Greining á úthlutun þingsæta eftir alþingiskosningarnar 10. maí 2003

Kosningar til Alþingis fóru fram hinn 10. maí 2003 og byggðust á nýrri kjördæmaskipan þar sem landinu er skipt í 6 kjördæmi í stað 8 áður, sbr. breytingu á ákvæðum 31. gr. stjórnarskrárinnar með lögum nr. 77/1999, svo og kosningalög, nr. 24/2000.
Kosningalögin kveða jafnframt á um breytta aðferð við úthlutun þingsæta.

Í þessari greinargerð er fjallað um kosningaúrslitin og úthlutun þingsæta.

Einkum er litið til þess hvernig hin nýja skipan hefur reynst í þessum fyrstu kosningum þar sem á hana reynir.

Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér

Raforkunotkun á uppleið

Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Þriðjudaginn 19. mars, 2002

Mikla aukningu í raforkunotkun, segir Þorkell Helgason, má að stærstum hluta rekja til uppbyggingar stóriðju sl. fimm ár.

RAFORKUNOTKUN hér á landi hefur aukist mikið síðustu árin, aðallega vegna aukinna umsvifa orkufreks iðnaðar. Almenn notkun hefur einnig aukist nokkuð og nú er svo komið að við Íslendingar eigum orðið heimsmet í raforkunotkun á hvern íbúa, eða 28,2 MWh á ári.

Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í samantekt Orkuspárnefndar, en það er samstarfsvettvangur Fasteignamats ríkisins, Hagstofunnar, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar, Orkustofnunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitna ríkisins, Samorku og Þjóðhagsstofnunar. Starfsmaður nefndarinnar er Jón Vilhjálmsson hjá verkfræðistofunni Afli ehf. Orkuspárnefnd gefur á hverju ári út endurreiknaða spá um raforkunotkun landsmanna, og á um fimm ára fresti endurskoðar hún þessa spá frá grunni og birtir í ítarlegu riti. Einnig birtir nefndin spár um aðra orkugjafa. Spár þessar eru mikið notaðar af stofnunum og fyrirtækjum á ýmsum sviðum. Nefndin hefur á undanförnum árum orðið vör við aukinn áhuga á spánum og einnig ýmsum mikilvægum hagrænum forsendum sem þær byggjast á.

Aukning í raforkuvinnslu
Árið 2001 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 8.028 GWh og hafði þá aukist um 4,5% frá árinu áður. Stórnotkun (raforkunotkun stórnotenda) nam 4.955 GWh og almenn notkun 2.825 GWh. Aukningu í raforkunotkun hér á landi síðustu árin má að stærstum hluta rekja til þeirrar uppbyggingar stóriðju sem átt hefur sér stað síðustu fimm ár. Þar kemur til stækkun álvers Ísals og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga auk álvers Norðuráls sem byggt var í tveimur áföngum. Raforkunotkun stóriðju hefur þannig tvöfaldast undanfarin fimm ár. Fyrir 1997 höfðu hins vegar litlar breytingar orðið á stórnotkun síðan rekstur Íslenska járnblendifélagsins hófst á Grundartanga 1979. Aukningin í raforkuvinnslunni undanfarin fimm ár samsvarar nær allri almennri raforkunotkun á síðasta ári.

Aukning á höfuð- borgarsvæðinu
Á höfuðborgarsvæðinu hefur aukning almennrar raforkunotkunar verið tvöfalt meiri en á landinu í heild síðustu fimm árin eða 4,7% aukning að meðaltali á ári, en til samanburðar var aukningin á landinu í heild 2,4% á ári að meðaltali. Á þessum árum hefur nánast öll fjölgun landsmanna komið fram á höfuðborgarsvæðinu sem kemur greinilega fram í notkuninni en þrátt fyrir það hefur verið aukning í raforkunotkun í flestum landshlutum. Einungis á Vestfjörðum hefur notkunin minnkað á tímabilinu.

Raforkunotkun háð efnahagssveiflum
Raforkunotkun er oft greind niður í tvo meginþætti, þ.e. í forgangsorku og ótryggða orku. Meginhluti notkunarinnar er forgangsorka en með ótryggðri orku er átt við notkun þar sem samið hefur verið um að skerða megi notkunina, t.d. þegar erfiðleikar eru í vatnsbúskap virkjana.

