by Þorkell Helgason | sep 2, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 2. september 2011]
Þetta er lokapistill í syrpu um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er í tillögum stjórnlagaráðs.
Kjördæmavörn
Eins og lýst hefur verið í fyrri pistlum fer stjórnlagaráðið meðalveg milli þess að kosið sé á landsvísu og þess að skipta landinu upp í kjördæmi. Einkum er nýstárlegt að tala kjördæmissæta er ekki fyrirskrifuð. Þar sem frambjóðendur geta sótt stuðning út fyrir sitt kjördæmi kunna kjördæmi með vinsæla frambjóðendur að fá fleiri sæti en svarar til íbúatölu þeirra. En vitaskuld getur líka hið öndverða gerst, að kjördæmi sitji uppi með full fáa þingmenn. Undir þann leka er sett í tillögum stjórnlagaráðs. Í kosningalögum má kveða á um að binda megi 30 af sætunum 63 við kjördæmi til að tryggja lágmarkstölu þingmanna í hverju þeirra. Vissulega er þetta fegurðargalli á annars einföldu kerfi sem mun gera texta kosningalaga nokkru flóknari en ella væri. Tillit til margþættra sjónarmiða og hagsmuna kallar ávallt á snúnar lausnir. Á hinn bóginn er þess vænst að nánast aldrei muni reyna á þessa kjördæmavörn og úthlutun sæta til hinna atkvæðamestu því ekki raskast af þeim sökum.
Konur á þing!
Eðlilega er það ríkt sjónarmið að fulltrúaþing séu í sem jöfnustum mæli skipuð konum og körlum. Undir þetta er tekið í tillögum ráðsins að stjórnarskrá þar sem segir að „í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.“ Bent er á nokkrar leiðir í þessu skyni í skýringum með frumvarpi ráðsins, svo sem að kveða megi á um að ámóta margar konur og karlar séu á listum, að listum sé stillt up sem fléttulistum eða að við úthlutun sæta skuli tryggt „að hlutföll kynjanna verði innan skikkanlegra marka hvað sem líður fylgi einstakra frambjóðenda“ eins og segir í greinargerð með frumvarpi stjórnlagaráðs. Þessi síðasta leið kann þó að vera hæpin sakir áreksturs við önnur markmið.
Hví ekki að fækka þingmönnum?
Þingmenn njóta almennt ekki mikilla vinsælda á þessum síðustu og verstu tímum. Það má þó ekki hafa áhrif á það hver tala þeirra skal vera. Meta verður hvert hlutverk Alþingis sé og eigi að vera og ákvarða þingsætatöluna í því ljósi einu. Stjórnlagaráð fjallaði ítarlega um þetta atriði og margþætt atkvæðagreiðsla fór fram í því samhengi. Niðurstaðan varð sú að leggja til óbreytta tölu þingmanna. Rökin eru einkum þau að í tillögum ráðsins er lagt til að þingið fái stóraukið hlutverk í stefnumótun, eftirliti og allri meðferð þingmála. Þingið þurfi því að vera skipað drjúgu og góðu liði fólks.
Vanda skal val á þingmönnum
Í stuttu máli ganga tillögur stjórnlagaráðs um þingkosningar út á eftirfarandi atriði:
- Kjördæmi frjálsleg: Hafa má landið allt sem eitt kjördæmi, en þau mega líka vera allt að átta að tölu. Skilin milli kosningar á landsvísu og eftir kjördæmum verða fljótandi.
- Lands- og kjördæmakjör: Margir frambjóðendur munu bjóða sig bæði fram á kjördæmis- og landslistum. Kjósendum standa því margir til boða. Alþingi getur þó takmarkað valið við menn sömu samtaka.
- Persónukjör: Kjósendum er falið að velja einstaklinga af framboðslistum enda þótt þeir megi merkja við lista einvörðungu en hafa þá ekki áhrif á það hverjir verða fyrir valinu af viðkomandi lista.
- Jafnt vægi atkvæða: Búseta skiptir ekki máli, allir kjósendur hafa jafnvæg atkvæði. Um leið er stefnt að því að raddir allra byggða heyrist á þingi.
Allt fyrirkomulagið lýtur að sama markmiði, því að kjósendur velji sér fulltrúa – ekki aðeins flokka – til setu á Alþingi, þingmenn sem njóti ríks trausts. Þingið verður að vera vel skipað.
