Stjórnarskráin verður að vera þjóðinni hjartfólgin

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 1. apríl 2011]

Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Eftir langan aðdraganda og ýmis skakkaföll hefur Alþingi nú falið sérstöku Stjórnlagaráði, skipuðu 25 konum og körlum, það verkefni að semja frumvarp að nýjum sáttmála utan um þjóðskipulag okkar. Stjórnlagaráðið er nú fullskipað og tekur til starfa í næstu viku. Ég er einn þeirra sem hafa tekið sæti í ráðinu.

Nú er lag

Vissulega þurftum við að spyrja okkur ýmissa samviskuspurninga áður en við þáðum boð um setu í ráðinu, ekki síst í ljósi úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningar til Stjórnlagaþings. Bent hefur verið á alvarlegar rökvillur í þeim úrskurði en ákvörðun dómaranna var engu að síður endanleg. Við sem munum sitja í Stjórnlagaráði berum hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til úrskurðarins né heldur á þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Við höfum einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem okkur er falið. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þetta má lesa út úr talningu landskjörstjórnar sem Hæstiréttur hefur ekki borið brigður á. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.

Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.

Ákvörðun mín um að taka sæti í ráðinu byggðist ekki síst á því að nú býðst langþráð tækifæri. Gangi það okkur úr greipum er hætt við að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert minna vera. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.

Snúa þarf að við blaðinu

Ónot eru í mörgum landsbúum yfir ásigkomulagi þjóðarinnar nú rúmum tveimur árum eftir hrunið mikla. Væntingar um breytt og bætt þjóðfélag í kjölfar hrunsins voru miklar. Öndvert við það sem gerst hefur víða annars staðar tók almenningur á sig verulega kjaraskerðingu nánast möglunarlaust, enda vissu allir að svokallað góðæri árin á undan hruninu var byggt á sandi. Vissulega hefur margt áunnist þessi tvö erfiðu ár. Tekist hefur að hemja afleiðingar hrunsins og atvinnuleysi varð ekki eins mikið og óttast var. En siðbótin hefur látið standa á sér. Enn er beðið eftir því að sannleikurinn um forkólfa hrunsins verði dreginn fram í dagsljósið fyrir dómstólum. Sumir þeirra sem gengu frjálslega um fjárhirslur bankanna eru aftur farnir að berast mikið á. Mörgum finnst verklag hjá stjórnvöldum og á Alþingi lítt hafa breyst til batnaðar. Svo mætti lengi telja.

Það er í þessu umhverfi sem Stjórnlagaþing hefst handa við að betrumbæta stjórnarskrána. Vonandi fagna flestir þessu skrefi, en svo eru öfl sem reyna að gera starfið tortryggilegt. Það verður því á brattann að sækja. Við sem höfum tekið verkefnið að okkur verðum að reynast trausts verð, við verðum að vinna þannig að sómi sé að og skila frá okkur lokaskjali sem hljóti hylli þjóðarinnar. Að þessu verðum við verðum við að einbeita okkur.

Yfirlýsing Þorkels Helgasonar um töku sætis í Stjórnlagaráði

Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um skipun Stjórnlagaráðs. Drjúgur meirihluti þeirra þingmanna sem afstöðu tóku studdu ályktunina. Þeim 25 sem hlotið höfðu kjörbréf til setu á Stjórnlagaþingi hefur verið boðin seta í ráðinu. Ég er einn þeirra.

Í kosningunni til Stjórnlagaþings hlaut ég tilnefningu nær 13 þúsunda kjósenda sem safnaðist upp í 3196 atkvæði. Þrátt fyrir úrskurð Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar tel ég mig hafa stuðning þessa góða fólks auk þess að hafa skyldur við það til að vinna að því brýna verki að endurbæta stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þessar tölur má lesa út úr talningu landskjörstjórnar en á þær hefur Hæstiréttur ekki borið brigður. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.

Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.

Úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings varpar vissulega skugga á tilurð og tilvist Stjórnlagaráðsins. Ég hef haft efasemdir um niðurstöðu hæstaréttardómaranna, sbr. skrif mín á vefsíðunum https://thorkellhelgason.is/?p=724, svo og https://thorkellhelgason.is/?p=730. Dómurunum var í endurupptökubeiðni bent á hvernig höggva mætti á hnútinn. Úrræðið fólst í endurtalningu fyrir opnum dyrum eftir að öll auðkenni hefðu verið fjarlægð af kjörseðlunum.  Þá hefðu þeir tveir „annmarkar“ á framkvæmd kosningarinnar sem dómararnir töldu „alvarlega“ verið úr sögunni. Við beiðninni var ekki orðið og eftir situr upprunanlega ákvörðunin sem hin endanlega. Þau sem taka boði Alþingis um setu í Stjórnlagaráði bera hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til umræddrar niðurstöðu né heldur þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Þau hafa einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem þeim er falið.

Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána í heild. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Verði það tækifæri sem nú býðst ekki nýtt óttast ég að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert vera minna. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.

Í ljósi alls þessa hef ég tekið boði Alþingis um skipun í Stjórnlagaráð.

27. mars 2011, Þorkell Helgason

Endurspegla kjördæmi nærumhverfi okkar?

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 25. mars 2011]

Í síðustu grein minni í Fréttatímanum færði ég siðferðileg rök fyrir því að kjósendur ættu að hafa jafnt atkvæðavægi, óháð búsetu, þegar kemur að því að kjósa til Alþingis. Því markmiði má ná með ýmsu fyrirkomulagi kosninga og kjördæmaskipunar. En um leið þarf að huga að fleiri sjónarmiðum, t.d. eftirfarandi og byrja ég þá á forsendunni sem áður greinir:

  1. Kjósendur hafi jafnt atkvæðavægi óháð búsetu.
  2. Jafnræði sé með stjórnmálasamtökum.
  3. Æskilegt er að þingmannsefni bjóði sig fram í nærumhverfi kjósenda.
  4. Kjósendur ráði vali á þingsmannsefnum a.m.k. innan þess flokks sem þeir styðja, jafnvel þvert á flokka.

Þessi upptalning er hvergi nærri tæmandi, en látum hér við sitja í svipinn. Ég hef þegar tekið af skarið með þá skoðun að frá fyrsta markmiðinu megi ekki víkja, enda fæ ég ekki séð að það þurfi að vera í mótsögn við neitt hinna markmiðanna.

Með öðru markmiðinu er átt við pólitískt jafnræði í þeim skilningi að þingflokkar fái rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Segja má að það hafi leynt eða ljóst verið markmið stjórnarskrárgjafans  a.m.k. allt frá kjördæmabreytingunni miklu 1959. En þetta pólitíska markmið kann að stangast á við fjórða markmiðið. Um það markmið ætla ég að ræða í síðari pistlum. Einblínum því nú á annað markmiðið og að hluta til það þriðja, en að því fyrsta sjálfgefnu.

Allir þingmenn verði landskjörnir

Annað markmiðið er í raun krafa um hlutfallskosningar í einhverri mynd; að þingsætin skiptist á milli flokka því sem næst í beinu hlutfalli við landsfylgi þeirra. Í grundvallaratriðum er þá aðeins ein tegund lausna: Uppskipting í kjördæmi, eitt eða fleiri, ásamt með nægilega mörgum jöfnunarsætum til að tryggja flokkajafnræði. Kjördæmaskiptingin verður að sjálfsögðu að vera slík að ekki halli á kjósendur eftir búsetu. Í ljósi þess hve búseta er misdreifð um landið skapar uppskipting í kjördæmi veruleg vandkvæði: Annað hvort verða kjördæmin með mjög mismarga kjósendur – og þar með mismarga þingmenn – eða brytja verður höfuðborgarsvæðið niður í mörg smá og tilviljunarkennd kjördæmi.

Nú eru jöfnunarsætin níu og mega ekki vera færri. Raunar er engin trygging fyrir því að sú tala dugi til að ná megi flokkajafnræði. Meinið við jöfnunarsætin, eins og þau hafa verið útfærð, er að þeim er troðið upp á kjördæmin. Þannig fá t.d. stuðningsmenn Framsóknarflokksins á Suðvesturlandi þingmenn að norðaustan, e.t.v. þvert á vilja sinn. Það er og verður flækjufótur að búa til kosningakerfi þar sem blandað er saman fylgi úr kjördæmum við landsfylgi. Til er stærðfræðileg sönnun á því að enginn aðferð er til í þeim efnum sem er í senn gallalaus og einföld.

Að mínum mati er leiðin út úr þessum ógögnum einföld: Hún er sú að sleppa kjördæmunum, hafa alla þingsmenn landskjörna. Meginrök mín eru einfaldlega þau að við erum ein smáþjóð í einu eylandi. Við eigum og verðum að gæta hagsmuna okkar allra í jöfnum mæli. Ekki síst er það hlutverk þingmanna. Hrepparígur og kjördæmapot hafa valdið okkur ómældum skaða.