Sveiflur í efnahagslífi Íslendinga koma vel fram í árlegri notkun forgangsorku. Á árunum 1989-94, þegar hagvöxtur var lítill hér á landi, var árleg aukning almennrar forgangsorku einungis um 1% en eftir að hagvöxtur jókst að nýju hefur aukningin verið 2,6% að meðaltali en landsframleiðsla hefur á sama tímabili aukist um 3,7% á ári að meðaltali. Raforkunotkunin sveiflast að jafnaði með landsframleiðslunni en sveiflurnar eru þó minni í raforkunotkuninni. Hagvaxtarbreytingar skila sér þó ekki strax í raforkunotkun. Þannig hófst núverandi hagvaxtarskeið árið 1994 en kom ekki fram í raforkunotkun fyrr en 1995.

Orkuspárnefnd forspá
Síðustu þrjár raforkuspár Orkuspárnefndar hafa staðist mjög vel. Þegar litið er á eldri spár og þær bornar saman við rauntölur síðustu ára sést að spá frá 1985 um almenna notkun 2001 er einungis um 5% yfir raunnotkuninni, spá frá 1992 er um 7% undir raunnotkuninni og spáin frá 1997 er nánast sú sama og raunnotkunin 2001.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Orkuspárnefndar, www.orkuspa.is.

Höfundur er orkumálastjóri og formaður Orkuspárnefndar.

Er til gnægð ónýttrar raforku?

Grein fengin af Mbl.is, Skrifuð Föstudaginn 15. júní, 2001

Það er heillandi framtíðarsýn, segir Þorkell Helgason, að unnt verði að anna allri orkuþörf okkar með innlendum orkulindum.

UM fimmtungur af frumorkunotkun okkar fer til að knýja farartæki á landi og sjó og eru 3/4 hlutar innflutts eldsneytis til þessara þarfa. Á sama hátt má rekja nær 60% af koltvísýringslosun til orkunotkunar hreyfanlegra tækja.

Þar sem við Íslendingar erum jafn háðir eldsneyti og raun ber vitni er það okkur keppikefli að nýta innlenda orkugjafa til að leysa innflutt eldsneyti af hólmi. Hingað til hefur það ekki verið talið hagkvæmt. En forsendur eru að breytast. Það hyllir undir að efnarafalar sem ganga fyrir vetni komi í almenna framleiðslu. Notkun efnarafala í farartækjum er forsenda þess að vetni framleitt með íslenskri raforku geti keppt við innflutt eldsneyti. Jafnframt kann að stefna í að losun koltvísýrings verði verðlögð á alheimsvísu en þá verður öll notkun jarðefnaeldsneytis sem því nemur dýrari.

Það er því ekki nema að vonum að margir horfi til þess fagnandi að það verði mögulegt og skynsamlegt að nýta innlenda, endurnýjanlega orku í stað þeirrar innfluttu. Mikilvægt er að upplýsingar til almennings í þessum málum séu á traustum grunni og að ekki séu gerðar gyllingar. Skýrsla sem kom út nú í aprílmánuði á vegum World Wildlife Fund og Náttúruverndarsamtaka Íslands er á hinn bóginn dæmi um villuljós.

Margt er af rangfærslum og ýkjum í skýrslunni en hér verður aðeins staldrað við meginfirruna; þá að tiltæk sé gnægð af e.k. ónýttri raforku, svo mikið að með henni megi framleiða vetni til að knýja um 22% af bíla- og fiskiskipaflota landsmanna án þess að reisa þyrfti eina einustu virkjun. Og í kjölfarið er að því vikið að þessi ónýtta orka kosti lítið og þar með geti vetnisvæðingin hafist án hagrænna fórna.

