Ný stjórnarskrá: Forsetinn um forsetann

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 7. október 2011]

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá að umræðuefni í þingsetningarræðu sinni. Það er vel og fengur að því að forseti lýðveldisins vekji þjóð og þing til umhugsunar um þetta stórmál, nýja stjórnarskrá handa landi og lýð. Ólafur Ragnar gerði einkum embætti forseta Íslands að umræðuefni. Um það fjallar þessi pistill.

Þrískipting valdins

Allt frá dögum Montesquieus hefur það verið leiðarljós við mótun allrar lýðræðisstjórnskipunar að ríkisvaldið skuli skiptast í þrjá aðgreinda þætti: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Mörgum hefur þótt sem hjá okkur væri þessi aðskilnaður ekki skýr, að ríkisstjórnin væri að jafnaði með þingið í vasanum og jafnvel dómarana líka þar sem þeir voru til skamms tíma skipaðir af dómsmálaráðherra að eigin hentisemi. Síðast en ekki síst hefur hlutverk og staða forsetans sem einhvers konar tengill löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verið óskýr. Hefðum samkvæmt hefur þó forsetinn haldið sig til hlés, þótt núverandi forseti hafi haft sig meira í frammi en fyrirrennarar hans og beinlínis gripið í taumana.

Að margra mati er ekki nóg að þrískipta valdinu heldur þurfi eftirlitsvald að auki. Þar getur forsetinn haft hlutverki að gegna og endurspeglast það að nokkru í tillögum stjórnlagaráðs, þeim sem urðu Ólafi Ragnari umræðuefni.

Hvert yrði vald forsetans?

Meginatriðin í tillögum stjórnlagaráðs um hlutverk forseta eru fjögur:

  • Tillaga um forsætisráðherra: Í upphafi ráðgerðrar stjórnarskrárgreinar um stjórnarmyndun segir að „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Með þessu er tekinn af vafi um þingræðið, það að ríkisstjórn verður á hverjum tíma að hafa stuðning Alþingis. Forseti Íslands er falið að gera tillögu um forsætisráðherraefni. Honum ber fyrst að ráðfæra sig við þingheim enda verður hinn tilnefndi að njóta stuðnings þingsins. Forseti getur ekki skipað utanþingsstjórn að eigin frumkvæði eins og nú. Forsetinn fær tvívegis tækifæri til að leggja tillögu um forsætisráðherraefni fyrir þingið. Vilji þingið hvorugan þeirra sem hann tilnefnir er það í höndum þingsins að velja.
  • Málskotsréttur: Forsetinn getur, allt eins og nú, skotið nýsamþykktum lögum frá Alþingi til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. En þjóðin fær líka beina leið til þess sama eins og rakið hefur verið í tveimur síðustu pistlum. Málskotsréttur forseta er því einungis hugsaður sem neyðarhemill, enda verður forseti að rökstyðja ákvörðun sína og getur hann þá vart vísað til vilja þjóðarinnar. Hún tjáir þann vilja sjálf. Slíkur öryggisventill þjóðhöfðingja tíðkast víða og er hugsaður til að stöðva gerræði meirihluta þings.
  • Aðild að skipun dómara og ríkissaksóknara: Hver og hvernig á að skipa dómara er vandaverk. Nýlega hafa verið samþykkt lög sem bæta fyrirkomulagið mjög. Stjórnlagaráð leggur til að andi þeirra laga verði festur í stjórnarskrá en hnykkt á. Lykilatriði er að hæfni og málefnaleg sjónarmið verða að ráða við skipun í öll embætti. Í samræmi við gæsluhlutverk forsetans fær hann heimild til að skjóta vali ráðherra á dómaraefni til Alþingis, þar sem þriðjungur atkvæða nægir til að hafna dómaraefni ráðherra. Fari svo þarf ráðherra að koma með nýja tillögu.
  • Aðild að skipun æðstu embætta: Forseti kemur við sögu um skipan þeirra æðstu embættismanna sem Alþingi kann að kveða á um. Hér er hlutverk forseta minna. Honum er einugis ætlað að skipa formann hæfnisnefndar, en að öðru leyti hefur hann ekki aðkomu að málinu. Hann væri t.d. að fara út fyrir valdsvið sitt ef hann segði nefndarformanninum fyrir verkum.

