About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Kosningahermir kynntur

Þróaður hefur verið hugbúnaður, kosningahermir, til prófunar á eiginleikum og gæðum kosningakerfa. Þetta er verkfæri til að kanna mismunandi skipan kjördæma og með hinum ýmsu úthlutunaraðferðum.

Hægt er að fræðast nánar um herminn með því að renna yfir þessar glærur: Kosningakerfishermir kynning oktober 2019

 

Með herminum má prófa hugmyndir um fyrirkomulag kosninga á grundvelli raunverulegra kosningaúrslita en ekki síður með tilbúnum hendingakenndum úrslitum sem fengnar eru með  tölfræðilegum hætti.

Kostir og gallar hvers kerfis eru mældir á ýmsan hátt, t.d. því hve hlutfallsleg úrslitin eru eða hvort jöfnunarsæti riðla um of úthlutun innan hvers kjördæmis.

Hugbúnaðurinn er ekki sérsniðinn að Íslandi. Alþingkosningar eru hafðar í huga en búnaðurinn fellur að kosningakerfum flestra grannríkja.

Kosningahermirinn verður gerður aðgengilegur öllum, fræðimönnum, stjórnmálamönnum og öðrum áhugamönnum um grunnstoð lýðræðisins: Fyrirkomulag kosninga.

Ennfremur er á glærunum sagt lauslega frá bók sem er í smíðum um viðfangsefnið (en ekki þó herminn sérstaklega). Bókin gengur undir vinnuheitinu „Kosningafræðarinn“.

[Glærurnar lítillega endurbættar 16. okt. 2019.]

Umsögn um tillögur flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um auðlindir

Formenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi munu hafa orðið sammála um að birta og óska eftir athugasemdum við drög að frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.

Ég hef sent inn umsögn (ásamt fylgibréfi) um tillögur flokksformannanna, en í samantekt segi ég:

Samantekt

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Lýst er áhyggjum af því hvað „einkaeignarréttur“ nákvæmlega þýðir; hvort tryggt sé að þjóðareignir geti ekki orðið að einkaeignum með hjálp þessa hugtaks.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum. Sum atriði í greinargerð vekja upp efasemdir.
  • Það veldur verulegum áhyggjum að ákvæði um gjaldtöku fyrir afnotaheimildir gefur engar vísbendingar um hvers eðlis gjaldtakan skuli vera. Þá er spurt hvaða afleiðingar það kunni að hafa að krafa um gjaldtöku þurfi aðeins að taka til nýtingar í svokölluðu ábataskyni.
  • Þess er saknað að hið ráðgerða stjórnarskrárákvæði nái ekki til annarra almannagæða en aðeins náttúrurauðlinda.
  • Sérstaklega er krafist svara við því hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda kvótakerfi í sessi og það ásamt með rýrum veiðigjöldum. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu vorið 2015.
  • Í heild hljómar hið ráðgerða ákvæði sem snotur viljayfirlýsing en með rýru efnislegu innihaldi. Því leyfir undirritaður sér að stinga upp á lágmarks skerpingu ákvæðisins þannig að eitthvað verði hönd á festandi.

Stjórnarskrárafmæli, þýsk og íslensk

[Eftirfarandi pistill birtist nokkuð styttur í Fréttablaðinu 7. júní 2019 og jafnframt á vefsíðunni https://www.frettabladid.is/skodun/stjornarskrarafmaeli-thysk-og-islensk/.  Hér er pistillinn í upphaflegri lengd.]

 

Mannleg reisn er friðhelg

Þannig hefst fyrsta grein stjórnarskrár eða grundvallarlaga Sambandslýðveldisins Þýskalands; „Die Würde des Menschen ist unantastbar.“ Þetta var skráð fjórum árum eftir að lokið hafði hörmungartímabili í þýskri sögu þar sem mannhelgin var fótum troðin af valdhöfum.

