Um spurningar í ráðgerðri þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs

Þegar þetta er skrifað um miðjan dag 28. mars 2012 er að hefjast í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðasti fundur um ráðgerða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Þar sem mér finnst að margt þurfi laga í fyrirliggjandi spurningum gat ég ekki orða bundist og sendi þingnefndinni eftirfarandi:

Til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Ég hef legið talsvert yfir texta þingsályktunartillögu á málsnr. 636 og hlustað á hluta af 1. umræðu um málið. Því leyfi ég mér að leggja orð í belg og gauka að nefndinni orðalagi spurninga sem mér persónulegra finnst skýrara og rökréttara en það sem fram kemur í fyrirliggjandi tillögu.

Ég geri þetta með tvennu móti:

  • Viðauki 1: Annars vegar er sú gerð sem lengra gengur og í formi draga að kjörseðli, þar sem spurningarnar sjást í efnislegu samhengi. Ég er þó ekki að segja að allur þessi texti ætti að vera á kjörseðlinum sjálfum; sumt gæti verið í kynningarefni. Ég geri ekki ráð fyrir að nefndin telji sig geta breytt jafn miklu og hérna kemur fram en vonandi getur nefndin sótt hugmyndir í þennan texta.
  • Viðauki 2: Hins vegar er breyting á sjálfri þingsályktunartillögunni og gengur þá skemur. Þar er t.d. aðalspurningunum ekki snúið við, sem ég tel þó æskilegra.

Því miður er ekki tóm til að útlista málið eða útskýra frekar á þeim fáu klukkustundum sem til stefnu eru.

Ég tek ekki afstöðu til þess hvort spurningarnar séu hinar einu og réttu og tek heldur ekki afstöðu til þess hvort þjóðaratkvæðagreiðsla nú sé tímabær eða ekki.

Ég vil taka fram að ég legg þetta fram sem almennur borgari, en það er mér afar hjartfólgið að þjóðin fái góða stjórnarskrá. Þess vegna legg ég mitt fram, ef það megi koma að gagni.

Með ósk og von um farsælt starf nefndarinnar,

28. mars 2012, Þorkell Helgason, kt. 0211424259

Viðauki 1:

 Kjörseðill [ÞH1] við þjóðaratkvæðagreiðslu þann 30. júní 2012 um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá [ÞH2] og álitamál í tillögunum

Stjórnlagaráð skilaði Alþingi drögum að nýrri stjórnarskrá í frumvarpsformi þann 29. júlí 2011. Að ósk Alþingis benti ráðið að auki á valkosti við nokkur atriði í frumvarpinu á fundi sínum 8.-11. mars 2012.[ÞH3]

Vegna frekari framvindu málsins vill Alþingi leita álits kjósenda á nokkrum álitamálum í tillögunum svo og á málinu [ÞH4] í heild.

Þess vegna ertu beðin(n) um að svara eftirfarandi spurningum [ÞH5] um :

Ertu fylgjandi eftirfarandi  ákvæðum, sem eru í frumvarpi stjórnlagaráðs, eða ekki?[ÞH6] 

Nei Tek ekki afstöðu
  1. [ÞH7]  náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu [ÞH8] verði lýstar þjóðareign.
  • o
  • o
  • o
  1. Að staða þjóðkirkjunnar verði ákveðin í almennum lögum en ekki með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá.[ÞH9]
  • o
  • o
  • o
  1. Að kjósa getir valið persónur í stað lista í kosningum til Alþingis. [ÞH10]
  • o
  • o
  • o
  1. Að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt.
  • o
  • o
  • o
  1. Að hópur [ÞH11] kjósenda geti krafist þess að þingmál fari í þjóðar­atkvæðagreiðslu.
  • o
  • o
  • o
Ef já við 5. spurningu, hver finnst þér að þurfi að vera lágmarksstærð [ÞH12] slíks hóps?
  • o 10% kjósenda, nú um 23 þús. manns[ÞH13]
  • o 15% kjósenda, nú um 34 þús. manns
  • o 20% kjósenda, nú um 46 þús. manns

 Til greina kemur að breyta frumvarpi stjórnlagaráðs í samræmi við svör meiri hluta kjósenda við ofangreindum álitamálum. Að auki kann að veðra gripið til sumra þeirra fyrrgreindu valkosta [ÞH14] sem stjórnlagaráð hefur bent á. Jafnframt er ráðgert að frumvarpið verði yfirfarið lagalega [ÞH15] og lagfært ef þurfa þykir.[ÞH16] 

 Því ertu beðinn að merkja framan við einn af eftirfarandi [ÞH17] valmöguleikum:

_____________________________________________________________

  • [ÞH18] , ég vil að unnið verði að gerð nýrrar stjórnarskrár á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs, hugsanlega þannig breyttu.