Hvernig er raforkan unnin?
Sem kunnugt er vinnum við raforku úr vatnsafli og háhita, um 83% úr vatnsaflinu og afganginn úr jarðvarmanum. Háhitaorkuver takmarkast af uppsettu afli þeirra. Orkugjafinn er ætíð til staðar og hentar því best að hafa orkuvinnsluna sem stöðugasta. Í rekstri vatnsorkuvera er orkugjafinn, vatnið, hinn takmarkandi þáttur. Vatn í ám og fljótum er breytilegt, innan sólarhringsins, milli árstíða og ára. Miðlunarlón eru einmitt reist til að jafna út þennan breytileika, eins og kostur er og hagkvæmt þykir. Aflvélarnar sjálfar eru aftur á móti hafðar nokkuð við vöxt og miðast afl þeirra við það hámark sem hagkvæmt er að framleiða á hverjum tíma.

Eftirspurnin stóriðjuveranna, sem nú kaupa um tvo þriðjuhluta af raforkunni er nokkuð samfelld. En þarfir hins almenna atvinnulífs og heimilanna er breytilegar: Þörfin er minni á nóttu en degi, minni um sumar en vetur. Þannig er hin almenna orkuþörf að meðaltali aðeins um 65% af því sem hún getur orðið að hámarki á hverju ári. Þetta hlutfall gengur undir ýmsum nöfnum, en umræddur skýrsluhöfundur notar enska heitið „load factor“ og misskilur hrapalega hvað felst í hugtakinu.

Í raforkukerfi okkar er keppt að því samstilla framboð frumorkunnar og raforkuþörfina og það á hagkvæmastan hátt. Til þess að ná sem mestri nýtni bjóða orkuverin – sem eru flest í eigu Landsvirkjunar – upp á ótryggða orku í viðbót við það sem á að vera unnt að tryggja hvað sem tautar og raular. Eins og nafnið ber með sér er ekki unnt að ábyrgjast að ótryggða orkan sé ávallt í boði. Það fer eftir vatnsbúskap og árferði. Stóriðjuverin kaupa hluta af orku sinni, minnst 10% og stundum meira, með þessum skilmálum. Sama gera fiskimjölsverksmiðjur og aðrir þeir sem geta gripið til ráðstafana – svo sem notkunar á olíu – þegar takmarka þarf afhendingu ótryggðu orkunnar.

Ótryggða orkan er stundum ranglega nefnd umframorka og það villir mönnum sýn, og hugsanlega hefur margnefndur skýrsluhöfundur fallið í þá gryfju.

Er umframorka yfirfljótandi?
Þrátt fyrir að keppt sé að fullnýtingu orkuveranna fer alltaf einhver frumorka í súginn. Þetta vita allir sem séð hafa vatn falla fram af stífluveggjum á fögrum síðsumardögum, en einmitt þá getur það gerst að orkugeymslurnar, lónin, séu orðin full um leið og sólargeislar halda áfram að bræða jöklana orkuverunum til óþurftar. Vissulega væri það ánægjulegt ef einhver kaupandi væri tiltækur sem gæti nýtt sér þennan dreitil. En hætt er við að þeim sama þætti naumt skammtað.

Spáreikningar sýna að á árabilinu 2002-2006 verður orkugeta orkuveranna svo til fullnýtt, eða að meðaltali með 97% til nær 100% nýtingu eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Hér er reiknað með stækkun álversins á Grundartanga og Vatnsfellsvirkjun og stækkaðri Nesjavallavirkjun auk núvarandi virkjana.

(Sjá töflu.)

Orkan sem af gengur er þannig bæði lítill og stopull. Tölurnar um umframorku eru ársmeðaltöl, og verður orkan líklegast aðeins tiltæk að sumarlagi. Útilokað er að byggja einhverja vetnisframleiðslu á slíkum dreggjum.

Hvernig reikna náttúruverndarsamtök orku í vetnisverin sín?
Í umræddri skýrslu segir í lauslegri þýðingu: „Álagsstuðull („load factor“) orkuvera sem framleiða rafmagn fyrir orkufrekan iðnað er u.þ.b. 90% en fyrir almennan markað er stuðullinn u.þ.b. 65%.“ Af þessum upplýsingum dregur skýrsluhöfundur þá ályktun að orkuverin hljóti að vera vannýtt: Úr því að vinnslan fyrir stóriðjuna sé með 90% álagsstuðli hljóti að vera unnt að kreista sama út úr þeim hluta vinnslunnar sem er fyrir hinn almenna markað. Munurinn á 65% og 90% hljóti að vera fundið fé. Reiknað er út að þetta svari til 1.115 GWh á ári sem er langleiðina í það sem Fljótsdalsvirkjun var ætlað að framleiða. Þetta er meginatriðið í skýrslunni og það sem fjölmiðlar hafa sérstaklega hent á lofti. Má t.d. vitna í hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 19. apríl s.l. og frétt í Morgunblaðinu 22. apríl þar sem þetta er í báðum tilvikum gert að aðalatriði málsins.

