by Þorkell Helgason | sep 1, 2021 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Kjarnanum 31. ágúst 2021.]
Ný könnun Gallups sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spurðir voru er hlynntur því „að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum“. Spurningunni svipar til ákvæðisins í stjórnarskrártillögum Stjórnlagaráðs um að greiða skuli „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlindum í þjóðareigu.
Meginniðurstaðan úr könnuninni er sú að 77% þeirra sem svöruðu eru hlynntir því að krafist sé markaðsgjalds en einungis 7% eru því andvígir. Afgangurinn, 16%, tók ekki afstöðu. Sé þessum óákveðnu sleppt eru tæplega 92% hlynntir en rúm 8% andvígir. Og þetta er næsta óháð kyni, menntun og tekjum þeirra spurðu. Landsbyggðarfólk er meira hikandi en höfuðborgarbúar, en sé horft fram hjá óákveðnum er munurinn eftir búsetu vart marktækur. Nokkur munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það hyggst kjósa. Þó er meirihluti fólks í öllum flokkum hlynntur markaðsgjaldi, eða frá 54% upp í meira en 90% hjá þremur flokkanna. Sé aftur horft fram hjá hinum óákveðnu er stuðningurinn hjá kjósendum einskis flokks minni en 76%.
Þessi afgerandi niðurstaða kemur svo sem ekki á óvart enda í samræmi við margar kannanir af svipuðum toga og raunar líka við svör kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 um það hvort lýsa eigi náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskrá. Af þeim sem þá tóku afstöðu voru 83% þeirrar skoðunar.
En ekkert gerist
Málið er þæft fram og til baka og út úr því snúið. Sama má segja um ýmis mál önnur þar sem þjóðin virðist mjög á annarri skoðun en þingmeirihlutinn á hverjum tíma. Vissulega kjósum við fulltrúa til að ráða málum okkar. Samt er eitthvað við það bogið þegar þing og þjóð eru gjörsamlega ósammála um mikilvæg grundvallarmál árum og áratugum saman. Hví kjósum við þá ekki þá flokka sem eru sömu skoðunar og við? Hængurinn er sá að flokkar bjóða aðeins upp á einn matseðil hver. Þótt aðalrétturinn kunni að vera girnilegur kjósandanum hefur hann kannski litla lyst á eftirréttinum. Kjósendur ganga ekki að hlaðborði þar sem þeir geta valið sér matseðilinn.
Hví ekki spyrja þjóðina?
Samkvæmt stjórnskipan okkar er nánast aldrei leyft að leita til kjósenda um einstök mál. Hví ekki að leyfa það í einhverjum mæli? Sagt er að þjóðin geti haft rangt fyrir sér? En hver er dómbær í þeim efnum aðrir en þjóðin sjálf? Væri það goðgá að spyrja þjóðina skýrt og skorinort hvort hún vilji að greitt sé fullt gjald, markaðsgjald, fyrir afnot af auðlindum í almannaeigu? Reynist það fá tiltekinn lágmarksstuðning væri stjórnvöldum gert skylt að útfæra ákvæðið og bera lög þar að lútandi aftur undir þjóðina. Þetta gerist þó ekki án stjórnarskrárbreytingar. Stjórnlagaráð var með tillögu í þessum dúr, en það fór á sama veg og annað: Enda þótt tveir þriðju hlutar þeirra sem afstöðu tóku í fyrrgreindri þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig því fylgjandi að tillögur ráðsins yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá og enn fleiri, eða nær þrír fjórðu hlutar, vildu að mál gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur tillögunum öllum verið stungið undir stól.
Á meðan þjóðin fær ekki að tjá sig beint verða þeir sem vilja fá fullt afnotagjald fyrir eigur sínar að herja á flokkana í komandi kosningum. Flokkarnir hljóta að taka mark á meirihluta kjósenda sinna.
Höfundur Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði og er félagi í Þjóðareign
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2020 | Á eigin vefsíðu
Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um fyrningar- og uppboðsleið við ráðstöfun á veiðiheimildum. Sjá https://www.althingi.is/altext/151/s/0037.html.
Ég hef sent viðkomandi þingnefnd, atvinnumálanefnd, umsögn þar sem ég lýsi yfir stuðningi við markmið tillögunnar.
by Þorkell Helgason | nóv 11, 2020 | Á eigin vefsíðu
Í þættinum Silfrið í ríkissjónvarpinu sunnudaginn 8. nóvember sl. var viðtal við Cathrine Dupré um stjórnarskrármálið í tilefni af nýútkominni bók sem hún og Ágúst Þór heitinn Árnason ritstýrðu. Sjá https://www.ruv.is/utvarp/spila/silfrid/29054?ep=8l2ifu.
Eins og gengur þegar útlendingar fjalla um íslensk mál skolast ýmislegt til, þótt um margt sé þetta áhugavert viðtal.
Ég hnaut þó sérstaklega um það að spyrlan (Fanney Birna Jónsdóttir) spurði hvort erfitt væri að breyta stjórnarskránni sem nú gildir, þ.e. með ákvæðum þar um í 79. gr. hennar. Katrín franska sagði svo vera, en bætti því við að þjóðin kæmi verulega að breytingarferlinu, jafnvel í þrígang í hvert sinn. Þjóðin kysi þing sem samþykkti stjórnarskrárbreytinguna í fyrra skiptið, kysi svo aftur þing til að staðfesta (eða hafna) breytingarfrumvarpinu og síðan væri forsetinn, sem þyrfti að undirskrifa stjórnarskrárlögin, þjóðkjörinn. Hann gæti skotið málinu til þjóðarinnar (skv. 26. gr.).