Þeir sem vilja fræðast frekar um kosningakerfi það sem stjórnlagaráð leggur til má benda á vefsíðu ráðsins, sjá http://stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf. Kosningaákvæðin eru þar í 39. grein.
by Þorkell Helgason | ágú 26, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 26. ágúst 2011. Þar þurfti að leiðrétta mistök sem voru í pistli næst á undan. Hér þarf þess ekki og breytist textinn nokkuð í samræmi við það.]
Áfram verður fjallað um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Nú verður rætt um úthlutun þingsæta. Minnt skal á frá fyrri pistlum að gert er ráð fyrir að kjósendur geti valið frambjóðendur af listum fleiri en eins flokks. Alþingi er þó heimilt að einskorða valmöguleikana við lista sama flokks.
Hvernig er talið?

Kjörseðill
Atkvæði eru ýmist greidd listum eða einstökum frambjóðendum. Tillögurnar segja vísvitandi harla lítið um uppgjörið, talninguna. Það má útfæra á ýmsa vegu í kosningalögum. Þó er atkvæðastyrkur hvers frambjóðanda lagður til grundvallar. Hafi kjósandi merkt við lista deilist stuðningur hans jafnt á alla frambjóðendur listans. Hafi hann merkt við einstaka menn skiptist atkvæðið milli þeirra sem hann hefur valið. Sú skipting þarf ekki að vera í jöfnum mæli. Lögin gætu mælt fyrir um forgangsröðun, en þá yrði vægið breytilegt. Lýsingin verður þó einfaldari ef notaðir eru jafngildir krossar, sbr. fyrri myndina sem hér fylgir. Af þeim kjörseðli fengju þau Hreiðar, Ríkharður og Anna þriðjung úr atkvæði hvert. Annar kjósandi sem merkti einvörðungu við Z-kjördæmislista íþróttamanna (eins og sýnt var í næstsíðast pistli) væri að skipta atkvæði sínu milli þeirra tveggja sem eru á þeim lista, Hreiðars og Ingu
Atkvæðabrot hvers frambjóðenda eru lögð saman og mynda heildaratkvæðatölu þeirra. Hreiðar er kominn með 1/3+1/2 atkvæða af þeim tveimur seðlum sem nefndir hafa verið til sögunnar, en Inga 1/2 atkvæði og Ríkharður og Anna 1/3 atkvæðis hvort. Auðvelt að finna heildaratkvæðatölu hvers flokks. Hún er einfaldlega summan af atkvæðatölum allra frambjóðenda flokksins, á hvaða lista sem þeir kunna að standa.
Hverjir hljóta þingsæti?
Huga verður að tvennu: Að flokkarnir fái þingsæti í fullu samræmi við heildaratkvæðatölu eða að þeir frambjóðendur hljóti sæti sem mest fylgi hafa. Sé beitt krossum, eins og í því dæmi sem notað er í þessari pistlasyrpu, næst flokkajöfnuðurinn að fullu og frambjóðendur hljóta sæti í samræmi við fylgi þeirra meðal kjósenda viðkomandi flokks. En markmiðunum má líka ná með öðrum aðferðum, t.d. þeirri sem beitt var við stjórnlagaþingskosninguna.
Miðað við krossaleiðina er þingsætum fyrst skipt hlutfallslega milli samtaka (flokka) út frá heildaratkvæðatölum. Síðan er sætunum útdeilt innbyrðis til frambjóðenda hverra samtaka út frá atkvæðastyrk hvers og eins. Tafla með ímynduðum atkvæðatölum samtakanna tveggja, Y og Z, sýnir framgangsmátann. Gert er ráð fyrir að landinu sé einungis skipt í tvö kjördæmi (AV og NS) auk landslista.
Heildaratkvæðatölurnar, 3.500 hjá Y og 6.000 hjá Z, gætu hæglega gefið Z tvö sæti en Y eitt. Y-sætið færi bersýnilega til Ríkharðs sem er atkvæðaríkari en Jakobína. Fyrra Z-sætið færi til Önnu, sem er vel að því komin, en það seinna til Þóru, enda er hún með næstflest atkvæði innan Z-samtakanna. Þóra kæmist því á þing þótt hún hafi færri atkvæði en Jakobína, enda í sitt hvorum samtökunum.