Við setningu grundvallarlaganna var lagt kapp á að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig. Var þá tekið mið af því hvað þótti hafa brugðist í þeirri stjórnarskrá sem á undan hafði gilt, Weimar-stjórnarskránni, en í ár er liðin rétt öld frá því að hún tók gildi. Það var líka eftir tímabil eymdar og niðurlægingar upp úr endalokum fyrra stríðs. Sú stjórnarskrá var um margt framsækin, ekki síst hvað mannréttindi varðar. En á henni þóttu gallar og sá einna helstur að forsetinn hafði of mikil völd. Hann gat sett lög og vikið grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar til hliðar á meintum neyðartímum. Það var ógæfa þýsku þjóðarinnar að þurfa að kjósa lýðræðisandstæðing, hershöfðingjann Paul von Hindenburg, á forsætisstól árið 1932 en þá stóð valið um hann eða annan verri. Sá vélaði skömmu síðar forsetann til að veita sér alræðisvald. Afleiðingin var mesti hildarleikur sögunnar.

Hinn 23. maí sl. minntust Þjóðverjar þess að liðin voru 70 ár frá því að grundvallarlög þeirra tóku gildi. Þjóðverjum er annt um þessa stjórnarskrá, enda hefur hún tryggt að mannhelgi hefur verið virt, frelsi og friður ríkt og lýðræði og réttarríki í heiðri haft; allt lengur en nokkurn tímann áður í þýskri sögu. Vonir eru bundnar við að svo verði um ókomna tíð. Raunar eru ákvæðin um breytingar á grundvallarlögunum þýsku þannig að undirstöðunni svo sem um reisn mannsins verður ekki haggað svo lengi sem lýðskrumurum tekst ekki að hrifsa völdin. Í Þýskalandi sem og annars staðar þarf almenningur að sjá í gegnum blekkingar þeirra. Þar þurfa Íslendingar einnig að vera á varðbergi.

Ein mikilvægasta trygging þess að stjórnarskráin þýska standist tímans tönn er það nýmæli hennar er að starfa skuli sérstakur stjórnlagadómstóll þar sem hver og einn getur borið upp mál þyki lög eða stjórnvaldsaðgerðir brjóta í bág við stjórnarskrána. Dómstóllinn er virkur og vakandi. Úrskurða hans, sem eru nánast vikulegir, er beðið af eftirvæntingu og hefur dómstóllinn einatt sett Sambandsþinginu og stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar, svo sem með því að krefjast tvívegis lagfæringa á kosningalögum til aukins jafnræðis milli flokka og til að auka rétt kjósenda. Það er því viðeigandi að aðalhátíðin á þessum afmælisdegi stjórnarskrárinnar var haldin í Karlsruhe þar sem stjórnlagadómstóllinn hefur aðsetur sitt. Forseti stjórnlagadómstólsins, Andreas Voßkuhle, hefur í leit að því sem sameinar þýsku þjóðina eftir hörmungar nasistaríkisins staldrað við þýska orðið Verfassungspatriotismus sem e.t.v. má snara sem stjórnlagastolt. Það er vel við hæfi hjá þjóð sem hafnar þjóðrembu fyrri tíma, kvilla sem hefur leitt þá og margar aðrar þjóðir á villigötur.

Fyrirmynd handa öðrum

Þýska stjórnarskráin hefur orðið fyrirmynd margra þjóða sem hafa losnað undan alræði svo sem á Grikklandi, Spáni, í Portúgal eða Suður-Afríku en ekki síður í ríkjum Austur-Evrópu sem brutust undan einræði í nafni kommúnisma. Það er sorgarsaga að þar er nú óðum verið að hverfa til baka, svo sem með því að grafa undan hinum þýskættuðu stjórnlagadómstólum.

