Til hvers er forsetinn?

[Birt í Fréttatímanum 25. febrúar 2011]

Eftir þriðju synjun forseta Íslands á staðfestingu á lögum frá Alþingi er tilvist og hlutverk embættisins í brennidepli. Stjórnarskráin frá 1944 er ótraust heimild um verksvið forseta í ljósi þeirrar túlkunar sem núverandi forseti hefur haft á hlutverki sínu. Það er reyndar engin furða þar sem orðanna hljóðan í stjórnarskránni segir eitt en svokallaðir lögspekingar annað. Þótt stjórnarskránni væri ekki breytt að öðru leyti en því að gera ákvæðin um forsetann skiljanleg venjulegu fólki væri það mikilsverð betrumbót. Eftir að núverandi forseti hefur varpað mörgum af hefðunum um embættið fyrir róða þarf þó að fjalla um hlutverk og vald forsetans frá grunni.

Hættulegt forsetaræði
Fyrsta spurningin er hvort við viljum áfram þingræði, þ.e. að framkvæmdarvaldið sitji í skjóli Alþingis. Sömuleiðis hvort löggjafarvaldið eigi næsta óskorað að vera hjá Alþingi. Þetta eru spurningar um það hvort við viljum í meginatriðum búa við fulltrúalýðræði, að við kjósum okkur fulltrúa, þingmenn, til að fara með öll meginmál okkar. Ég hef á öðrum vettvangi svarað þessum spurningum játandi. Ég tel forsetaræði í hvaða mynd sem er í senn óhentugt og hættulegt smáþjóð.

Hví segi ég óhentugt? Ef við tækjum upp forsetaræði, þ.e. fullan aðskilnað þings og framkvæmdarvalds, væri það að óbreyttu ójafn leikur. Þjóðkjörinn forseti eða forsætisráðherra hefði allt stjórnarráðið undir sér og væri því með ótvírætt forskot á þingið um þekkingu og sérfræðingalið. Þingið myndi skjótt bregðast við. Hugboð mitt er að Alþingi kæmi sér upp umtalsverðu sérfræðingaliði til að eiga í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Grófir reikningar benda til 2-3 milljarða kr. kostnaðarauka á ári. Höfum við efni á því?

En hví er það hættulegt? Þjóðkjörinn æðsti maður framkvæmdarvaldsins gæti orðið mjög valdamikill. Allt vald spillir. Höfum við ekki séð dæmi um það? Það yrði þá að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að enginn gæti verið í slíkri aðstöðu nema mjög takmarkaðan tíma. Hitt er ekki síður alvarlegt að þing og stjórn gætu eldað grátt silfur saman þannig að erfitt yrði að leiða brýn mál til lykta. Við höfum fundið smjörþefinn af slíkum deilum. Þetta er ekki það sem okkur fýsir einmitt um þessar mundir.

Eigum við þá að láta forsetaembættið veg allrar veraldar? Munum ætíð að við búum í kotríki. Við verðum ávallt að gæta hagsýni og hafa okkar fyrirkomulag einfaldara en grannríkjanna. Vera má að við þurfum forseta sem sameiningartákn – en þá verður að fara varlega með embættið.

Umboðsmaður fólksins
Ef við viljum halda forsetaembættinu ætti að finna því raunhæf verkefni svo sem til styrktar nauðsynlegu aðhaldi að stjórnvöldum og Alþingi. Er ekki málskotsréttur forsetans, 26. gr. stjórnarskrárinnar, einmitt dæmi um slíkt aðhaldsvald? Jú, en eins og mál hafa nú þróast er bersýnilegt að þar skortir allar leikreglur. Þing og þjóð mega ekki vera í fullkominni óvissu um afdrif stórra mála þar til véfréttin á Bessastöðum hefur talað. Ég er fylgjandi því að forsetinn hafi neyðarhemil, svo sem til að stöðva framgang laga sem kunna að brjóta í bága við stjórnarskrá. Ferlið verður þó að vera gegnsætt, til dæmis þannig að forsetinn afli sér fyrst umsagnar Hæstaréttar sem væri þá í hlutverki stjórnlagadómstóls.

Á ólgutímum er kallað á aukið eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Nú eru allmörg embætti og stofnanir sem hafa það hlutverk að veita slíkt aðhald og gefa viðvaranir af ýmsum toga. Hvernig væri að setja ramma utan um þetta aðhalds-, úrskurðar- og eftirlitsvald og tryggja enn betur að það sé hlutlaust og standi utan við hið þrískipta ríkisvald? Að úr þessu verði eins konar umboðsmaður fólksins? Forseti lýðveldisins gæti verið yfirboðari þessa aðhaldsvalds í þeim skilningi að hann skipi yfirmenn þessa óháða valds. Forsetinn er þjóðkjörinn og hefði því gott umboð til slíkrar forystu.