Fleira þarf til
Í lokapistilli um kosningakerfið verður sagt frá vissri vernd fyrir kjördæmin og fjallað um kynjajöfnun, ásamt því sem mörgum kann að brenna í brjósti: Hví þingsætatalan er óbreytt, 63.
by Þorkell Helgason | ágú 19, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 19. ágúst 2011, en þá með rangri töflu]
Haldið verður áfram að fjalla um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er í tillögum stjórnlagaráðs. Nú verður rætt um persónukjörsþátt tillagnanna.
Frambjóðendur eða flokkar
Kosningakerfi má draga í dilka eftir því hvort boðnir eru fram einstaklingar eða flokkslistar. Hið fyrra er meginreglan í enskumælandi löndum en hið síðara á Norðurlöndum og í hinum þýskumælandi heimi. Þróun hefur verið í þá átt að leyfa kjósendum að hafa aukin áhrif á það hvaða frambjóðendur veljast til þingsetu, þótt á listum séu. Slíkt er til hægðarauka nefnt persónukjör, en getur þó verið af ýmsu tagi. Stjórnlagaráð leggur til allróttæka útfærslu á persónukjöri.
Eins og verið hefur skulu frambjóðendur sitja á listum í nafni stjórnmálasamtaka. Því er ekki um eiginleg einstaklingsframboð að ræða, en frambjóðendur utan flokka gætu þó boðið sig fram undir merkjum lausbeislaðra samtaka. Það er meðal nýmæla í tillögum stjórnlagaráðs að einu gildir hvernig frambjóðendunum er raðað á lista. Röðin hefur engin bein áhrif á hverjir hljóta þau þingsæti sem koma í hlut listans. Kjósendur fá öllu um það ráðið með merkingum sínum.
Hlutverk flokkanna í framboðsmálum er að velja þá einstaklinga sem þeir vilja bjóða kjósendum til þingsetu. Tillögur stjórnlagaráðs segja ekkert um það hvernig val flokkanna fer fram. Ekki er heldur kveðið á um það hvernig nöfnum skuli skipað á listana. T.d. mætti stilla upp með „fléttufyrirkomulagi“, konum og körlum til skiptis. Uppstillingin er þó kjósendum aðeins til fróðleiks, hún veitir engum frambjóðanda forskot umfram annan.
Hvernig á að kjósa?
Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs getur kjósandi valið sér lista með krossi, allt eins og verið hefur. Geri hann það hefur hann fullnýtt atkvæði sitt en um leið gefið þau fyrirmæli að hann leggi alla frambjóðendur listans að jöfnu, eins og fjallað var um í síðasta pistli. Kjósandinn getur hins vegar beitt sér með þeim hætti að velja einstaka frambjóðendur, einn eða fleiri. Þeir mega hvort sem heldur er vera af kjördæmislistum eða af landslistum. Stjórnlagaráð felur Alþingi að kveða á um það í kosningalögum hve víðtækt þetta valfrelsi skal vera. Grunngerðin mælir fyrir um algert frelsi, að kjósendum standi allir frambjóðendur til boða, hvort sem þeir eru innan kjördæmis kjósandans eða á landslistum. Í lögum má þó þrengja valið og takmarka það við lista sömu samtaka. Í eftirfarandi lýsingu er gert ráð fyrir að þrengingarákvæðinu sé ekki beitt, að það megi velja þvert á flokka.
Krossar eða röðun
Í stjórnarskrártillögunum er ekki mælt fyrir um það hvernig kjósendur merkja við þá einstaklinga sem þeir vilja velja, hvort það er með einföldum krossum, raðtölum eða með öðrum hætti. Alþingi er eftirlátið að ákveða þetta. Á kjörseðlinum sem hér er sýndur er gert ráð fyrir að valið fari fram með krossum. Kjósandi hefur krossað við þrjá frambjóðendur sem eru í tvennum ólíkum samtökum. Leyfi Alþingi ekki val þvert á flokka er þessi seðill ógildur. Sleppi kjósandinn því að merkja við Ríkharð hjá Y-samtökunum er hann þó góður og gildur.
