by Þorkell Helgason | des 10, 2005 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is – Laugardaginn 10. desember, 2005
Þorkell Helgason fjallar um orkunotkun og orkusparnað: „Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun.“
Oft er því haldið fram að óþarft sé að spara orku á Íslandi; hér sé slík ofgnótt að sparnaður skipti engum sköpum. Vissulega er Ísland orkuríkt land, en auðlindirnar eru ekki ótakmarkaðar og því felst ávinningur í því að fara vel með þær og sóa þeim ekki. Jafnvel þótt frumuppsprettan, hvort sem það er jarðhiti eða rafmagn, sé til í ríkum mæli kostar það mikla fjármuni að afla orkunnar og miðla henni. Og fyrir innflutta orku, þ.e. bensín og olíu, greiðum við dýrum dómum.
Ráðstefna um orkusparnað
Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið efndu fyrir skömmu til ráðstefnu á Akureyri þar sem orkusparnaður og bætt orkunýting var til umræðu. Tilefnið var efling útibús Orkustofnunar á Akureyri, en þar eru tveir nýir starfsmenn að taka til starfa og mun annar sinna almennum orkusparnaðarverkefnum undir hatti svonefnds Orkuseturs sem er samstarfsvettvangur Orkustofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Samorku en með stuðningi Evrópusambandsins og KEA. Hinn starfsmaðurinn tekur við verkefni sem ber heitið Vistvænt eldsneyti og er samstarfsverkefni margra ráðuneyta um upplýsingaöflun, stefnumótun og aðgerðir til að stuðla að bættri nýtingu innflutts eldsneytis svo og leiðir til að drýgja það eða leysa af hólmi með innlendum orkugjöfum.
Á ráðstefnunni bar margt á góma sem á erindi til almennings en fyrirlestrarnir eða myndefni þeirra er aðgengilegt á vef Orkustofnunar:
http://www.os.is/page/radstefna_orkunotkun. Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni um orkusparnaðarmál er þetta:
Langstærsti útgjaldaliðurinn í orkukaupum heimila eru olía og olíuafurðir.
Íslendingar horfa frekar til stofnkostnaðar en rekstrarkostnaðar þegar keypt eru orkufrek tæki, hvort sem það eru bílar eða heimilistæki.
Almenn raforkunotkun heimila hefur aukist undanfarin ár, sem skýrist m.a. af aukinni lýsingu og af sívaxandi fjölda heimilistækja. En lítill hvati er til sparnaðar.
Í ýmsum iðnaði er raunhæft að spara orku, en líka vatn, um 10-35%, og í sumum greinum, eins og t.d. fiskeldi, er hægt að gera enn betur. Náðst hefur að draga úr eldsneytisnotkun fiskiskipa um 8-12% með orkustjórnunarkerfum.
Raflýsingu í gróðurhúsum, sem getur meira en tvöfaldað uppskeru, má stýra eftir dagsbirtu. Þá má spara með því að nota réttar perur og lýsa á milli plantnanna frekar en að hengja ljósin upp.
Tökum okkur tak
Glöggt er gests augað. Erlendir sérfræðingar á sviði orkumála, sem sækja okkur heim, hafa margir orð á því að við sólundum orku; ofkyndum húsnæði og látum ljósin loga að ógleymdum fjallabílunum sem við notum til snattferða innanbæjar. Staðreyndin er sú að við Íslendingar notum mjög mikla orku – og það þótt orkunotkun stóriðjunnar sé undanskilin. Þetta gildir jafnt um heimilisnotkun, orkunotkun fyrirtækja, fiskiskipa og annarra skipa svo og flugflotans. Margt af þessu á sér réttmætar skýringar, svo sem að við búum á norðlægum slóðum í stóru eylandi. En engu að síður getum við tekið okkur tak í bættri umgengni við orkuna.
Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun. Kemur þar einkum tvennt til: Annars vegar getur heimsmarkaðsverð á eldsneyti ekki stefnt annað en upp á við þegar til lengdar lætur, enda er hér um mjög takmarkaðar auðlindir að ræða. Hins vegar bendir flest til þess að brennsla eldsneytis valdi þeim veðurfarsbreytingum sem bersýnilega eru að koma í ljós. Því verður sívaxandi þrýstingur á okkur sem og aðra jarðarbúa að hemja brennsluna.