Eins og ljóst ætti að vera af framansögðu er þessi ályktun byggð á misskilningi. Álagsstuðull í orkuframleiðslu okkar segir nánast ekkert um það hvort orka sé aflögu. Þar með er ekki fótur fyrir stærstu ályktuninni í margumræddri skýrslu.

Það er heillandi framtíðarsýn að unnt verði að anna allri orkuþörf okkar með innlendum orkulindum. Hvenær það verður hagkvæmt og skynsamlegt er enn óráðið. Lítt gagnar í þeim efnum að reisa loftkastala – sem eru að auki byggðir á sandi.

Höfundur er orkumálastjóri.

Ákvæði kosningalaga um úthlutun þingsæta

Grein fengin af Mbl.is Laugardaginn 8. maí, 1999

Allt frá alþingiskosningum 1987 hafa ákveðnar reikniaðferðir gilt við útreikning þingsæta til stjórnmálaflokkanna. Höfundur þeirra er Þorkell Helgason, sem skýrir þær hér, en þær munu nú verða notaðar síðasta sinni, þar sem kjördæmaskipan hefur verið breytt.

Ákvæði kosningalaga um úthlutun þingsæta

Gidldandi lög um kosningar til Alþingis eru frá árinu 1987 og var þeim í fyrsta sinn beitt við þingkosningarnar þá um vorið. Síðan hafa þau komið við sögu í tvennum kosningum,árin 1991 og 1995. Nú verða þau notuð í fjórða og væntanlega síðasta sinn þar eð samþykkt hafa verið á Alþingi ný stjórnarskrárákvæði um þingkosningar (sem þarf að vísu að staðfesta á næsta þingi). Jafnframt hafa verið kynnt drög að nýjum kosningalögum í samræmi við stjórnarskrárbreytinguna. Greinarkorni þessu er ekki ætlað að fjalla um nýju kosningalögin heldur rifja upp helstu atriði þeirra laga sem kosið er eftir við kosningarnar nú 8. maí 1999.

Kjördæmis- og jöfnunarsæti

Þingsæti eru alls 63 og skiptast í kjördæmissæti og jöfnunarsæti. (Hvorugt þessara heita er þó notað í lagatextanum sjálfum.) Sætin skiptast í kosningunum nú á milli kjördæma og í þessa tvo flokka eins og rakið er í 1. töflu:

Aftasti dálkurinn í 1. töflu sýnir tölu kjósenda að baki hverju þingsæti í kosningunum nú. Eins og sjá má eru að meðaltali 3.199 kjósendur að baki hverjum þingmanni á landinu öllu. En á Vestfjörðum deila 1.140 kjósendur með sér þingmanni meðan 4.558 kjósendur á Reykjanesi verða að láta sér nægja einn þingmann. Vægi atkvæða er samkvæmt þessu nákvæmlega fjórfalt meira þar sem það er mest en þar sem það er minnst. Nýju kosningalögunum er ætlað að bæta úr þessu þannig að þetta misvægi verði aldrei meira en einn á móti tveimur.

Úthlutun kjördæmissæta

Kjördæmissætum er úthlutað með svonefndri reglu stærstu leifar. Hvernig það gerist verður best lýst með dæmi. Lítum á fimm- manna kjördæmi þar sem fjórir listar eru í kjöri og hljóta atkvæði sem hér segir: Fyrst skal ákvarða kjördæmistölu sem svo er nefnd í lögunum. Er hún meðaltal atkvæða að baki hverju þingsæti, þ.e.a.s. tala gildra atkvæða deilt með heildarþingsætatölu

kjördæmisins. Í dæminu nemur því kjördæmistalan 5500/5=1100 atkvæðum. Skorður eru settar við litlum listum á eftirfarandi hátt. Reiknaðir eru 2/3-hlutar af kjördæmistölu og eru það í þessu dæmi 733 atkvæði. Minnsti listinn er dæmdur úr leik ef hann er undir þessari tölu. Þetta verður Þ-listanum að falli. Þá ber að reikna kjördæmistölu að nýju að slepptum atkvæðum þessa lista. Hún verður þá 5000/5=1000. Nú á enn að reikna 2/3 og aðgæta hvort næst minnsti listinn kunni að dæmast úr leik, o.s.frv. Í dæminu gerist það ekki.