Aukin völd?

Ólafur Ragnar telur að með tillögum stjórnlagaráðs séu umsvif forsetembættisins efld og ábyrgð aukin. Um það má deila en skiptir þó ekki höfuðmáli. Að mínu mati fær forsetinn skýrara og markvissara hlutverk en nú. Í þremur síðustu liðunum fær hann vel skilgreind verkefni sem öll lúta að öryggiseftirliti. Í fyrsta liðnum heldur hann því óljósa hlutverki sem hann hefur haft við stjórnarmyndun, en settar eru reglur um hvernig hann skuli bera sig að. Kjarni málsins er þó sá að það er að lokum Alþingis að kjósa forsætisráðherra. Það er ein veigamesta nýmælið í tillögum ráðsins.

Vissulega er forsetaembættið mikilvægt, bæði nú og framvegis, verði tillögur ráðsins að stjórnarskrá. Því skiptir höfuðmáli hver á embættinu heldur. Þjóðin verður að vanda val sitt. Í því skyni er í svo um kjör forseta búið að tryggt sé að hann njóti stuðnings meirihluta kjósenda, en svo hefur ekki verið við fyrsta kjör forseta ef undan er skilin kosning Kristjáns Eldjárns. Mistakist þjóðinni valið situr hún þó ekki uppi með forseta lengur en í þrjú kjörtímabil samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Þetta ákvæði var ekki rakið í samantekt forsetans.

 

Ný stjórnarskrá: Lög að frumkvæði almennings

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. september 2011]

Áfram verður haldið að lýsa tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði; um það hvernig flétta megi það saman við fulltrúalýðræðið. Nú verður fjallað um frumkvæðisrétt þjóðarinnar, hvernig hún getur samið og fengið sett lög.

Lög frá grasrótinni

Djarfasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði felst í ákvæðum um frumkvæði kjósenda. Þar er tvennt lagt til. Annars vegar að 2% kjósenda geti lagt hvað eina mál fyrir Alþingi. Það kemst þá á dagskrá þingsins, en engin fyrirmæli eru um afdrif málsins. Hin frumkvæðisleiðin er formlegri. Samkvæmt henni getur tíundi hluti kjósenda lagt fram fullbúið frumvarp til laga fyrir Alþingi. Svo er um hnútana búið að þingið getur leitað til talsmanna kjósendahópsins um málmiðlun vilji það ekki fallast á frumvarpið óbreytt. Ef ekki nær saman fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, og einnig gagntillaga sem þingið kann að leggja fram. Alþingi getur falið þjóðinni að taka af skarið með því að gera atkvæðagreiðsluna bindandi, ella er hún þinginu til ráðgjafar um lyktir málsins. Markmiðið er ekki í sjálfu sér að haldin sé þjóðaratkvæðagreiðsla heldur er keppikeflið að sem breiðust samstaða náist um mál sem liggur þjóðinni á hjarta. Nánari fyrirmæli eru um alla þessa málsmeðferð í tillögum stjórnlagaráðs. Fyrirmynd er einkum sótt til Sviss, en þar er reynslan sú að fæst slíkra mála enda í þjóðaratkvæði; að jafnaði finnst lausn sem sættir nást um.