Stjórnlagaþingið, þegar því tekst að hefja störf, hefur verk að vinna, ekki síst það að koma með úrbætur á stöðu og hlutverki forsetans. Það kann að reynast brýnt að koma slíkum umbótum á áður en forseti verður kosinn á næsta ári.

Lærdómur af örlögum stjórnlagaþingskosningar

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 18. febrúar 2011]

Meginlærdómurinn er sá að enn á ný sjáum við hvað við erum fá og smá. Sumir segja að við bætum fámennið upp með sérstökum dugnaði og gáfum auk þessa íslenska séreinkennis að láta hlutina „reddast“. Þetta er 2007-hugsun, svo notað sé nútímamál. Það má ekki vera okkar haldreipi lengur að treysta á að hlutirnir bjargist einhvern veginn. Við verðum að vera raunsæ, taka tillit til smæðarinnar, leita einfaldra lausna og róa óhikað á erlend mið eftir fyrirmyndum, svo að fá hollráð séu nefnd. Umfram allt verðum við að nýta vel það takmarkaða mannvit sem við höfum úr að moða.

Hvað hefur þetta með kosningu til stjórnlagaþings að gera? Jú, við reistum okkur ef til vill hurðarás um öxl. Eftir rúmlega árs málþóf ákvað Alþingi skyndilega á miðju síðastliðnu sumri að efna til kosningar til stjórnlagaþings aðeins nokkrum mánuðum síðar, sem endaði með því að Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda. Ég er ósáttur við margt í úrskurði Hæstaréttar og hef í fyrri greinum mínum bent á rökleysur, en um leið á það hvernig rétturinn hefði getað farið meðalhófsleið jafnframt því sem hann hefði vísað veginn til umbóta í framkvæmd kosninga. Engu að síður verður að sætta sig við ákvörðun Hæstaréttar og láta hana verða okkur tilefni til að haga framkvæmd kosninga í senn með vönduðum en líka sem einföldustum hætti. Því miður veitir úrskurður Hæstaréttar fáa vegvísa þar sem rétturinn rökstyður ákvörðun sína lítt og frávísun endurupptökubeiðnarinnar á engan hátt.

Almennar kosningar, einkum um einstök málefni, verða efalaust tíðari hér eftir en hingað til. Krafan um virkt lýðræði kallar á það. Nú eru í gildi ein fimm lög um slíkar kosningar, hver með sínum hætti. Þetta er of flókið fyrir okkar kotríki. Sameina ætti þessa lagabálka í einn þar sem kveðið væri á um öll sameiginleg framkvæmdaratriði. Þá verður ekki það klúður að vísað sé þvers og kruss milli laga með tilheyrandi mistökum og mistúlkunum, eins og reyndi á fyrir Hæstarétti. Þessi almennu lög verða að vera nútímaleg með það að markmiði að gera kosningar ódýrar í framkvæmd um leið og lýðræðið er í heiðri haft og kosningaleyndar gætt sem frekast er kostur. Það er ótækt að framkvæmd kosninga skuli kosta 200-300 milljónir króna. Við hljótum t.d. að geta sætt okkur við einföld kjörklefaskilrúm eða plastkjörkassa eins og aðrar lýðræðisþjóðir, ef það sparar fé. Stóri sparnaðurinn er hins vegar fólginn í einfaldaðri og samræmdri yfirstjórn en ekki síst í rafrænum aðferðum. Vitaskuld á kjörskrá að vera rafræn þannig að kjósa megi á hvaða kjörstað sem er. Taka þarf af skarið með heimild til rafænnar úrvinnslu kjörseðla og stefna að beinum rafrænum kosningum.

Við verðum að tryggja framkvæmd lýðræðisins á þann hátt sem hentar smáþjóð. Hér er verk að vinna.

Gullið tækifæri Hæstaréttar til Salómonsdóms

[Birt í Fréttatímanum 11. febrúar 2011.]