Stjórnlagaráð hafði hliðsjón af þýsku stjórnarskránni þegar það vann að tillögum sínum sumarið 2011. Nefna má ákvæði um afmörkun á valdi forseta lýðveldisins. Annað dæmi er að forsætisráðherra skuli kosinn af Alþingi og að honum verði ekki vikið frá nema með kjöri eftirmanns. (Þetta nefnist „konstrúktíft“ vantraust á erlendum málum.) Ákvæðið byggir á dapurri reynslu Þjóðverja frá Weimar-lýðveldinu þar sem stjórnarkreppur voru tíðar. Margir hafa farið að þessari fyrirmynd Þjóðverja.

Í þýsku stjórnarskránni er vissulega kveðið á um að eignarrétturinn skuli tryggður, en því bætt við að eignum fylgi skyldur í almannaþágu. Þessa viðbót tók Stjórnlagaráð upp nær orðrétta. Reyndar er orðlagið um eignarréttinn í íslensku stjórnarskránni með helgiblæ. Þar er notað orðið „friðhelgur“ sem kemur hvergi annars staðar fyrir í því skjali. Þjóðverjum finnst slíkur hátíðleiki eiga betur við þegar rætt er um reisn mannsins en um jarðneska hluti. Við í Stjórnlagaráði hreyfðum samt ekki við þessu helgikennda orði.

Fleira mætti nefna sem sótt var í þýsku stjórnarskrána svo sem ákvæði um frelsi menningar og mennta. Stjórnlagaráð hikaði við að stinga upp á fullgildum stjórnlagadómstóli en lagði á hinn bóginn til ráðgefandi fastanefnd, Lögréttu, í svipuðu skyni.

Þýska stjórnarskráin er ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Áður hefur verið nefnt að stjórnlagadómstóllinn þýski hefur dæmt lagaákvæði um kosningar til Sambandsþingið stjórnarskrárbrot. Það ræðst m.a. af því að fyrrimælin um kosningar í stjórnarskránni sjálfri eru afar fátækleg. Í tilefni af stjórnarskrárafmælinu hefur einn fremsti stjórnlagafræðingur Þýskalands, Dieter Grimm, bent á þetta. Hann kallar eftir skarpari ákvæðum til að koma í veg fyrir að þingmeirihluti geti hlaðið undir sig þingsætum með kosningalagabrellum. Einmitt það er að gerast í Austur-Evrópu. Grimm tekur dæmi af ríkjandi flokkum í Póllandi og Ungverjalandi. Þannig hafi hinn pólski flokkur PiS náð hreinum meirihluta út á 36% atkvæða og Fidesz-flokkurinn í Ungverjalandi hafi meira en tvo þriðju hluta þingmanna út á aðeins 53% atkvæðafylgi og hafi þar með getað breytt stjórnarskrá að sínu skapi. Hér var Stjórnlagaráð á undan þeim þýsku með tillögu sinni um ítarleg stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag þingkosninga, ekki hvað síst til að fyrirbyggja yfirgang meirihlutans.

Allt til bráðabirgða?

Í ár eru líka merkisafmæli íslenskra stjórnarskráa. Sú frá 1874, konungsgjöfin verður 145 ára og lýðveldisstjórnarskráin frá 1944, sú sem sögð var til bráðabirgða, heldur upp á 75 ára afmæli. Þýsku grundvallarlögin voru reyndar einnig sögð tímabundin. Þau náðu í fyrstu aðeins til Vestur-Þýskalands, til hernámssvæða vesturveldanna. Þetta var ástæða þess að stjórnarskráin frá 1949 hlaut nafnið grundvallarlög. Því skyldi breytt í stjórnarskrá þegar náðst hefði að sameina landið af fúsum og frjálsum vilja þýsku þjóðarinnar. Það varð árið 1990, en þar sem grundvallarlögin höfðu sannað gildi sitt og fest sig í sessi þótti hvorki ástæða til að taka þau til endurskoðunar né hrófla við nafninu. Þó hafði hvoru tveggja verið lofað í upphafi.