Lýðræðisblanda

Umræða er víða um heim um þróun lýðræðisins. Athyglisverð er t.d. hugmynd um það sem kallað er á útlensku „fljótandi lýðræði“, en „flæðiræði“ væri styttra. Með því er t.d. átt við að hver einstakur kjósandi geti gripið fram fyrir hendurnar á þingmönnum og greitt (rafrænt) atkvæði um þingmál þegar honum býður svo við að horfa. Þar með dregur hann til baka það atkvæðisbrot sem hann hafði framselt fulltrúunum. Þeir kjósendur sem ekki beita þessum rétti fela þinginu að fara áfram með umboð sitt. Þetta fyrirkomulag hefur þann kost umfram almenna þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir sem ekki taka afstöðu eru samt ekki hafðir útundan. Þingmenn fara áfram með umboð þeirra. Þar með er byggt fyrir hugsanlegt gerræði þeirra sem afstöðu taka, þótt útfærslan megi heldur ekki verða slík að hinir virku séu gerðir máttvana. Ekki er vitað til þess að slík lýðræðisblanda hafi nokkurs staðar verið innleidd, en umræðuna má rekja á veraldarvefnum undir ensku leitarorðunum „liquid democracy“ eða ámóta á öðrum málum.

Er beint lýðræði hættulegt?

Sagt er að þjóð geti verið tækifærissinnaðri en fulltrúar hennar, t.d. að þjóðin veigri sér við að taka óþægilegar en þó brýnar ákvarðanir. Varnagli er sleginn í tillögum stjórnlagaráðs varðandi þetta þar sem vissir málaflokkar eru undanskyldir í hinu beina lýðræði, svo sem skattamál. Þá er mikilvægt að Alþingi er falið að setja lög um framkvæmdina, m.a. um að vandað sé til undirskriftasöfnunar en ekki unnt að riðjast fram með vafasamri netsöfnun.

Heimspekingurinn Karl Jaspers segir í einu rita sinna að áhætta sé tekin með lýðræðinu, allt eins og með allri tilvist mannsins. Meirihlutinn, hvort sem er fulltrúa eða kjósenda, geti hæglega tekið óheillavænlegar ákvarðanir. Engin trygging sé til, en valddreifing sé helsti varnaglinn. Hæfileg blanda af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins sé þáttur í slíkri valddreifingu en umfram allt verði að styrkja og síðan treysta á skynsemi fólks og ráðamanna, segir heimspekingurinn. Við getum ekki annað en treyst því að skynsemin blundi í öllum og lýðræðið sé leiðin til að virkja skynsemina til farsællar stjórnar á þjóðfélaginu, svo að lagt sé út af hugsun Karls Jaspers.

Með tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði er stigið skref, en ekki bundinn endahnútur. Tillögur ráðsins um starf stjórnmálaflokka, svo og um aðferð við val á þingmönnum, eru líka þáttur í eflingu lýðræðisins. Lýðræðið er og verður í þróun.

 

Ný stjórnarskrá: Hvernig getur þjóðin gripið inn í störf Alþingis og ógilt lög?

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 23. september 2011]

Á Íslandi, svo og almennt í grannlöndum okkar, felur fólkið vald sitt í hendur kjörinna fulltrúa hvort sem þeir sitja á forsetastóli, á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Almenn samstaða er um kosti þessa fyrirkomulags. Á hinn bóginn er vilji til þess, bæði hér og víða erlendis, að flétta fulltrúalýðræðið saman við beint lýðræði þannig að þjóðin sjálf geti gripið inn í störf hinna kjörnu fulltrúa með neitunarvaldi en líka með frumkvæði að lagasetningu.

Við Íslendingar höfum verið aftarlega á merinni í þessari þróun, líklega einna íhaldssamastir í okkar heimshluta. Í stjórnarskrá okkar er einungis kveðið á um inngrip þjóðarinnar í löggjafarstarf með þeim hætti að forseti lýðveldisins geti falið þjóðinni að taka við staðfestingarvaldi sínu, það er að segja falið henni að veita lögum frá Alþingi endanlegt gildi eða hafna þeim ella. (Að auki er ákvæði um að hafa skuli þjóðaratkvæðagreiðslu sé kirkjuskipaninni breytt.) Sumir lögspekingar töldu ákvæðið um málskot forseta dautt. Undir þá speki verður ekki tekið, en slíkt óvirkt ákvæði væri þó í takt við margt annað sem er marklaust í stjórnarskránni. Málskot forseta er aftur á móti sprelllifandi fyrirbæri þessi misserin.

