Stór hópur frambjóðenda hefur opnað vefsíðuna kjostu.org í þeim eina tilgangi að hvetja fólk til að kjósa.
En ekki er nóg að kjósa. Það verður að gera rétt. Munið að kosningarfyrirkomulagið er þannig að frambjóðandinn sem þú setur í efstu vallínu á kjörseðilinn hefur forgang að atkvæði þínu. Næsti maður á kjörseðlinum getur erft atkvæðið (eða hluta þess) frá þeim efsta undir tveimur kringumstæðum. Annars vegar ef sá efsti fær of lítið fylgi til að ná á kjöri eða hins vegar ef hann fær meira fylgi að hann þarf til að ná kjöri. Í báðum tilvikum færist atkvæði þitt (eða viðeigandi hluti þess) til næsta manns á þínum kjörseðli. Og svo koll af kolli. Þetta merkir líka að þú skaðar engan af þeim sem þú berð helst fyrir brjósti með að raða fleirum neðar á kjörseðilinn. En það er lykilatriði að menn raði: Þann efsta viltu helst, en að honum frágengnum viltu þann næsta sem þitt varaval og svo framvegis.
Ég hef nær alla starfsæfi mína komið að stefnumótun um nýtingu náttúruauðlinda. Í pistlinum Játningar fyrrverandi orkumálastjóra geri ég grein fyrir aðkomu minni að orku- og umhverfismálum. En ég hef líka langa reynslu af fiskveiðistjórnunarmálum. Bæði var að ég sinnti ýmissi reiknilíkanagerð á því sviði á prófessorsárum mínum en var einnig í vinnuhópum og nefndnum sem mótuðu kvótakerfið á fyrstu árum þess. Síðastliðið sumar var ég fenginn til að útfæra svokallaða tilboðsleið við útdeilingu á kvótum fyrir stjórnskipaða nefnd um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Í báðum þessum málaflokkum hef ég reynt að beita mér fyrir því tvennu að auðlindirnar séu nýttar af varfærni og með sjálfbærni í huga og hins vegar að aðgengi að nýtingu þeirra sé á jafnréttisgrundvelli og að eigandinn, þjóðin, njóti eðlilegs arðs. Þetta hvort tveggja er lífsnauðsynlegt til að friður geti skapast í þjóðfélaginu og að viðkomandi atvinnugreinar geti fengið starfsfrið okkur öllum til hagsbóta.
Ég nefndi það strax í upphafi við ráðamenn sjávarútvegsmála að kvótakerfið myndi leiða til þess að kvótarnir fengju umtalsvert verðgildi og nauðsynlegt væri að ákveða fyrirfram hvernig þeim verðmætum yrði skipt milli útgerðar og þjóðarinnar. Viðbrögðin voru þau að fyrst skyldum við sjá arðinn verða til, áður en við færum að ráðstafa honum. Ég svaraði að þá yrði það of seint; þá væru illdeilurnar hafnar. Ég hef því miður reynst sannspár. Ég er sannfærður um að hin erfiða staða sjávarútvegs nú væri mun betri hefði kvótunum strax verið ráðstafað með tilboðum, með eðlilegum forgangi þeirra sem voru þá í útgerð. Þá hefði kvótaverðið og þar með skuldsetning útgerðarinnar ekki farið út fyrir öll velsæmismörk.
Hvað vil ég þá nú fá sett í stjórnarskrá? Áður en ég svara vil ég benda á að það eru fleiri gæði sem þarf að takmarka aðgang að en orkulindir og fiskimið. Nefna má losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum og fjarskiptarásir af ýmsu tagi. Og fleiri tilvik munu koma til þar sem gæðunum þarf að skipta.
Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Í þá grein vil ég halda. En hvernig væri að næst á eftir henni kæmi önnur grein sem kvæði á um eign á almannagæðum? Ég ætla mér ekki þá dul að geta einn og óstuddur fært slíkt ákvæði í endanlegt letur; um það og allt annað sem ég mun leggja til, nái ég kjöri á stjórnlagaþing, vil ég hafa samráð við félaga á þinginu, sérfræðinga og almenning. En efnislega vil ég að greinin sé víðtæk en einföld og kveði á um þetta:
Takmörkuðum gæðum í eigu eða undir forsjá almannavaldsins má ekki ráðstafa varanlega. Heimilt er að framselja tímabundinn nýtingarrétt á þeim enda komi fullt verð fyrir. Þó er skylt að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem hafa fært sér gæðin í nyt áður en slík gjaldtaka er tekin upp.
Orðlagið „komi fullt verð fyrir“ er sótt beint í eignarnámsákvæði 72. greinarinnar.