Að lokum má benda á að aðeins eru tvö ár til nýs íslensks stjórnarskrárstórafmælis. Þá verða liðin 10 ár frá því að Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis um endurbætta stjórnarskrá með aukinni tryggingu lýðréttinda, allt í anda þess að slá skjaldborg um hina mannlegu reisn. Í því sambandi er gaman að geta sagt frá því að nokkrum dögum fyrir hið nýliðna þýska stjórnarskrárafmæli kom stór sendinefnd frá þýska stjórnlagadómstólnum til Íslands til að kynna sér íslensk stjórnarskrármál, ekki síst tillögur Stjórnlagaráðs. Vonandi verður á 10 ára afmælinu hægt að segja þeim og öðrum að grundvöllur hinnar „nýju stjórnarskrár“ hafi tekið gildi, eins og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 22. október 2012.

Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði


 

Athugasemdir handa starfshópi um endurskoðun kosningalaga

Forseti Alþingis hefur skipað starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir tillögur vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga ásamt frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 5. september 2016. Óskað er eftir athugasemdum við þessi gögn o.fl.  fyrir 22. janúar 2019.

Þar sem ég hef sýslað við allmargt á þessu sviði hef ég sent nefndinni athugasemdir mínar, sem ég enda þannig:

Ég vil ljúka ábendingum með því að hvetja starfshópinn til dáða, nú þegar lýðræði á í vök að verjast víða um heim. Hvatningu minni til stuðnings vitna ég í hinn spænska hugsuð José Ortega y Gasset (1883-1955):

 „Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru,

hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: Fyrirkomulagi kosninga.

Allt annað er aukaatriði.“

Lok á ráðgjafarstarfi fyrir landskjörstjórn

Ég hef verið viðriðin kosningamál allt frá árinu 1982; fyrst sem stærðfræðilegur ráðgjafi við endurskoðun ákvæða um kosningar til Alþingis, bæði á árabilinu 1982-87 og aftur um og fyrir s.l. aldamót. Jafnfram hef ég liðsinnt landskjörstjórn við úthlutun þingsæta í öllum kosningum frá og með þeim árið 1987 til og með þeirra 2013.

Þegar ég af aldurssökum hætti að þjónusta landskjörstjórn eftir þingkosningarnar 2013 sendi ég henni e.k. kveðjubréf sem mig langar að halda til haga einmitt nú (2019) þegar endurskoðun kosningalaga stendur fyrir dyrum. Bréfið var þannig:

Til landskjörstjórnar.

Ég hóf afskipti af kosningamálum haustið 1982 en þá varð e.k. ráðgjafi flokksformanna sem þá voru að undirbúa breytingu á ákvæðum um kosningar til Alþingis. Síðan 1987 hef ég verið ráðgjafi landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta. Nú er mál að linni og búið er að finna traustan eftirmann minn. Að vísu vænti ég þess að geta lokið mínu starfi með heildargreiningu á kosningaúrslitunum eins og ég hef gert á þrennum síðustu þingkosningum.

Ég vil með bréfi þessum þakka landskjörstjórn, fyrr og síðar, fyrir einkar ánægjulegt samstarf. En jafnframt vil ég með bréfinu hvetja til að allt fyrirkomulag kosninga verði tekið til endurskoðunar. Þar er ekki átt við hina pólitísku þátta málsins heldur um framkvæmdina alla. Kosningalög hafa ekki verið endurskoðuð í heild um afar langa hríð. Að hluta til má rekja ákvæðin öld aftur í tímann, jafnvel lengur.

Ég hef kynnt mér erlendar fyrirmyndir og ráðleggingar alþjóðastofnana og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera einn lagabálkur um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, en vitaskuld með sérákvæðum um einstakar kosningar. Mikilvægur þáttur í þeim lögum ætti að vera að styrkja stöðu landskjörstjórnar og koma húsbóndavaldinu á eina hönd, hjá landskjörstjórn. Af erlendum fyrirmyndum vil ég sérstaklega benda á slík heildarkosningalög í Noregi.

Í kjölfar endurskoðunar er síðan brýnt að endurskoða allt gagnaflæði og gagnvinnslu og fella þetta saman í eitt kerfi. Á meðf. fylgiskjali, „Gagnaflæði við þingkosningar 2013“ , er þetta sýnt fyrir nýliðnar kosningar.