Alþingi fól stjórnlagaráði að fjalla sérstaklega um framkvæmd beins lýðræðis og endurspeglast það í frumvarpi ráðsins til nýrrar stjórnarskrár. Fjallað verður um tillögur ráðsins þar að lútandi í þessum og næsta pistli.

Hverjir eiga að kalla þjóðina til ráða?

Spurningin er hvenær og með hvaða hætti kjósendur skuli fá vald til að úrskurða um frambúðargildi laga frá Alþingi. Í stjórnlagaráði var rætt um þrjár leiðir í þessu skyni: Að hluti kjósenda sjálfra geti kallað eftir þjóðaratkvæði um staðfestingu á lögum, að minnihluti þings fái svipaðan rétt, og að lokum að forseti lýðveldisins geti vísað samþykktu lagafrumvarpi til þjóðarinnar eins og verið hefur.

Stjórnlagaráðsmönnum þótti of mikið í lagt að nýta allar þrjár leiðirnar. Nær allir ráðsmenn vildu taka upp fyrstu leiðina; að þjóðin sjálf geti tekið sér það vald að synja lögum staðfestingar. Deilt var um hve marga þyrfti til að hefja slíkt mál. Gild rök voru færð fyrir ýmsum tölum á bilinu 5% til 25% kjósenda. Niðurstaðan varð 10%, það er að segja að tíund kjósenda geti með undirskriftasöfnun krafist þjóðaratkvæðis.

Meirihluta ráðsmanna þótti rétt að halda í síðustu leiðina, málskotsrétt forseta. Sá réttur hefði haslað sér völl og bersýnilega væri það vilji þjóðarinnar að viðhalda honum. Á hinn bóginn ætti að kveða á um vissa formfestu við beitingu ákvæðisins til að girða fyrir tækifærismennsku. Í mörgum lýðveldisríkjum hefur forseti vald til að vefengja lög frá þjóðþinginu. Nefna má Finnland, Írland og Þýskaland sem nærtæk dæmi. Réttinum hefur verið beitt í þessum löndum en þó sem varnagla, einkum ef þjóðhöfðinginn telur lagafrumvarp stangast á við stjórnarskrá.

Þriðja leiðin, sú að minni hluti þings gæti vísað máli til þjóðarinnar, varð útundan sakir þess að talin var hætta á að þingið gæti orðið óstarfhæft vegna misnotkunar slíks málskotsákvæðis.

Liggur allt undir?

Mikilvægt er að stjórnlagaráð hefur vissa fyrirvara á um neitunarvald kjósenda. Þannig verður mál sem kjósendur vilja fá lagt undir þjóðina að varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, skattamálefni né heldur um samninga við erlend ríki, svo helstu dæmin séu tekin. (Þetta breytir því ekki að annars staðar í tillögum stjórnlagaráðs er krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samninga eins og hugsanlega Evrópusambandsaðild.) Lög sem Alþingi hefur samþykkt taka strax gildi og halda því svo lengi sem þjóðin hefur ekki hafnað þeim. Jafnframt er mikilvægt að Alþingi skal setja lög um alla framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um hvernig staðið skuli að undirskriftasöfnun, hverju megi til kosta o.s.frv.

Í næsta pistli verður fjallað um frumkvæðisrétt þjóðarinnar, hvernig hún getur samið og fengið sett lög.

 

Ný stjórnarskrá: Valdið er fólksins

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 16. september 2011]

„Brennt barn forðast eldinn.“ Það gera Þjóðverjar – af alræmdu tilefni. Því settu þeir eftir stríð á laggirnar stjórnlagadómstóla sem eiga að vaka yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Slíkir dómstólar eru í hverju „landi“ (fylki) Þýskalands, en sambandsdómstóll dæmir um mál sem snerta allt sambandsríkið og þó einkum um grundvallarréttindi almennings. Í síðustu viku felldi þessi alríkisdómstóll einn af sínum merkustu úrskurðum. Tilefnið var umkvörtun nokkurra borgara þess efnis að ríkisstjórnin í Berlín hefði farið út fyrir valdmörk sín þegar hún hafi gengist í ábyrgðir vegna aðstoðar við Grikkland, án þess að hafa haft nægilegt samráð við sambandsþingið. Niðurstaðan var hálfgerður Salómonsdómur: „Látum gott heita en gerið þetta aldrei aftur án góðs samráðs við þingið.“