Ekki sagan öll
Aðalatriði vantar enn í þessa lýsingu á kosningakerfi að tillögu stjórnlagaráðs. Það er hvernig atkvæði eru talin, hvernig krossar breytast í atkvæði og hverjir ná þannig kjöri. Frá þessu verður greint í næsta pistli.
by Þorkell Helgason | ágú 12, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 12. ágúst 2011]
Eitt meginverkefni okkar sem sátum í stjórnlagaráði var að leggja til stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag kosninga til Alþingis. Þingið hafði beinlínis kallað eftir því. Sama gerði þjóðfundurinn haustið 2010. Meginatriðin í tillögum ráðsins eru nýskipan kjördæma og persónukjör. Um þetta mikilvæga viðfangsefni verður fjallað í þessum og næstu pistlum.
Kjördæmi, eitt eða fleiri?
Mörg okkar vildum leggja niður kjördæmin og viðhafa landskjör einvörðungu. Fyrir því færðum við ýmis rök, svo sem að þingmenn sem kosnir eru á landsvísu hugsi best um hagsmuni heildarinnar. Aðrir töldu nauðsynlegt að tengja framboð afmörkuðum kjördæmum, ella myndu tengsl þingmanna við kjósendur sína rofna. Niðurstaða ráðsins var beggja blands. Landið verður eitt kjördæmi nema Alþingi nýti sér heimild til að skipta því upp í allt að átta kjördæmi. Hér verður gert ráð fyrir að skipt verði upp í kjördæmi, a.m.k. um hríð.
Kjördæmin fá nýja merkingu. Listar verða boðnir fram á kjördæmavísu en einnig verða landslistar. Frambjóðandi á kjördæmislista má jafnframt vera á landslista síns flokks eða samtaka, en þar geta líka vera frambjóðendur sem ekki bjóða sig fram í ákveðnu kjördæmi. Kjósandi getur merkt við einn lista af hvorri tegundunni sem er. Hann getur líka valið einstaklinga, jafnvel af mörgum listum, eins og skýrt verður út í næsta pistli. Gagnvart kjósendum er landið því sem eitt kjördæmi.
Frambjóðandi hlýtur að jafnaði að tala til kjósenda í kjördæmi sínu en líka höfða til allra landsmanna, vilji hann hljóta stuðning utan kjördæmis síns. Þess er vænst að þannig náist kostir landskjörs, sem er ábyrgð þingmanna gagnvart öllum landslýð, en um leið sé trygging fyrir því að rödd hverrar byggðar heyrist á þingi.
Tvískiptur kjörseðill
Verði hugmynd ráðsins að veruleika verða kjörseðlar tvískiptir. Hér er sýndur ímyndaður og einfaldur kjörseðill, þar sem aðeins tvö samtök koma við sögu og kjördæmi eru tvö, Austurvesturkjördæmi (AV) og Norðursuðurkjördæmi (NS). Efri hlutinn verður eins og verið hefur, með kjördæmislistum hlið við hlið. Kjósandi í Austvesturkjördæmi getur merkt við einn af listunum þremur. T.d. getur hann merkt við Z-lista íþróttamanna, eins og sýnt er á myndinni, og hefur hann þá um leið gefið þeim tveimur mönnum sem eru á listanum jafna hlutdeild í atkvæði sínu.
Neðri helmingur kjörseðilsins tilgreinir lista sem eru í boði á öllu landinu og lítur því eins út í öllum kjördæmum. Frambjóðendur á kjördæmislistum mega jafnframt vera á landslista sömu samtaka. Frambjóðandinn Inga á lista íþróttamanna í AV-kjördæmi nýta sér þetta, en ekki Hreiðar sem vill ekkert gera hosur sínar grænar utan síns kjördæmis. Á landslista íþróttamanna er auk þess Anna sem ekki er á neinum kjördæmislista. Listamannasamtökin bjóða aðeins fram á landsvísu. Kjósandi hvar sem er, t.d. í Austvesturkjördæmi, getur samt merkt við landslista þeirra.
Hér er einungis fjallað um listakjör, ekki persónukjör. Það bíður næsta pistils
Flókið?
Flest virðist flókið við fyrstu sýn. Þingmönnum fannst listakjör í stað einstaklingskjörs illskiljanlegt þegar það var tekið upp fyrir rúmri öld. Fullyrða má að kosningafyrirkomulag það sem hér er reifað er ekki flókið. Það er til í ýmsum gerðum erlendis, t.d. í Hollandi. Bland af kjördæmis- og landslistakjöri tíðkaðist líka hér á landi um áratugaskeið um miðbik liðinnar aldar.