Úthlutun fer nú þannig fram að fyrst hlýtur sá listi sæti er fékk flest atkvæði, eða X-listinn. Atkvæðatala hans er síðan lækkuð sem nemur kjördæmistölunni og verða þá 1.200 atkvæði eftir. Þá á Y-listinn flest atkvæði og hlýtur því annað sætið. Að því loknu verður atkvæðaleif hans 500 atkvæði. Er þá komið að Z-listanum að hljóta þriðja sætið og á hann þá atkvæðaleif upp á 300 atkvæði. Síðasta kjördæmissætið, það fjórða, fellur aftur til X-listans út á 1.200 atkvæði og eftir verða 200 atkvæði. Þetta er dregið saman hér á eftir þar sem sýnd er atkvæðatala að lokinni hverri úthlutun og endanlegar atkvæðaleifar:

Þetta talnadæmi miðast, eins og áður segir, við fimm-manna kjördæmi, en þar eru kjördæmissætin fjögur. Úthlutun kjördæmissætanna er því hér með lokið í þessu kjördæmi, en síðan á eftir að úthluta einu jöfnunarsæti.

Kjördæmissætin eru 50 alls. Í kosningunum 1995 skiptust þau milli þingflokkanna eins og fram kemur í tölunum framan við plúsinn í 2. töflu:

Skipting jöfnunarsæta

Þegar úthlutun kjördæmissætanna er lokið eru eftir 13 þingsæti, jöfnunarsætin. Þeim er skipt á milli flokkanna þannig að samræmi verði milli heildarþingsætatölu þeirra og fylgis á öllu landinu. Hér koma þó einungis til álita þeir flokkar sem hafa þegar hlotið a.m.k. einn kjördæmiskjörinn mann. Þannig hlaut Flokkur mannsins um 1,8% atkvæða í kosningunum 1991 og hefði þannig haft atkvæðastyrk fyrir einu þingsæti en átti ekki tilkall til þess þar eð hann náði hvergi kjördæmiskjöri. Skipting jöfnunarsæta fer eftir svokallaðri d’Hondts-reglu, þeirri sömu og notuð er við úthlutun sæta í sveitarstjórnarkosningum.

Ekki er víst að jöfnunarsætin nægi til að tryggja fullan jöfnuð á milli flokkanna, þar sem flokkur gæti þegar hafa fengið fleiri kjördæmiskjörna menn en landsfylgi hans gefur tilefni til. Flokkajöfnuðurinn hefur þó náðst í tíð gildandi kosningalaga, enda var jöfnunarsætunum fjölgað í þessu skyni þegar lögin voru sett og fleiri ráðstafanir gerðar í lögunum til þess að svo mætti verða. Enda var það aðalmarkmið breytinganna sem tóku gildi 1987 að ná þessum flokkajöfnuði. Í kosningum 1995 skiptust jöfnunarsætin á milli flokkanna eins og fram kemur í neðstu línu 2. töflu, aftan við plúsinn. Þar sést að Framsóknarflokkurinn fékk ekki jöfnunarsæti, enda hafði hann þegar náð fullri tölu þingsæta sinna við kjördæmisúthlutunina.