Hér verður sjálf niðurstaðan ekki krufin heldur farið yfir rökin fyrir því að kvörtunin var metin dómtæk. Kjarni þeirra raka er sá að allt vald komi frá fólkinu sem kjósi sér sambandsþing. Færist vald frá þinginu meir en góðu hófi gegnir og þingið sniðgengið sé verið að rýra vald hins upphaflega valdhafa, þjóðarinnar. Sérhver borgari hafi því heimild til þess að vera á varðbergi og kvarta til Stjórnlagadómstólsins ef hann telur vald sinna kjörnu fulltrúa vera skert, því að þannig sé kosningarétturinn vanvirtur.

Lærdómsríkir lagakrókar

Þjóðverjar eru lagaflækjumenn. Því er kjarni málsins sá hvaða ákvæðis stjórnarskrárinnar dómstólinn vísar til máli sínu til stuðnings og er þess virði að um það sé farið nokkrum orðum. Dómurinn byggir úrskurð sinn á tilvísun í það grundvallarákvæði að þingmenn „eru kosnir í almennum, beinum, frjálsum og leynilegum kosningum þar sem allir eru jafnir“, í ákvæðið um að „allt ríkisvald komi frá þjóðinni“ og að lokum í það ákvæði að þeim grundgildum sem felast í hinum greinunum tveimur megi ekki raska, ekki einu sinni með stjórnarskrárbreytingu.

Sem sagt: Vald fólksins er friðhelgt, þess vegna verður jafnframt að tryggja vald fulltrúa þess, þingsins.

Hvað kemur þetta okkur við?

Þetta snertir vissulega umræðuefni þessara pistla, en þeir fjalla um þá nýju stjórnarskrá sem stjórnlagaráð leggur til. Í fyrsta lagi er það til eftirbreytni að Þjóðverjar hafa sérstaka dómstóla til að verja stjórnarskrá sína. Við í stjórnlagaráði fjölluðum gaumgæfilega um slíkt fyrirkomulag, en fórum einfaldari leið sem lýst verður síðar.

Að öðru leyti áréttar hinn þýski úrskurður að allt vald komi frá fólkinu sjálfu. Það var líka skoðun okkar í stjórnlagaráði. Þegar í 2. grein frumvarps stjórnlagaráðs birtist það nýmæli að „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar“, en ámóta ákvæði er ekki í gildandi stjórnarskrá. Í framhaldinu er kveðið á um hina tvo valdþættina: „Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið. Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.“

Hér er það njörvað niður að þjóðin sjálf er uppspretta alls ríkisvalds, að allir aðrir valdhafar starfa í hennar umboði, beint eða óbeint. Við í stjórnlagaráði, ræddum hvort þetta ætti að vera enn skýrara og hafa svipaðan aðdraganda og hjá hinum þýsku, segja beinlínis að„allt ríkisvald komi frá þjóðinni“. Það varð ekki ofaná enda vorum við sparsöm á allt sem kalla mætti „fagurgala“; vildum hafa orðalagið skýrt og sem minnst af óþörfum endurtekningum. Ef til vill hefði þetta þó átt að vera að hætti Þjóðverja. Við erum að vísu ekki jafnbrennd og þeir, en pólitískir eldar geta blossað upp hvar sem er. Allur er varinn góður.

 

Ný stjórnarskrá: Kvótinn og kommúnistaávarpið

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum  9. september 2011]

Fram er haldið frásögn af tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Nú verða auðlindamálin tekin stuttlega til umfjöllunar, með nokkuð frjálslegum hætti.