Leiðir til þess að draga úr eldsneytisnotkun eru margvíslegar. Til lengdar kann að verða kleift að nota tilbúið eldsneyti, sem þá væri óbeint unnið úr okkar ríkulegu endurnýjanlegu orkulindum. Flestir horfa þar til vetnis sem milliliðs en fleira kemur til álita. Ákjósanlegast væri ef unnt væri að nota raforkuna beint á farartækin, en þróun í geymslu rafmagns gengur hægt. Þessar langtímalausnir báðar eru þó ekki handan við hornið og allmörg ljón í veginum.
En við getum gripið til aðgerða í samgöngumálum okkar sem hrífa strax. Einfaldasta lausnin er einfaldlega að nota sparneytna bíla. Þeir eru til og framboð á þeim mun fara vaxandi svo sem með samþættingu rafmótora og sprengihreyfla, eins og gert er í svokölluðum tvinnbílum. Fleira getur komið til svo sem notkun hreyfilhitara, en þeir eru næsta óþekktir hér en mikið notaðir annars staðar á Norðurlöndum. Og síðan ættu menn auðvitað ekki að fara einmana í einkabílum, heldur deila fari með öðrum og helst að nota almenningssamgöngutæki. Fróðlegt væri að kortleggja eldsneytiskostnað við að koma okkur til vinnu. Ekki kæmi á óvart ef hann mætti lækka um helming með bættri hegðan og hagkvæmari samsetningu á bílaflotanum. En til þess að Íslendingar dragi úr eldsneytisnotkun þarf breytta hugsun; það er enn í tísku að eiga sem stærsta einkabíla.
Það sem hér hefur verið drepið á og margt fleira verður viðfangsefni Orkusetursins og Vettvangsins um vistvænt eldsneyti á Akureyri.
Höfundur er orkumálastjóri.
by Þorkell Helgason | maí 8, 1999 | Aðrar vefsíður eða blogg, Greinar
Grein fengin af Mbl.is Laugardaginn 8. maí, 1999
Allt frá alþingiskosningum 1987 hafa ákveðnar reikniaðferðir gilt við útreikning þingsæta til stjórnmálaflokkanna. Höfundur þeirra er Þorkell Helgason, sem skýrir þær hér, en þær munu nú verða notaðar síðasta sinni, þar sem kjördæmaskipan hefur verið breytt.
Ákvæði kosningalaga um úthlutun þingsæta
Gidldandi lög um kosningar til Alþingis eru frá árinu 1987 og var þeim í fyrsta sinn beitt við þingkosningarnar þá um vorið. Síðan hafa þau komið við sögu í tvennum kosningum,árin 1991 og 1995. Nú verða þau notuð í fjórða og væntanlega síðasta sinn þar eð samþykkt hafa verið á Alþingi ný stjórnarskrárákvæði um þingkosningar (sem þarf að vísu að staðfesta á næsta þingi). Jafnframt hafa verið kynnt drög að nýjum kosningalögum í samræmi við stjórnarskrárbreytinguna. Greinarkorni þessu er ekki ætlað að fjalla um nýju kosningalögin heldur rifja upp helstu atriði þeirra laga sem kosið er eftir við kosningarnar nú 8. maí 1999.
Kjördæmis- og jöfnunarsæti
Þingsæti eru alls 63 og skiptast í kjördæmissæti og jöfnunarsæti. (Hvorugt þessara heita er þó notað í lagatextanum sjálfum.) Sætin skiptast í kosningunum nú á milli kjördæma og í þessa tvo flokka eins og rakið er í 1. töflu:
Aftasti dálkurinn í 1. töflu sýnir tölu kjósenda að baki hverju þingsæti í kosningunum nú. Eins og sjá má eru að meðaltali 3.199 kjósendur að baki hverjum þingmanni á landinu öllu. En á Vestfjörðum deila 1.140 kjósendur með sér þingmanni meðan 4.558 kjósendur á Reykjanesi verða að láta sér nægja einn þingmann. Vægi atkvæða er samkvæmt þessu nákvæmlega fjórfalt meira þar sem það er mest en þar sem það er minnst. Nýju kosningalögunum er ætlað að bæta úr þessu þannig að þetta misvægi verði aldrei meira en einn á móti tveimur.