_____________________________________________________________

  • Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

_____________________________________________________________

  • Ég tek ekki afstöðu

_____________________________________________________________

 

Viðauki 2: Ábendingar um lágmarksbreytingar á þingsályktunartillögu (sjá breytingarham)

Þingskjal 1019  —  636. mál. .
Tillaga til þingsályktunar

um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (VBj, ÁI, RM, JRG, MN, MT).
Alþingi ályktar að tillögur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis 29. júlí 2011 og álitaefni þeim tengd skuli borin upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní 2012.
Eftirfarandi spurningar verði bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

1.    Vilt þú að vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár verði haldið áfram á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs?

Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?[X19]

Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.

  • o    Já, ég vil að vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár verði haldið áfram á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.

Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.

  • o    Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

  • Tek ekki afstöðu.

2.     Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá.

    Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði [X20] Nei Tek ekki afstöðu
    1.     náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, [X21] lýstar þjóðareign ?
    2.     staða þjóðkirkjunnar ákveðin í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá ? ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er ? [X22]
    3.     ákvæði um persónukjör í kosningum til Alþingis ? persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er ? [X23]
    4.     ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt ?
    5.     ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu ?
Eef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?
o 10% eða um 23 þús.

  • o 15% eða um 34 þús.
    o  20% eða um 46 þús. [X24] 

 


 [ÞH1]Gagnlegt að skoða spurningarnar í samhengi við annað á kjörseðlinum.
 [ÞH2]Vísvitandi forðast að nota orðið „stjórnskipunarlög“ sem fáir skilja.
 [ÞH3]Þetta er haft til að leggja áherslu á að frv. er í vinnslu og mun væntanlega taka breytingum
 [ÞH4]Þetta verður að vera hæfilega almennt
 [ÞH5]Spyrja verður fyrst um álitamálin, síðan um plaggið í heild. Einmitt hin röðunin hefur þegar fengið (réttmæta) gagnrýni í 1. umræðu (PBl.).
 [ÞH6]Málið snýst um tillögur ráðsins, ekki bara einhverja nýja stjórnarskrá. Slíkt orðlag hefði mátt nota fyrir ári. Einn nefndarmann í SEN (VH) spurði við 1. umr. hví ekki væri beint spurt um tillögur ráðsins. Sjá t.d. líka gagnrýni í niðurlag í frétt RUV sem kom strax: http://ruv.is/frett/innlent/stjornarskrar-og-forsetakosningar.
 [ÞH7]Reyna að hafa samræmdan stíl á öllum spurningunum
 [ÞH8]Nauðsynleg viðbót, sbr. einnig valkost stjórnlagaráðs
 [ÞH9]Þessi spurning verður að vera þannig að tillaga stjórnlagaráðs svari til „Já“ eins og allar hinar, sbr. t.d. ummæli eins bloggverja, sem styður stjórnlagaráðstillöguna alfarið.
 [ÞH10]Þetta orðalag er nær tillögu stjórnlagaráðs.
 [ÞH11]Finnst betra að tala um hóp, heldur en hlutfall, sbr. það sem á eftir fer.
 [ÞH12]Það er lágmarksstærðin sem málið snýst um.
 [ÞH13]Fáir muna eftir prósentum úr undirskriftasöfnunum, en frekar eftir fjöldatölum,
 [ÞH14]Það verður að segja að það standi til, ella verður óhjákvæmilega spurt til hvers var þá fundur stjórnlagaráðsins í mars?
 [ÞH15]Tilvísun í alþjóðasamninga í þingsályktuninni hefur valdið þeim misskilningi að hér sé verið að ræða um ESB-aðild.
 [ÞH16]Það verður að vera formáli í þessa veru.
 [ÞH17]Álitamálin verða að koma á eftir, annað er órökrétt.
 [ÞH18]Orðlagið í þingsályktunartillögunni er bæði of tæknilegt og of nákvæmt. Almenningur áttar sig ekki á því að frv. getur tekið breytingum. Flestir munu á hinn bóginn telja að verið sé að spyrja um stuðning við frv. sjálft.
 [X19]„Að leggja fram“ mál, skilur almenningur ekki. Fólk telur sig vera að styðja tillögur stjórnlagaráðs eða ekki. Þá hefur komið fram á bloggsíðum að niðurlagið um „alþjóðasamninga“ kunni að vera einhver tilvísun í ESB-aðild, sem það eekki er.  Þar sem stendur til að breyta frv. meira, sbr. valkosti stjórnlagaráðs, er hér lagt til almennara orðalag: „á grundvelli“ o.s.frv.
 [X20]Spurningarnar eru í raun um það hvort menn vilji þau ákvæði sem stjórnlagaráð hefur sett á oddinn. Það verður að koma fram í allri kynningu. Jafnframt verður að gæta samræmis þannig að „já“ þýði í öllum tilvikum stuðning við tillögur ráðsins, en ekki „nei“ eins og er í 2. spurningu óbreyttri.
 [X21]Skortur á þessum orðum hefur valdið misskilningi, sbr. einnig valkost stjórnlagaráðs. Þar að auki vantar í spurninguna ákvæðið um gjaldtöku, en er þó hér ekki tekið upp.
 [X22]Sjá næstsíðasta komment. [X22]
 [X23]Orðalag þingsál. er veikt. Breytta spurningin er að vísu opin í báða enda en samt ákveðnari. Fullnægjandi spurning yrði of löng.
 [X24]Gagnlegt fyrir kjósendur að hafa upplýsingar um fjölda kjósenda að baki prósentum.