Margs er að gæta við slíkt ákvæði, ekki síst fyrirvarans í seinni málsliðnum. Til útskýringar er best að taka fiskveiðikvótana sem dæmi. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar að það ætti að bjóða þá upp. Það má gera að settum ýmsum skilyrðum svo sem um tengsl við sjávarbyggðir. En auðvitað má spyrja hvort ekki sé orðið of seint að taka slíkt kerfi upp nú einkum í ljósi þess að margir hafa keypt sér kvóta dýrum dómum af öðrum útgerðarmönnum. Hvort þá verði ekki ranglætið ekki tvöfalt með því að innkalla þá kvóta og láta menn síðan kaupa þá aftur á uppboði. Það er með þetta eins og t.d. lausnina á skuldavanda heimilanna að það er engin lausn til sem getur ekki virst ranglát gagnvart einhverjum. En af þessum sökum tel ég að innköllun á núverandi fiskveiðikvótum verði að vera varfærnisleg. Í mínum huga hefur innköllunin fremur táknræna merkingu, þá að staðfesta að fiskimiðin séu þjóðareign, en að innheimta eigi umtalsverðan auðlindaarð til þjóðarinnar. Því gæti ég séð fyrir mér að innköllunarhlutfallið væri mjög lágt, t.d. 3% á ári.
Nú hef ég reifað ákvæði í stjórnarskrá um ráðstöfun á nýtingarrétti á takmörkuðum gæðum. Þá er ekki nema hálf sagan sögð. Nýting auðlinda stangast í flestum tilfellum á við viðhald og vernd náttúrugæða. Málamiðlun í þessum efnum er óhjákvæmileg og bráðnauðsynleg. Við erum þegar búin að ganga á náttúruna þó ekki væri nema með byggð, ræktun og vegagerð. Flest af þessu er landgæðanýting sem við viljum ekki vera án.
Þetta breytir því ekki að ég styð að í stjórnarskrá komi ákvæði um umhverfismál og náttúruvernd. Ég er ekki sérfræðingur í þeim málum og mun þar hlusta gaumgæfilega á tillögur annarra. Sem viðmið vil ég hafa orðalag úr frumvarpi til breytingar á stjórnarskránni sem foringjar fjögurra flokka lögðu fram á vorþinginu 2008, en þar segir m.a.
„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir.
Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“
Samandregið er afstaða mín í öllum þessum efnum skýr:
Ég vil að aðgengi að takmörkuðum gæðum í almannaeigu sé á jafnræðisgrundvelli og háð eðlilegu afnotagjaldi. Þessu tvennu tel ég best fyrir komið með markaðsleiðum, uppboðsaðferð, fremur en með loðnum ákvæðum og ráðherravaldi.
Samhliða tel ég rétt og skylt að allar breytingar séu varfærnislegar og sérstaklega að sé ekki traðkað á þeim sem hafa aflað sér aðgengisins dýrum dómum með kaupum frá öðrum sem var gert með leyfi stjórnvalda.
Ég vil málamiðlun og sættir milli nýtingar- og verndarsjónarmiða.
Ég styð ákvæði í stjórnarskrá um sjálfbæra þróun.
Ég vil ákvæði í stjórnarskrá um rétt almennings til heilbrigðs umhverfis svo og rétt til þátttöku í ákvarðanatöku í þeim efnum.
Ríkisútvarpið hefur verið að taka upp stutt viðtöl við frambjóðendur sem verða síðan send út næstu daga. Eftirfarandi eru punktar sem ég hafði mér til handargagns í þessari upptöku. Hér má segja að stefnuskrá mín og tilefni framboðs míns birtist í hnotskurn:
Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna? Hverju helst?
Fyrst vil ég segja að núgildandi stjórnarskrá er um margt góð enda samin undir áhrifum af frelsisanda nítjándu aldar.
Ég sé fyrir mér að stjórnarskráin hefjist á fögrum orðum um að það sé hlutverk alls almannavalds að vernda fólkið og virða reisn mannsins.
Ég vil styrkja þingræðið, það fyrirkomulag að ríkisstjórn starfi í umboði Alþingis.
Ríkisstjórn á að vera þjónn þingsins, ekki öfugt. Ráðherrar eiga því ekki að sitja á þingi.
Þá vil ég að ríkisstjórn beri sameiginlega ábyrgð á gerðum sínum, en ekki einstakir ráðherrar.
Um leið kalla ég eftir aukinni formfestu í öllum stjórnarathöfnum. Koma verður í veg fyrir að foringjar ríkisstjórnar geti ráðslagast með mál án vitneskju meðráðherranna, eins og dæmin sýna.
Efla þarf aðhald og eftirlit með valdinu undir forystu umboðsmanns Alþingis sem verði e.k. umboðsmaður fólksins.