Úthlutun kjördæmissæta
Kjördæmissætum er úthlutað með svonefndri reglu stærstu leifar. Hvernig það gerist verður best lýst með dæmi. Lítum á fimm- manna kjördæmi þar sem fjórir listar eru í kjöri og hljóta atkvæði sem hér segir: Fyrst skal ákvarða kjördæmistölu sem svo er nefnd í lögunum. Er hún meðaltal atkvæða að baki hverju þingsæti, þ.e.a.s. tala gildra atkvæða deilt með heildarþingsætatölu
kjördæmisins. Í dæminu nemur því kjördæmistalan 5500/5=1100 atkvæðum. Skorður eru settar við litlum listum á eftirfarandi hátt. Reiknaðir eru 2/3-hlutar af kjördæmistölu og eru það í þessu dæmi 733 atkvæði. Minnsti listinn er dæmdur úr leik ef hann er undir þessari tölu. Þetta verður Þ-listanum að falli. Þá ber að reikna kjördæmistölu að nýju að slepptum atkvæðum þessa lista. Hún verður þá 5000/5=1000. Nú á enn að reikna 2/3 og aðgæta hvort næst minnsti listinn kunni að dæmast úr leik, o.s.frv. Í dæminu gerist það ekki.
Úthlutun fer nú þannig fram að fyrst hlýtur sá listi sæti er fékk flest atkvæði, eða X-listinn. Atkvæðatala hans er síðan lækkuð sem nemur kjördæmistölunni og verða þá 1.200 atkvæði eftir. Þá á Y-listinn flest atkvæði og hlýtur því annað sætið. Að því loknu verður atkvæðaleif hans 500 atkvæði. Er þá komið að Z-listanum að hljóta þriðja sætið og á hann þá atkvæðaleif upp á 300 atkvæði. Síðasta kjördæmissætið, það fjórða, fellur aftur til X-listans út á 1.200 atkvæði og eftir verða 200 atkvæði. Þetta er dregið saman hér á eftir þar sem sýnd er atkvæðatala að lokinni hverri úthlutun og endanlegar atkvæðaleifar:
Þetta talnadæmi miðast, eins og áður segir, við fimm-manna kjördæmi, en þar eru kjördæmissætin fjögur. Úthlutun kjördæmissætanna er því hér með lokið í þessu kjördæmi, en síðan á eftir að úthluta einu jöfnunarsæti.
Kjördæmissætin eru 50 alls. Í kosningunum 1995 skiptust þau milli þingflokkanna eins og fram kemur í tölunum framan við plúsinn í 2. töflu:
Skipting jöfnunarsæta
Þegar úthlutun kjördæmissætanna er lokið eru eftir 13 þingsæti, jöfnunarsætin. Þeim er skipt á milli flokkanna þannig að samræmi verði milli heildarþingsætatölu þeirra og fylgis á öllu landinu. Hér koma þó einungis til álita þeir flokkar sem hafa þegar hlotið a.m.k. einn kjördæmiskjörinn mann. Þannig hlaut Flokkur mannsins um 1,8% atkvæða í kosningunum 1991 og hefði þannig haft atkvæðastyrk fyrir einu þingsæti en átti ekki tilkall til þess þar eð hann náði hvergi kjördæmiskjöri. Skipting jöfnunarsæta fer eftir svokallaðri d’Hondts-reglu, þeirri sömu og notuð er við úthlutun sæta í sveitarstjórnarkosningum.
Ekki er víst að jöfnunarsætin nægi til að tryggja fullan jöfnuð á milli flokkanna, þar sem flokkur gæti þegar hafa fengið fleiri kjördæmiskjörna menn en landsfylgi hans gefur tilefni til. Flokkajöfnuðurinn hefur þó náðst í tíð gildandi kosningalaga, enda var jöfnunarsætunum fjölgað í þessu skyni þegar lögin voru sett og fleiri ráðstafanir gerðar í lögunum til þess að svo mætti verða. Enda var það aðalmarkmið breytinganna sem tóku gildi 1987 að ná þessum flokkajöfnuði. Í kosningum 1995 skiptust jöfnunarsætin á milli flokkanna eins og fram kemur í neðstu línu 2. töflu, aftan við plúsinn. Þar sést að Framsóknarflokkurinn fékk ekki jöfnunarsæti, enda hafði hann þegar náð fullri tölu þingsæta sinna við kjördæmisúthlutunina.