Ný stjórnarskrá: Samfélagssáttmáli í boði

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. desember 2011]

Allt frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá hinn 29. júlí s.l. hef ég með nær vikulegum pistlum í Fréttatímanum leitast við að skýra út og rökstyðja tillögurnar. Pistlana má alla finna á vefsíðu minni: thorkellhelgason.is. Nú er mál að linni, a.m.k. að sinni.

Árið framundan skiptir sköpum um framvindu stjórnarskrármálsins. Þingið, en ekki síst þjóðin, verður að koma því í höfn að við eignumst nýjan samfélagssáttmála.

Hvað er í boði?

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja íslenska stjórnarskrá er afrakstur mikillar vinnu ráðsfulltrúa og sérfræðinga stjórnlagaráðs þar sem byggt er á ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar og starfi fyrri nefnda um málið. Þrátt fyrir vafasaman úrskurð Hæstaréttar um ógildingu á stjórnlagaþingskosningunni hafa fulltrúar ráðsins hlotið stuðning kjósenda og síðan Alþingis til verksins. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er m.a. boðið upp á eftirfarandi:

  • Ákvæði um mannréttindi eru stórefld, m.a. ný ákvæði um rétt til upplýsinga og um frelsi fjölmiðla.
  • Náttúruvernd er gert hærra undir höfði en áður. Tekið er af skarið um að auðlindir í þjóðareigu megi ekki selja, en einungis leigja og þá gegn fullu gjaldi.
  • Gjörbreytt ákvæði um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um jafnan atkvæðisrétt óháðan búsetu svo og því að kjósendur geti valið sér þingmannsefni. Einnig ákvæði um að landskjörstjórn úrskurði um gildi kosninga, en ekki þingið sjálft eins og nú.
  • Staða Alþingis er styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að öll frumvörp séu mótuð á Alþingi. Eftirlitsvald þingsins er eflt.
  • Ítarleg ný ákvæði eru um beint lýðræði, það að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og jafnvel lagt fram eigin þingmál.
  • Stjórnarskráin er vernduð með skipun Lögréttu sem gefi álit um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa að ósk Alþingis, og þarf ekki meirihluta þess til.
  • Ákvæði um forseta Íslands eru gerð skýr en felldar burt marklausar greinar um hlutverk hans. Honum er aftur á móti ætlað að veita öðrum valdhöfum traust aðhald.
  • Lögð eru til heilstæð ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn en slík ákvæði hefur skort. Með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra er tekinn er af allur vafi um þingræðið.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum og öðrum æðstu embættismönnum eru styrkt.
  • Sveitarfélögunum er lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Í fyrsta sinn eru stjórnarskrárákvæði um utanríkismál, t.d. um að ekki megi afsala vald til alþjóðlegra samtaka, svo sem Evrópusambandsins, án skýrs vilja þjóðarinnar.
  • Og að lokum, að framvegis verður þjóðin að staðfesta stjórnarskrárbreytingar.

Við, sem sátum í stjórnlagaráði, erum sannfærð um að sú stjórnarskrá sem við gerum tillögu um sé til mikilla bóta, enda stóðum við saman að frumvarpinu í heild.

Árið 2012 verði stjórnarskránni til heilla

Nú er tækifærið til treysta lagalegan grundvöll samfélagsins. Eftir tækifærinu hefur verið beðið allan lýðveldistímann. Notum komandi ár, árið 2012, til að ljúka málsmeðferðinni. Ný stjórnarskrá ætti þá að sjá dagsins ljós eftir kosningar 2013 að fengnu samþykki þings – en ekki síst með beinni staðfestingu þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Hvað nú?