Fyrir viku velti ég vöngum hér í blaðinu [Fréttatímanum] yfir þeirri ákvörðun Hæstaréttar að úrskurða kosningu til stjórnlagaþings ógilda. Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar: Umræður hafa verið um skarpa greiningu Reynis Axelssonar á ákvörðun réttarins, skipuð hefur verið þingmannanefnd um viðbrögð við ákvörðuninni og nú síðast lögð fram beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku málsins. Í beiðninni er farið fram á að ógildingin verði dregin til baka í ljósi nýrra upplýsinga. Í varakröfu er mælst til þess að rétturinn krefjist endurtalningar kjörseðla eftir að öll auðkenni á þeim hafi dyggilega verið fjarlægð, að talningin verði opin og skipaðir verði eftirlitsmenn til að gæta hagsmuna frambjóðenda. Nýr úrskurður í þessa veru er sá Salómonsdómur sem ég auglýsti eftir í grein minni fyrir viku.

Með endurtalningu af þessum toga væri þeim tveimur annmörkum á kosningunni rutt úr vegi sem Hæstiréttur taldi „verulega“. Hæstiréttur telur annars vegar að auðkenni á seðlunum hafi boðið hættunni heim en tekur sjálfur fram að það byggist á því að talningin hefði átt að fara fram fyrir opnum tjöldum. Hins vegar telur rétturinn einmitt það vera verulegan annmarka að talningin fór ekki fram með þeim hætti. Þar með er Hæstiréttur að segja að „glæpurinn“ hafi ekki enn verið drýgður, að kosningaleyndin, sem vitaskuld er öllum verðmæt, sé enn ekki rofin. Ábendingin sem fram kemur í endurupptökubeiðninni er um það hvernig slá megi tvær flugur í einu höggi, tryggja leyndina en telja samt fyrir opnum tjöldum. Þessi hugmynd hafði ekki komið upp í meðförum málsins, né heldur á opinberum vettvangi eftir því sem best er vitað. Hæstiréttur er því engan veginn að draga úr vörn sinni fyrir leynilegum kosningum og opinni talningu, leysi hann úr þessum tveimur verulegu annmörkum með þessum nýja hætti.

Væri þá öllum áhyggjum Hæstaréttar af annmörkum á kosningunni rutt úr vegi? Nei. Eftir sitja þeir þrír annmarkar sem hann taldi ekki til hinna verulegu, þ.e. um gerð kjörklefa, um ósamanbrotna seðla og um gerð kjörkassa. Hér eru vissulega álitamál. Rétturinn virðist, a.m.k. í tveimur fyrri atriðunum, taka stíft mið af orðanna hljóðan í lögum um kosningar til Alþingis enda þótt lög um stjórnlagaþing segi aðeins að miða skuli við þau „eftir því sem við á“. Um kassana hefur rétturinn þó þær eðlilegu áhyggjur að þeir hafi ekki verið nógu traustir. Rétturinn gæti gengið úr skugga um þetta atriði, m.a. fengið á hreint hversu vel kassarnir voru vaktaðir. Sagt er að þeir hafi aldrei vikið úr augsýn eftirlitsmanna milli þess sem þeir voru rammlæstir inni. Þessi atriði verður Hæstiréttur vitaskuld að meta á ný að lokinni rannsókn sinni en þá með það í huga að fyrirkomulag eins og hér var viðhaft tíðkast úti um allan heim.

Í frægum dómi Hæstaréttar um eignarrétt á Landmannaafrétti frá árinu 1981 kallaði dómurinn eftir lagasetningu, eftir því sem síðar varð að þjóðlendulögum. Hæstiréttur gæti farið eins að nú enda þótt hann komi nú fram sem stjórnvald. Hann gæti átalið það sem dómurunum þykir á bjáta í framkvæmd kosninga og bent á óljós og sundurlaus lagákvæði. Hann gæti kallað eftir því sem brýn nauðsyn er á, sem er almenn og heilsteypt löggjöf um framkvæmd allra kosninga. Þetta er ekki síst nauðsynlegt í ljósi þess að kosningum af ýmsum toga hefur og mun fara fjölgandi með aukinni lýðræðiskröfu.

Það er aftur á móti dýru verði keypt að ógilda heila þjóðarkosningu til að koma þessum réttmætu skilaboðum á framfæri.

Enginn Salómonsdómur

Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings vekur blendnar tilfinningar. Þeim mun betur sem ég fer yfir ákvörðun réttarins því vafasamari finnst mér niðurstaðan. Um þessar efasemdir hef ég ritað á vefsíðu mína thorkellhelgason.is.

Hið jákvæða er að það skuli vera dómstóll sem kveður á um réttmæti kosninga. Þessu er ekki þannig farið um kosningar til Alþingis. Þar liggur hið endanlega ákvörðunarvald um gildi kosninganna hjá þinginu sjálfu, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er meðal þess sem ég vil fá breytt, fái ég lagt á ráðin. Hefði þótt eðlilegt að við, þingfulltrúarnir 25, hefðum dæmt í eigin „sök“, fellt úrskurð um það hvort kjörbréf okkar væru gild? Varla.