Útdeiling jöfnunarsæta

Að lokum þarf að koma jöfnunarsætunum 13 til einstakra framboðslista. Er það ekki auðvelt verk svo öllum líki. Einfaldast mætti virðast að líta á þær atkvæðaleifar, sem nú eru eftir, og halda áfram úthlutun á grundvelli þeirra. Í ímyndaða kjördæminu, sem haft var til viðmiðunar, hefur Y-listinn stærstu atkvæðaleif. Ef það er stærsta atkvæðaleif á landinu öllu færi samkvæmt þessu fyrsta jöfnunarsætið til hans svo framarlega sem flokkur hans ætti rétt á jöfnunarsætum. Úthlutun á þessum nótum er þó ekki sanngjörn vegna mismunandi stærðar kjördæma. Öll fyrstu jöfnunarsætin gengju út í Reykjavík og á Reykjanesi og gæti þá reynst erfitt að koma síðustu jöfnunarmönnum fyrir á landsbyggðinni.

Samkvæmt kosningalögunum er því mælikvarðinn á stöðu manna ekki sjálf atkvæðaleifin heldur hlutfall hennar af kjördæmistölunni. Þannig er t.d. styrkur næsta manns á Y-listanum mældur sem 500/1000=50%. Flokksbróðir hans, sem á hærri atkvæðaleif, eða t.d. 1.000 atkvæði, í öðru kjördæmi þar sem kjördæmistala er 2.500, er þá lægra settur þar sem hlutfall hans er einungis 40%.

Að fengnum þessum mælikvarða á stöðu manna mætti ætla að nú væri unnt að ganga á röðina og úthluta eftir hlutfalli atkvæðaleifa af kjördæmistölu. Svo er þó ekki alfarið gert þar sem áfangaskiptingu í úthlutuninni er ætlað að tryggja enn frekar samræmi í úthlutun í stórum jafnt sem fámennum kjördæmum. Að auki koma ákvæði um sérstaka þröskulda. Hér er ekki tóm til að fara nánar út í þessar úthlutunarreglur enda eru þær býsna flóknar.

Aftan við plúsana í 2. töflu er sýnt hvernig jöfnunarsætin dreifðust í kosningunum 1995. Athyglisvert er að enginn listi fékk fleiri en eitt jöfnunarsæti í einu og sama kjördæminu. Þetta er þó ekki sjálfgefið. Sami listinn gæti fengið fleiri en eitt slíkt sæti í Reykjavík eða á Reykjanesi.

Hvers vegna fara mörg þingsæti á flakk eftir hverjar nýjar tölur?

Eins og allir vita sem fylgst hafa með talningu í liðnum kosningum valda nýjar tölur í einu kjördæmi því einatt að fjöldi þingsæta færist til. Og þessi tilfærsla getur allt eins teygt sig til annarra kjördæma en þess sem tölurnar eru frá. Þetta er haft til marks um það hvað kosningalögin séu flókin. Því er ekki úr vegi að huga að því að lokum hvernig þetta getur gerst.

Segjum að nýjar tölur í kjördæmi A hafi leitt til þess að X-listinn hafi misst mann til Y-listans í sama kjördæmi. Ekki er þó víst að heildarskipting þingsætanna á landinu öllu breytist við þessar nýju tölur. Gerist það ekki er það ljóst að X- listinn þarf að fá manninn bættan í öðru kjördæmi og Y-listinn jafnframt að skila manni annars staðar. Gerist þetta tvennt í sama kjördæminu er málið leyst. En sjaldnast stendur þannig á að víxlunin gangi svo einfaldlega upp. Því getur X-listinn náð til sín sæti á kjördæmi B frá þriðja listanum, Z-lista, en Y-listinn skilað manni í enn öðru kjördæmi C til fjórða flokksins, Þ-lista, o.s.frv. Og þar með lengist í að endar nái saman á ný. Það gefur því augaleið að það getur hæglega gerst að breyting í einu kjördæmi dragi slíka dilka á eftir sér í öllum kjördæmunum átta.

Þetta er því miður óhjákvæmilegt og ræðst af því að tala jöfnunarsæta hvers kjördæmis er fastákveðin. Þannig verður sama upp á teningnum í nýju kosningalögunum, enda þótt tilfæringarnar verði þar væntanlega heldur minni en í gildandi lögum. En í meginatriðum mun þetta þingmannaflakk, sem mörgum þykir eitt helsta skemmtiatriðið á kosninganótt, þó halda áfram!

Höfundur er stærðfræðingur og var reikniráðgjafi við undirbúning gildandi kosningalaga.

Þorkell Helgason