… er í takt við þróunina

Landsbyggðamenn óttast að með einu kjördæmi, með meirihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu, verði hlutur þeirra fyrir borð borinn. Ég er sannfærður um að svo verður ekki en við þeirri hættu má líka sjá með ýmsu móti. Fyrirkomulag framboða má hafa þannig að frambjóðendur geti höfðað sérstaklega til einstakra landshluta. Þetta gera Danir að nokkru leyti, svo og Hollendingar sem hafa sitt fjölmenna en litla land eitt kjördæmi. Í reynd er þetta fyrirkomulag líka í Þýskalandi þótt útfærslan þar sé óþarflega flókin. Ég mun útlista þessa hugsun síðar í tengslum við persónukjör og þá víkja samtímis að þriðja og fjórða markmiðinu; hvernig persónukjör og nærumhverfishugsun geta farið saman.

Er ekki kjördæmi í landfræðilegum skilningi fyrirbæri frá fyrri öldum og á vart við á tímum greiðra samgangna og rafrænna samskipta? Þeir sem ég samsama mig mest við og vildi helst vera í „kjördæmi“ með, búa ekki endilega í næsta landfræðilega umhverfi mínu. Grannar mínir eru öllu frekar í mínu félagslega umhverfi jafnvel þótt það kunni að spanna allt landið.

Sumir segja eitt landskjördæmi nýstárlegt og ótímabært fyrirkomulag. Því fer fjarri. Þegar árið 1927 var málið reifað á Alþingi, etv. fyrr. Þá hefur þróunin verið í þessa átt allan lýðveldistímann. 1944 voru kjördæmin 28 að tölu og aðeins með 1,5 þingsæti að meðaltali hvert. 1959 var þeim fækkað í 8 og aftur í 6 um síðustu aldamót. Það sem meira er þá hefur landið verið pólitískt eins og eitt kjördæmi allt frá 1987. Því er einsýnt hvert stefnt hefur.

Sagt er að stjórnlagaþingskosningin hafi afskrifað hugmyndina um landskjördæmi og persónukjör sérstaklega. Þessu er jafnvel öfugt varið að mínu mati. Um það má lesa meira á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=715.

Að lokum: Útfærsla kosninga og kjördæmaskipunar er að nokkru leyti stærðfræðilegt og tæknilegt mál, en má þó ekki ráðast af þeim mælistikum einum. Þar er í fleiri horn að líta.

Brennt barn forðast eldinn

Alþingi samþykkti 15. mars. s.l. breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

13. gr. laganna var svona fyrir breytinguna:

  • [1. mgr.] Kjósandi getur sent kæru um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu, aðra en refsikærur, til Hæstaréttar eigi síðar en sjö dögum frá því að [ráðuneytið]1) auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar.
    [2. mgr.] Landskjörstjórn veitir Hæstarétti umsögn um atkvæðagreiðsluna. Umsögn skal veitt óháð því hvort kæra hafi borist skv. 1. mgr.
    [3. mgr.] Að fenginni umsögn landskjörstjórnar getur Hæstiréttur ákveðið að ógilda niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef verulegur ágalli hefur verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Séu slíkir verulegir ágallar á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í einu eða fleiri kjördæmum getur Hæstiréttur ákveðið að hún fari aftur fram þar.

Eftir breytinguna hljómar lagagreinin þannig:

  • [1. mgr.] Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.
    [2. mgr.] Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

[Feitletrun mín.] Samsvarandi ákvæði um að því aðeins megi ógilda kosningu að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna er einnig að finna í lögum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna.

Þetta er allt athyglisvert m.a. í ljósi þess að lög um stjórnlagaþing voru „næsti bær við“ þjóðaratkvæðagreiðslulögin, þau höfðu númerin 90/2010 og 91/2010. Í lögunum um stjórnlagaþingið segir í 15. gr. m.a:

  • [1. mgr.] Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.

Hér segir ekkert um hvenær megi ógilda kosninguna. Voru mistök í lagasetningu eða vissi Alþingi hvað það var að gera?

Heildarúrslit stjórnlagaþingskosningarinnar

Heildarúrslit stjórnlagaþingkosningarinnar 27. nóv. 2010 má finna á vef landskjörstjórnar; sjá LandskjorstjornKosning. Þetta skjal er ekki auðvelt aflestrar.

Ég hef umbreytt þessari skrá landskjörstjórnar í hefðbundið birtingarform úrslita kosninga af þessu tagi (STV-kosninga). Hún er hér viðhengd sem Excel-skrá, en er harla stór! Stærðarinnar vegna er hún í tveimur hlutum. Í fyrri skránni SLÞkosningLoturWPI eru upplýsingar um þá frambjóðendur sem fengu mest fylgi. Upplýsingar um hina eru í SLÞkosningLoturWPII.

SLÞkosningLoturWPI

SLÞkosningLoturWPII