Undirritaður reifaði í framboði sínu til stjórnlagaþings, og aftur í stjórnlagaráði, sáraeinfalt kerfi þar sem kosið væri persónukjöri og einvörðungu á landsvísu. Hugmyndin náði ekki fram að ganga en með góðu fólki í stjórnlagaráði varð sátt um ofangreinda lausn sem vissulega er nokkru flóknari – en nær flestum markmiðum.
by Þorkell Helgason | ágú 5, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 5. ágúst 2011]
„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“ Það var Freyja Haraldsdóttir, hin ötula baráttukona í stjórnlagaráði fyrir rétti lítilmagna, sem lagði þessa grein til í nýja stjórnarskrá og hún var samþykkt samhljóða í ráðinu. Er þetta einungis merkingarlaus fagurgali? Nei, þetta er ein viljayfirlýsinga um að öll viljum við bæta samfélagið. Þau okkar sem njóta heilbrigðis og bjargálna eiga að leggja sitt af mörkum, hvert eftir sinni getu, til að létta undir með þeim sem minna mega sín. Samfélagssáttmáli, sem stjórnarskrá er, veitir okkur ekki aðeins réttindi, svo sem til eignaverndar, réttlætis eða kosningaréttar. Með því að búa í samfélagi um samhyggju tökum við líka á okkur skyldur, sem við uppfyllum með því að inna af hendi skatta og skyldur, til að hlúa megi að velferð allra. Hver veit hvenær við sjálf þurfum á umhyggju að halda?
Dæmigerð málamiðlun?
Við í stjórnlagaráði höfum skilað af okkur frumvarpi til nýrra stjórnskipunarlaga, eins og skjalið heitir á fínu máli, með öðrum orðum: Drög að glænýrri stjórnarskrá. Við vorum einum rómi sammála um niðurstöðuna. Efnisgreinarnar voru í heild samþykktar með atkvæðum allra tuttugu og fimm stjórnlagaráðsfulltrúanna. Þá kann að vera sagt: „Þegar allir eru sammála hlýtur niðurstaðan að vera rýr, dæmigerð málamiðlun þar sem eitt rekst á annars horn.“ Ég fullyrði að svo er ekki. Við höfðum að vísu knappan tíma, tæpa fjóra mánuði, en nýttum hann vel til að fara yfir sem flestar hliðar hvers máls. Þetta var gert fyrir opnum tjöldum á vefsetri ráðsins. Allir gátu séð hvernig við vorum smám saman að nálgast það sem okkur þótti að lokum það besta, að teknu tilliti til sjónarmiða hvers annars. Sjálfur skipti ég oft um skoðun í ýmsum málum – og skammast mín ekki fyrir það. Ég sá einfaldlega að stundum höfðu aðrir betri rök en ég. Ég hygg að svo hafi farið fyrir okkur öllum. Þess vegna er niðurstaðan betri en sú sem fengist hefði ef eitthvert eitt okkar hefði ráðið ferðinni. Betur sjá augu en auga.
Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga að við komum ekki tómhent til starfa í apríl sl. Í fyrsta lagi höfðum við strax sl. haust, þegar við buðum okkur fram til stjórnlagaþingsins, sökkt okkur ofan í málið. Hæstiréttur gaf okkur svo óvænt lengri umþóttunartíma. Síðast en ekki síst var búið að vinna mikla undirbúningsvinnu sem var starf stjórnlaganefndar er hófst fyrir ári. Vinna nefndarinnar hvíldi jafnframt á mörgu því sem á undan var gengið; stjórnlaganefndum sem höfðu starfað nær allan lýðveldistímann, síðast velþenkjandi nefnd sem Jón Kristjánsson stýrði.
Boltinn er hjá þjóðinni
Nú ríður á að þjóðin sjálf, ekki bara þingmenn og svokallaðir sérfræðingar, kynni sér tillögur okkar í þaula. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið leiðsögn handa öllum þeim sem fara með vald í hennar umboði. Þegar verið er að umskrifa stjórnarskrána í heild eins og nú er gert, verður þjóðin að koma að málum, kynna sér tillögurnar, benda á það sem betur mætti fara og að lokum að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá. Hvenær og hvernig er sérstakt umræðuefni sem ég mun ræða í seinni pistli.
Okkur sem urðum, fyrir tilstilli kjósenda, þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna þetta uppbyggingarstarf ber skylda til að aðstoða þjóðina við að koma þessu grundvallarmáli í höfn.