Útdeiling jöfnunarsæta
Að lokum þarf að koma jöfnunarsætunum 13 til einstakra framboðslista. Er það ekki auðvelt verk svo öllum líki. Einfaldast mætti virðast að líta á þær atkvæðaleifar, sem nú eru eftir, og halda áfram úthlutun á grundvelli þeirra. Í ímyndaða kjördæminu, sem haft var til viðmiðunar, hefur Y-listinn stærstu atkvæðaleif. Ef það er stærsta atkvæðaleif á landinu öllu færi samkvæmt þessu fyrsta jöfnunarsætið til hans svo framarlega sem flokkur hans ætti rétt á jöfnunarsætum. Úthlutun á þessum nótum er þó ekki sanngjörn vegna mismunandi stærðar kjördæma. Öll fyrstu jöfnunarsætin gengju út í Reykjavík og á Reykjanesi og gæti þá reynst erfitt að koma síðustu jöfnunarmönnum fyrir á landsbyggðinni.
Samkvæmt kosningalögunum er því mælikvarðinn á stöðu manna ekki sjálf atkvæðaleifin heldur hlutfall hennar af kjördæmistölunni. Þannig er t.d. styrkur næsta manns á Y-listanum mældur sem 500/1000=50%. Flokksbróðir hans, sem á hærri atkvæðaleif, eða t.d. 1.000 atkvæði, í öðru kjördæmi þar sem kjördæmistala er 2.500, er þá lægra settur þar sem hlutfall hans er einungis 40%.
Að fengnum þessum mælikvarða á stöðu manna mætti ætla að nú væri unnt að ganga á röðina og úthluta eftir hlutfalli atkvæðaleifa af kjördæmistölu. Svo er þó ekki alfarið gert þar sem áfangaskiptingu í úthlutuninni er ætlað að tryggja enn frekar samræmi í úthlutun í stórum jafnt sem fámennum kjördæmum. Að auki koma ákvæði um sérstaka þröskulda. Hér er ekki tóm til að fara nánar út í þessar úthlutunarreglur enda eru þær býsna flóknar.
Aftan við plúsana í 2. töflu er sýnt hvernig jöfnunarsætin dreifðust í kosningunum 1995. Athyglisvert er að enginn listi fékk fleiri en eitt jöfnunarsæti í einu og sama kjördæminu. Þetta er þó ekki sjálfgefið. Sami listinn gæti fengið fleiri en eitt slíkt sæti í Reykjavík eða á Reykjanesi.
Hvers vegna fara mörg þingsæti á flakk eftir hverjar nýjar tölur?
Eins og allir vita sem fylgst hafa með talningu í liðnum kosningum valda nýjar tölur í einu kjördæmi því einatt að fjöldi þingsæta færist til. Og þessi tilfærsla getur allt eins teygt sig til annarra kjördæma en þess sem tölurnar eru frá. Þetta er haft til marks um það hvað kosningalögin séu flókin. Því er ekki úr vegi að huga að því að lokum hvernig þetta getur gerst.
Segjum að nýjar tölur í kjördæmi A hafi leitt til þess að X-listinn hafi misst mann til Y-listans í sama kjördæmi. Ekki er þó víst að heildarskipting þingsætanna á landinu öllu breytist við þessar nýju tölur. Gerist það ekki er það ljóst að X- listinn þarf að fá manninn bættan í öðru kjördæmi og Y-listinn jafnframt að skila manni annars staðar. Gerist þetta tvennt í sama kjördæminu er málið leyst. En sjaldnast stendur þannig á að víxlunin gangi svo einfaldlega upp. Því getur X-listinn náð til sín sæti á kjördæmi B frá þriðja listanum, Z-lista, en Y-listinn skilað manni í enn öðru kjördæmi C til fjórða flokksins, Þ-lista, o.s.frv. Og þar með lengist í að endar nái saman á ný. Það gefur því augaleið að það getur hæglega gerst að breyting í einu kjördæmi dragi slíka dilka á eftir sér í öllum kjördæmunum átta.
Þetta er því miður óhjákvæmilegt og ræðst af því að tala jöfnunarsæta hvers kjördæmis er fastákveðin. Þannig verður sama upp á teningnum í nýju kosningalögunum, enda þótt tilfæringarnar verði þar væntanlega heldur minni en í gildandi lögum. En í meginatriðum mun þetta þingmannaflakk, sem mörgum þykir eitt helsta skemmtiatriðið á kosninganótt, þó halda áfram!
Höfundur er stærðfræðingur og var reikniráðgjafi við undirbúning gildandi kosningalaga.
Þorkell Helgason