Um leið og ég vil halda í málsskotsrétt forsetans sem neyðarhemil vil ég ákvæði um þjóðaratkvæði í stjórnarskrá. Hér verður þó að gæta hófs. Megintilgangurinn er að veita þingi og ríkisstjórn aðhald.
Ég vil ákvæði um auðlindir í þjóðareigu sem taki til allra takmarkaðra gæða eða réttinda í almannaforsjá.
Í því sambandi vil ég tryggja að fulls jafnræðis sé gætt við ráðstöfun slíkra gæða. Sérhver breyting í þeim efnum verður þó að hafa eðlilega aðlögun.
Atkvæðisrétt verður að jafna að fullu. Það tel ég best gert með því að gera landið að einu kjördæmi. Það gerir þingmenn ábyrga fyrir velferð allra, líka þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.
Um leið verður að útfæra persónukjör til að veita hverjum þingmanni sterkara umboð kjósenda.
Að lokum vil ég að stjórnarskráin sé endurskrifuð á mannamáli, því breytt sem breyta þarf en ekki sé verið að breyta breytinganna vegna.
Af hverju gefur þú kost á þér?
Ég býð mig fram vegna einlægs áhuga og vilja til að bæta stjórnarfarið og gera það tryggara að búa í okkar fagra landi.
Það sem ég hef til brunns að bera er menntun mín í stærðfræði svo og löng starfsreynslu m.a. sem aðalráðgjafi stjórnvalda um allt sem lýtur að kosningamálum.
Enda þótt ég hafi sterkar skoðanir á ýmsu í stjórnarskránni vil ég vera maður sátta og skynsemi.
Stjórnlagaþinginu er falið að skrifa sáttmála handa þjóðinni til að hún nái aftur fótfestu eftir hrun og aðra óáran.
Stjórnarskráin á eftir föngum að vera vörn gegn græðgi og afglöpum.
Því verðum við öll að kjósa á laugardaginn. Góð kosningarþátttaka verður sigur fyrir lýðræðið, fyrir vald fólksins.
Allmargir kjósendur hafa spurt um afstöðu mína í orku- og auðlindamálum, ekki síst í ljósi þess að ég var ráðuneytisstjóri í ráðuneyti orkumála og síðan orkumálastjóri alls í umfimmtán ár. Í þessum pistli fer ég stuttlega yfir sögu mína í þessum efnum en í öðrum pistli reifa ég sjónarmið mín til takmarkaðra náttúrugæða og umhverfismála, að svo miklu leyti sem það snertir endurgerð stjórnarskrár.
Áður en lengra er haldið vil ég benda á að í báðum umræddum störfum var ég embættismaður sem bar að þjóna mínum ráðherra til þeirra verka sem hann fýsti að hrinda í framkvæmd. Þetta er talin almenn skylda embættismanna að mati flestra lögspekinga sem um málið hafa fjallað. Ég tel nú, að fenginni reynslu, að þessu ætti að breyta að nokkru leyti þannig að embættismenn ættu að eiga ríkar skyldur við almenning og Alþingi, ekki síst um að veita upplýsingar, jafnvel að fyrra bragði. Á embættistíma mínum hafði ég tvennt að leiðarljósi um orkumálin: Að stuðla að sáttum milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða og að hvetja til þess að auðlindirnar yrðu verðlagðar eðlilega.
Sem ráðuneytisstjóri átti ég hlut að gerð tveggja skýrslna um nýtingu og verndargildi. Í annarri var farið yfir virkjunarkostina í heild sinni en í þeirri seinni var sérstaklega farið yfir allar hugmyndir um virkjanakosti norðan Vatnajökuls. Í ársbyrjun 1997, nokkrum mánuðum eftir að ég var skipaður orkumálastjóri, hélt ég erindi á náttúruverndarþingi þar sem ég fjallaði m.a. um lykilatriði eins og sjálfbæra nýtingu orkulinda svo og virkjanakosti og verndargildi. Í seinna umfjöllunarefninu reifaði ég aðferðafræði þar sem borið er saman útreiknaður ábati af virkjanakostum og skaðsemi hvers kosts fyrir umhverfið. Þar sagði ég m.a.:
„Til einföldunar á viðfangsefninu geng ég … út frá því að unnt sé að flokka virkjunarkosti eftir því hve miklum náttúruspjöllum þeir valda. Þar með væri komin tvívíð flokkun á virkjunarkostunum, annars vegar eftir hagkvæmni, þ.e.a.s. eftir kostnaði á orkueiningu, og hins vegar eftir þeim spjöllum sem af virkjun kynni að leiða.“
Þessi aðferðafræði varð síðar grunnhugsunin í Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ári síðar, eða haustið 1998, átti ég síðan frumkvæði að því við Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri auðlindadeildar Orkustofnunar og Árni Bragason forstjóri Náttúruverndar ríkisins fórum í kynnisferð til Osló til að læra af Norðmönnum um gerð slíkrar rammaáætlunar um nýtingu og vernd vatnsfalla. Um þetta skrifuðum við ítarlega skýrslu. Um vorið 1999 hleypti þáverandi iðnaðaráðherra gerð íslenskrar áætlunar af stað. Enn er verið að vinna að Rammaáætluninni og því miður hefur hún ekki enn fengið lagastoð en svo verður vonandi brátt.