Nýting takmarkaðra gæða

Í 33. grein í tillögum stjórnlagaráðs er fjallað um vernd á náttúru landsins, fögrum orðum eins og vera ber. Helsta nýmælið í þeim málaflokki er þó að finna í næstu grein, þeirri 34. Þar segir m.a.: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“ Síðan er tilgreint að „stjórnvöld get[i] á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Hér er brotið blað í sögu þjóðarinnar. Kjarni ákvæðanna er þessi:

  • Auðlindir, sem ekki eru þegar í einkaeigu, eru ævarandi þjóðareign sem ekki má ráðstafa varanlega. Hér er áréttað það sem þegar stendur að nokkru í lögum eða almennt samkomulag virðist um.
  • Einkaaðilar eiga aftur á móti að nýta auðlindirnar en greiða fyrir það fullt gjald. Með því er e.k. markaðsverð haft í huga, en ekki pólitískt ákvarðað gjald. Á þessu tvennu er reginmunur, ekki endilega að því er varðar fjárhæð gjaldsins, heldur því hvernig verðið er ákvarðað.
  • Allir eiga að hafa jafnan rétt til nýtingarinnar. Vitaskuld ber um leið að taka tillit til þess sem á undan er gengið og eðlilegt að þeir sem haft hafa nýtingarleyfi fái aðlögun að breyttu fyrirkomulagi.
  • Sama fyrirkomulag skal gilda um önnur takmörkuð almannagæði, svo sem fjarskiptarásir eða heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum, svo dæmi séu tekin.

Útfærslan á 2. og 3. atriðinu skiptir sköpum. Að mati undirritaðs verður þetta vart gert nema með uppboðum á tímabundnum nýtingarrétti á hinum takmörkuðu gæðum um leið og veitt er eðlileg aðlögun í formi fyrningartíma á fyrri réttindum. Fyrir rúmu ári fól svokölluð sáttanefnd um fiskveiðistjórnun okkur Jóni Steinsyni hagfræðingi að útfæra tilboðs- og fyrningarkerfi á veiðikvótum í þessa veru; sjá http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/Fylgiskjal8_Tilbodsleid.pdf. Við vorum ekki að finna upp hjólið. Ámóta hugmyndir, innlendar sem erlendar, hafa legið fyrir áratugum saman. Hugmyndin fékk litla umfjöllun en henni var samt harðlega andmælt af talsmönnum útgerðar og stungið undir stól af stjórnvöldum. Í staðinn sitja menn nú uppi með moðsuðulausn, ef lausn skyldi kalla, sem gengur undir nafninu pottaleið.

Skrítin tík, pólitík

Erlendur sendimaður sem bjó áratugum saman á Íslandi skrifaði bók um reynslu sína af landanum. Hann sagði hugtökin vinstri og hægri ónothæf um íslensk stjórnmál, nær væri að nota mælikvarðann aftur og fram. Kvótaumræðan á Íslandi verður aðeins heimfærð á þennan seinni skala. Ætla mætti að hugmynd um markaðslausn á útdeilingarvanda takmarkaðra gæða, eins og sú sem við Jón lögðum til, ætti talsmenn meðal flokka sem kenna sig við markaðsbúskap og um leið meðal talsmanna atvinnurekenda. Svo er þó ekki. Þegar markaðslausn okkar Jóns var kynnt sjávarútvegsnefndinni fyrrnefndu spurði forkólfur útgerðarmanna í fundarlok hví við hefðum ekki bara komið með kommúnistaávarpið og lagt það á borðið! Skyldi Karl Marx hafa hrokkið í kút í gröf sinni í Lundúnum?

Auðlindir til lands og sjávar á að nýta á vistvænan hátt. Um leið verður að gæta réttlætis, m.a. þess að þjóðin njóti eðlilegs arðs af eignum sínum. Jafnframt fái framsækið einkaframtak notið sín. Stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs leggja grundvöll að þessu, en það þarf vilja skynsamra manna til að útfæra hugmyndirnar, manna sem snúa fram en ekki aftur á þjóðarskútunni.

Hvað næst?

Í næsta pistli verður snúið aftur að lýðræðismálunum og þá fjallað um þátttöku almennings í ákvarðanatöku á þann hátt sem stjórnlagaráð leggur til.