Eitt markmiða með endurbættu fyrirkomulagi og heilstæðu gagnakerfi ætti að vera að lækka kostnað við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, enda viðbúið að þeim muni fjölga á komandi árum.

Enda þótt formlegu starfi mínu fyrir landskjörstjórn sé að ljúka er ég reiðubúinn til að ljá þessum endurbótum lið, sé eftir því óskað.

Virðingarfyllst,

(sign. Þorkell Helgason)

Um bestu aðferðir við úthlutun þingsæta

Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.

Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.

Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.

Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.

Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.

Um frumkvæðisrétt kjósenda; hjá Stjórnlagaráði og í Hessen

Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.

Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.  Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.

Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.

Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!

Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.

Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá http://thorkellhelgason.is/?p=2065.

Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.

Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.

Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.

Greining á úrslitum þingkosninga og úthlutun þingsæta á þessari öld

Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.

Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.

Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:

Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:

  • Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
  • Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
  • Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.

Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.

Þröskuldur með sveigjanleika

Í þingkosningunum fer hluti atkvæða forgörðum vegna ákvæða um þröskuld, um lágmarksfylgi við úthlutun jöfnunarsæta, en flokkur á ekki rétt á slíkum sætum fái hann ekki a.m.k. 5% gildra atkvæða á landinu öllu. Sérstaklega voru áhrif þessa áberandi í kosningunum 2013. Við þessu má sjá með því að kjósendum verði gert kleift að tilgreina flokk til vara þannig að atkvæði þurfi ekki að daga uppi áhrifalaus nái sá flokkur er hann helst kýs ekki tilskildu lágmarksfylgi. Reifuð er útfærsla á slíku fyrirkomulagi í pistlinum „Þröskuldur með sveigjanleika“.

Helguleikur – saga Helgu Ingólfsdóttur og Sumartónleika í Skálholtskirkju. Útgáfuhóf í sal FÍH fimmtudaginn 28. júní

 

Út er komin bókin Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Af því tilefni efna Sumartónleikarnir í Skálholti og Bókaútgáfan Sæmundur til útgáfuhófs í sal FÍH í Rauðagerði 27 í Reykjavík fimmtudaginn 28. júní klukkan 17-19. Auk bókarinnar verður þar kynnt starf Sumartónleikanna en dagskrá þeirra ár hefst 7. júlí næstkomandi. Kaffi og konfekt, allir velkomnir.

Bókin verður seld á tilboðsverði í útgáfuhófi, með 20% afslætti frá leiðbeinandi verði eða á 13500 kr.

Í bókarkynningu verða leikin sýnishorn af diskum sem fylgja bókinni með semballeik Helgu Ingólfsdóttur.

Í bókinni Helguleikur segir frá semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur (1942-2009), Sumartónleikum í Skálholtskirkju og sögu barokktónlistar á Íslandi. En einnig er hér gerð grein fyrir alþjóðlegum straumum í tónlist frá 18. öld til okkar daga. Lesandinn er leiddur inn í heillandi sögu frumherja í tónlistarstarfi sem gerðu jafnvel Bach að Biskupstungnamanni.

Í bókinni er rakið hvernig semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir breytti hugmyndum manna um barokktónlist en var jafnframt öflugur túlkandi nýrrar tónlistar enda heilluðust tónskáld af leik hennar og hljóðfæri og tileinkuðu henni verk sín.

Gerð er tilraun til að greina stefnur og strauma í nýrri íslenskri tónlist og fjallað um þá viðleitni íslenskra tónskálda að segja sögur í tónlist sinni. Getur einleiksverk fyrir sembal fjallað um hallarrústir í frumskógum Víetnams?

Bókinni fylgja sex hljómdiskar með leik Helgu.

Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Harðspjaldabók í stóru broti, 450 síður. ISBN 978-9935-465-72-6. Leiðbeinandi verð er 16990 kr.