Hitt meginefnið sem ég beitti mér fyrir var á mörkum þess sem ég mátti, enda var það ekki alltaf í takt við sjónarmið ríkisstjórnar, en það var hvatning til stjórnvalda um að verðleggja auðlindanotkun í almannaeigu. Um þetta mál fjallaði ég oft í ræðu og riti, t.d. oft á ársfundum Orkustofnunar að ráðherra áheyrandi. Í einu síðasta erindi mínu sem orkumálastjóri sagði ég á ársfundi Samorku vorið 2007 eftirfarandi:
„Embættismaðurinn, orkumálastjóri, er kannski kominn út á hálan ís talandi um auðlindaarð, hvar hann myndast og hvar hann skilar sér. En þetta hef ég þó leyft mér í velflestum ræðum mínum á ársfundum Orkustofnunar liðinn áratug. Ég hef gert þetta til þess að vekja athygli á vanda sem mér hefur þótt vera í uppsiglingu, en stjórnmálamenn flestir leitt hjá sér að ræða. Þjóðin er í aldarfjórðung búin að vera klofin í fylkingar um eignarhald og auðlindaarð af auðlindum sjávar. … Viljum við deila um eign og arð af orkulindum í aldarfjórðung og síðan verði niðurstaðan kannski tilviljunarkennd, ekki afleiðing af markaðri stefnu? Er ekki ráð að taka meðvitaðar ákvarðanir um nýtingu orkuauðlindanna, um orkustefnu, og um allt fyrirkomulag í þeim efnum. …
Öll gæði sem eru takmörkuð eða þarf að skammta með einhverjum hætti fá á sig verðmæti. … [F]arsælasta leiðin til að kljást við loftslagsmálin væri að það kæmust á víðtækir losunarkvótar sem verða virtir til fjár. … Verði kvótakerfi á losun víðtækt í heiminum og þrengt að losuninni svo einhverju nemur fá þessir kvótar hátt verðgildi. …
Ef almennt losunarkvótakerfi kemst á hver á þá að njóta ábatans af því að markaðsstaða raforkugeirans og áliðnaðarins hérlendis kann að batna umtalsvert? Mér finnst ekki nóg svar að segja: “Ja, fyrst skulum við nú sjá ágóðann verða til, áður en við förum að ráðstafa honum” eins og sagt var fyrir aldarfjórðungi um hugsanlegan fiskveiðiarð. Er ekki betra að ræða um leikreglurnar áður en mönnum fer að hitna í hamsi!
Í niðurlaginu hér var ég að vísa í orð ráðherra þegar ég minntist á það við hann strax eftir að kvótakerfinu var komið á í byrjun níunda áratugarins að kvótar myndu fá á sig verðmæti og þá myndu samstundis skapast deilur.
Samandregið sagði ég síðan í þessu erindi: „Okkur skortir heildstæða orkustefnu um það hvað við viljum nýta og í hvaða áföngum. Um það hvernig við viljum útdeila orkugæðunum og hvað á að verða um vaxandi arð af þeirri nýtingu? Sama á við um losunarkvóta. Við þurfum strax að móta heildarstefnu um útdeilingu þeirra.“
Ég nefni þennan pistil Játningar fyrrverandi. orkumálastjóra og geri það til að ögra lesendum en ekki síður sjálfum mér. Nú þegar ég horfi yfir farinn veg tel ég að skýrt megi vera að ég barðist fyrir tvennu, eftir því sem staða mín sem embættismanns leyfði:
Að fundin yrði málamiðlun milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða með fræðilegum aðferðum eins og síðan varð með Rammaáætluninni. Það sem á skortir er að sú áætlun fái lagagildi.
Að útdeiling á aðgengi að auðlindum í almannaeigu sé með sanngjörnum hætti og fyrir nýtinguna komi eðlilegt gjald.
Hvað kemur þetta stjórnarskránni, stjórnlagaþinginu og kosningunni til þess við? Meira um það rétt strax.