Mistök við alþingiskosningar 2003

Við alþingskosningarnar 2003 reyndi í fyrsta sinn á skiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Sem kunnugt er fylgja mörkin í fyrstu Hringbraut og Miklubraut. Kontóristar borgarinnar höfðu flaskað á því að Framnesvegur sker Hrinbrautina og eru nokkur hús sunnan hennar. Þeir höfðu sett allan Framnesveginn í norðurkjördæmið. Nokkrir kjósendur höfðu kosið í röngu kjördæmi. Var kosningin þá ógild? Kjósendur gátu að vísu kosið sömu flokka í báðum kjördæmum en ekki sömu frambjóðendur. Það var til dæmis brotið þannig á þessum kjósendum að þeir fengu ekki að strika út þá frambjóðendur sem þeir höfðu hugsanlega ætlað sér að gera. Ef til vill beindu þeir spjótum sínum að frambjóðendum í röngu kjördæmi, en mikið var um útstrikanir í norðurkjördæminu. Hvað gerði Alþingi? Ógiltu þingmenn eigin kosningu vegna þessara mistaka? Nei, þeir fóru að mínu mati skynsömu leiðina. Prófað var á alla kanta að gera þessum villuráfandi kjósendum upp skoðanir um það hvaða flokka þeir hefðu hugsanlega kosið og aðgætt hvort skipan þingsins gæti breyst af þeim sökum. Svo reyndist ekki vera og þar með staðfestu þingmenn öll eigin kjörbréf. Þingmenn gerðu sér ekki rellu út af því að kosningaúrslit í þessum tveimur kjördæmum voru röng sem nam tugum atkvæða í hvoru þeirra. Hefði Hæstiréttur farið eins að?

Pólitísk ábyrgð Hæstaréttar

Kom mér ályktun Hæstaréttar á óvart? Já. Til að skýra það svar vil ég nefna frægt dæmi um mat á gildi ríkiskosninga.
Árið 2007 dæmdi stjórnlagadómstóll Þýskalands þau kosningalög, sem beitt var við kosningar til Sambandsþingsins árið 2005, brjóta í grundvallaratriðum í bága við stjórnarskrána. Svo slæmt var það ekki með stjórnlagaþingskosninguna! Lögunum hafði verið beitt áratugum saman með hinum umdeildu ákvæðum. Hvað þá? Átti dómstóllinn að reka þingið heim, ógilda öll lög sem hið ólöglega þing hafði sett og setja svo kanslarann Angelu Merkel af (þýska þingið kýs kanslarann)? Dómstóllinn veltir þessu fyrir sér í dómsorði sínu en kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ófær leið.

Í stað þess skikkaði hann Sambandsþingið til að lagfæra lögin og hafa þau á hreinu fyrir kosningarnar 2013. Þingið fær þannig góðan tíma, enda eru Þjóðverjar þekktir að vandvirkni. En þetta merkir að þingið sem kosið var fyrir rúmu ári, haustið 2009, situr í krafti kosningalaga sem vitandi vits standast ekki stjórnarskrá. (Sjá meira á vefnum http://www.landskjor.is/kosningamal/erlendar-kosningar-/nr/16.)

Ég hafði sannast sagna vænst þess að Hæstiréttur felldi slíkan Salómonsdóm, ekki síst í ljósi þess að margt orkar tvímælis í röksemdafærslu réttarins, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Ég hafði vænst þess að rétturinn setti ofan í við Alþingi og framkvæmdarvaldið, segði þeim að standa sig betur næst, en léti kosninguna gilda þar sem engin rök hafa verið færð fyrir því að hnökrarnir á henni hafi haft áhrif á úrslitin. Það eru alvarleg inngrip að ógilda heilar landskosningar. Rétturinn hefur því tekið á sig pólitíska ábyrgð. Það hefur hann íhugað vandlega – skulum við vona.

Þegar þetta er ritað eru stjórnvöld að velta fyrir sér hvernig eigi að taka á málinu; hvort efna eigi til nýrrar kosningar, uppkosningar eða frá grunni, eða að Alþingi skipi á stjórnlagaþingið. Hver svo sem niðurstaðan verður gef ég áfram kost á mér til starfa á stjórnlagaþingi. Ég bauð mig fram í haust til þess að leggja mitt af mörkum. Ég stend við það.

Áfram með stjórnlagaþingið!

[Birtitist í Fréttatímanum 3. febrúar 2010]