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 14. október 2011]

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá var til ítarlegrar umræðu á Alþingi í vikunni. Hér er ekki tóm til að taka á einstökum athugasemdum þingmanna um efnið, heldur verður vikið að því hvernig framhaldið ætti að vera.

Vanagangurinn

Upphaflega átti stjórnlagaþing að starfa í þremur hrinum með umþóttunarhléum á milli. Því miður náði sú leið ekki fram að ganga. Verði ekki að gert mun framhaldið því verða með eftirfarandi formlegum hætti:

Formlega leiðin: Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallar um frumvarp stjórnlagaráðs og gerir á því breytingar. Nefndin leggur síðan fram frumvarp til samþykktar á Alþingi í síðasta lagi vorið 2013. Síðan verður kosið nýtt þing sem staðfestir frumvarpið svo að úr verður ný stjórnarskrá.

Auðvitað er ekkert nema gott um það að segja ef Alþingi getur með þessu móti bætt tillögur stjórnlagaráðs. Hættan er fólgin í því að aðeins verði til moðsuðuleg meðalmennska um lágmarksbreytingar á núgildandi stjórnarskrá og það án aðkomu þjóðarinnar, eða að málið hreinlega dagi uppi. Það hefur hingað til verið venjan!

Ný vinnubrögð

Að mati undirritaðs þarf önnur vinnubrögð. Verklagið mætti og ætti að vera þetta:

Samræðu- og sáttleið: Þingið, en ekki síst almenningur, fjallar ítarlega um tillögur stjórnlagaráðs. Út úr því koma vonandi góðar ábendingar um betrumbætur. Stjórnlagaráð verður síðan aftur kallað saman og falið að endurskoða frumvarp sitt með hliðsjón af þessari umfjöllun. Þannig breytt frumvarp fer í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin veitir því stuðning, sem vænta má, staðfesti Alþingi vilja hennar eftir hinni formlegu leið.

Hvers vegna að blanda stjórnlagaráðinu aftur í málið? Svarið er einfalt. Þar er orðin til mikil samanlögð þekking á viðfangsefninu sem ætti að nýta. Enn fremur að þetta var upphaflega ætlunin og það stutt góðum rökum. Í þriðja lagi leggja alþjóðlegar ráðgjafarstofnanir áherslu á að unnið sé í áföngum. Þannig verði vinnan hvað vönduðust.

Vitaskuld vakna spurningar um þessa málsmeðferð. Næst til dæmis að kalla stjórnlagaráð aftur saman? Efalaust ekki án affalla, en ætla má að það næðist í að minnsta kosti tvo þriðju hluta ráðsfulltrúa. Geta þeir talað í umboði alls hópsins? Vitaskuld ekki en hinir fjarstöddu fengju þó óbein áhrif ef svo væri fyrir mælt fyrir að það þyrfti stuðning upphaflegs meirihluta, það er að segja 13 af 25, til að samþykktir þessa seinna ráðsþings yrðu marktækar.

Þingmannafrumvarp um ámóta málsmeðferð er þegar komið fram á Alþingi.

Þjóðin verður að veita fulltingi

Hvernig svo sem málinu vindur fram er brýnt að þjóðin komi að því með beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ný stjórnarskrá verður að fá fulltingi hennar. Það er þjóðin sem er að setja stjórnvöldum leikreglur með stjórnarskrá, líka þingmönnum. Æskilegt væri að þjóðin gæti tjáð hug sinn þegar á umræðustiginu og þannig veitt Alþingi leiðsögn. Enn mikilvægara er að lokagerðin hljóti blessun hennar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána verður því að vera bindandi. Nokkrar leiðir koma þá til greina. Ein er sú að láta atkvæðagreiðsluna fara fram samhliða kosningu til þess nýja þing, sem þarf til að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna. Með því móti sparast fé og fyrirhöfn. Í stjórnarskrártillögunni sjálfri gæti í þessu skyni verið hliðstætt ákvæði og 1944 um að hin nýja stjórnarskrá taki því aðeins gildi að hún hafi við þessa kosningu hlotið samþykki þjóðarinnar. Þjóðin fengi þannig neitunarvald, en hið nýkjörna þing hefði það raunar líka.

Eru ljón á veginum?

Þau eru alltaf tilbúin við vegkantinn og hafa þegar látið í sér heyra. Undirritaður trúir því og treystir að þjóð og þing láti ekki úrtöluraddir hrekja sig frá því endamarki að til verði góð stjórnarskrá handa landi og lýð; stjórnarskrá sem verði þjóðinni grunnur að traustara samfélagi.