnun hefur um rúmlega þriggja ára skeið verið í gangi verkefni undir heitinu Vettvangur um vistvænt eldsneyti með það að markmiði að móta og samræma aðgerðir stjórnvalda til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og stuðla að nýtingu innlendrar orku í samgöngum og sjávarútvegi. Fyrir verkefninu fer stýrihópur sex ráðuneyta og er breið aðkoma að verkinu þannig tryggð. Í desember sl. var gengið frá skýrslu um stefnu Íslendinga í eldsneytismálum einkabifreiða. Tillögur um aðgerðir stjórnvalda. Iðnaðarráðherra og forsvarsmenn Vettvangsins kynntu skýrsluna á blaðamannafundi 5. febrúar sl. Skýrsluna er að finna á vef Orkustofnunar ásamt kynningarefni, sjá www.os.is/page/vve.
Á bls. 32 í skýrslunni eru settar fram eftirfarandi tillögur:
Í tillögunum er gengið mun lengra en Norðmenn gera. Burtséð frá nauðsynlegri gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu er lagt til að öll gjöld á bíla og notkun þeirra verði beintengd við „útblástursgildi“. Í þessu felst að af bílum sem ekkert losa (rafbílum, metanbílum, vetnisbílum) eru hvorki greidd stofngjöld, árlegir bílaskattar né eldsneytisgjöld (fyrir utan áðurnefnd veggjöld). Í skýrslunni eru sýnd dæmi um hugsanlega (varfærnislega) útfærslu á þessari kerfisbreytingu á gjaldtöku. Tillögurnar voru ræddar í ríkisstjórn og hlutu þar góðan hljómgrunn og hafa einstakir ráðherrar tjáð sig á opinberum vettvangi fylgjandi þessari stefnumótun. Undirbúningur er þegar hafinn að því að hrinda slíkri breytingu í framkvæmd.
Kerfisbreyting í þessa veru gæfi öllum, erlendum framleiðendum, innflytjendum og neytendum, skýr skilaboð um að það sé allra hagur að velja vistvæna bíla. Mikilvægur þáttur í tillögunum er að slíkir skattalegir hvatar hygla ekki einni tækni eða eldsneytistegund fram yfir aðra; enda er sama hvaðan gott kemur. Það er ekki ríkisins að velja tæknilausnina heldur á slíkt val að fara fram á markaði.
Um leið og Morgunblaðinu er þakkað frumkvæði þess í fyrrgreindum skrifum er blaðið hvatt til að kynna tillögur stýrihóps Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem virðast því miður hafa týnst í fjölmiðlafári um önnur mál. Hiklaust má telja að Ísland verði í fararbroddi í baráttu fyrir samdrætti í útblæstri frá umferð þegar þessar tillögur eru komnar til framkvæmda. Innleiðing tillagnanna ætti að verða meðal stefnuþátta ríkisstjórnar að loknum kosningum.
Aths. ritstj.
Málsgreinin í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem Þorkell Helgason vitnar til, var byggð á því, sem haft var eftir Þorsteini Þorgeirssyni, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, í umfjöllun blaðsins 19. febrúar sl. Þar sagði m.a.: „Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, segir „hlutfall bifreiða með dísilvélar síðan hafa aukist.“
Hann segir aðspurður þennan málaflokk vera í sífelldri endurskoðun. Hvað varði aðgerðir Norðmanna sé ekkert í bígerð sem stendur.“
Höfundur er orkumálastjóri og formaður stýrihóps Vettvang um vistvænt eldsneyti.