Að mínu mati fer Cathrine Dupré hér vill vega. Hún lýsir formalisma en ekki raunveruleikanum. Ég tel þvert á móti bæði auðvelt að breyta stjórnarskránni, jafnvel of auðvelt, og jafnframt að þjóðin hafi nánast enga almenna aðkomu að stjórnarskrárbreytingum skv. ákvæðum gildandi stjórnarskrár.
Ég veit ekki til þess að þing hafi nokkru sinni verið kosið sérstaklega til að leggja fram tiltekna stjórnarskrárbreytingu. Kosningar snúast um almenn málefni, sem oftast eru efnahagsmálin. Á lýðveldistímanum hafa kosningar aðeins einu sinni lotið alfarið að staðfestingu á stjórnarskrárbreytingu. Það var árið 1959. Breytingin þá var á ákvæðum um kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta. Flokkarnir, sem að þeirri breytingu stóðu, lofuðu kjósendum því á undan fyrri kosningunum, þeim um vorið, að þing yrði rofið eftir að nýtt þing hefði staðfest breytinguna og kosið yrði á ný. Því væri breytingin á kosningaákvæðunum eina málið í vorkosningunum.
Var þetta fyrirkomulag 1959 merki um beint lýðræði, um að þjóðin fengi að kjósa um stjórnarskrárbreytingu, þótt með óbeinum hætti væri? Nei, ég leyfi mér að fullyrða að lýðræðisást lá ekki að baki þessu fyrirkomulagi, heldur var þetta valdapóltík. Breytingin á kosningaákvæðunum var einkum til þess gerð að ná auknum jöfnuði á milli flokkanna, m.ö.o. að ná sem flestum þingsætum af Framsókn sem flokkurinn hafði alla tíð fengið umfram það sem hann átti tilkall til miðað við landsfylgi. Framsóknarflokkurinn var auðvitað á móti breytingunni. Hinir flokkarnir vildu aftur á móti geta uppskorið ávinninginn strax. Þess vegna skyldi kosið aftur, sem var gert um haustið 1959 og þá á grundvelli nýrra kosningaákvæða á grundvelli nýrra kosningaákvæða. Í kjölfarið kom svo Viðreisnarstjórnin, en það er önnur saga.
Fullyrða má að þjóðin hafi í þetta eina sinn, alla vega eftir lýðveldisstofnunina, fengið raunverulegt tækifæri til að tjá sig um stjórnarskrárbreytingu, en þó aðeins á flokkspólitískum grundvelli. Þeir sem voru á móti breytingunni 1959 hefðu þurft að kjósa Framsókn, sér e.t.v. að öðru leyti þvert um geð.
Hér var ekki boðið upp á kosningu með jái eða neii um stjórnarskrárbreytingu. Það hefur aðeins tvívegis gerst. Fyrst um sambandslögin 1918, en í 2. mgr. 21. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 12/1915 var kveðið á um að samþykkti „Alþingi breyting á sambandinu milli Íslands og Danmerkur skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“.
Hitt dæmið er um stjórnarskrárbreytinguna, sem stofnun lýðveldisins 1944 kallaði á, og fjallaði um að skipta út orðinu „kóngur“ fyrir „forseta“! Þá var beitt ámóta aðferð, þeirri að í sjálfum stjórnskipunarlögunum, er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þessi stjórnarskrárgrein hljóðar svo: „81. gr. Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi, þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt þau.“
Merkilegt nokk er þessi grein enn í gildi. Alþingi væri í lófa lagið að gefa þjóðinni kost á að velja eða hafna breytingum á stjórnarskránni með þessum hætti. Ég benti á það vorið 2013 að þannig mætti fara að um frv. stjórnlagaráðs eða frv. á grundvelli þess.
Í Silfrinu var þessi kostur ekki reifaður. Í þess stað nefndi Cathrine Dupré að þjóðin hefði þriðju leiðina til að hafa áhrif á stjórnarskrárbreytingu, þ.e. með því að kjósa forseta Íslands, en hann gæti neitað að undirskrifa stjórnarskipunarlög sem færu þá í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hver önnur lög. Þetta er auðvitað út í hött. Skyldi þjóðin t.d. hafa kosið Ólaf Ragnar Grímsson forseta 1996 til þess að hann síðan myndi ekki undirskrifa stjórnarskrárbreytinguna 2013, 17 árum síðar; breytingu sem skaut fyrst upp kollinum nokkrum mánuðum á undan? (Hann skrifaði reyndar undir!) Þetta kalla ég lögfræðilegan formalisma.
Niðurstaðan er sú að það er auðvelt fyrir einfaldan meirihluta á Alþingi að breyta stjórnarskránni án þess að gefa þjóðinni raunhæfan kost á að hafa áhrif.
Hvað ef gerræðisleg stjórnarskrárbreyting væri samþykkt á Alþingi?[1] Þá er að vona að þjóðin myndi bera gæfu til að kjósa stjórnmálasamtök sem hefðu það eitt að markmiði að staðfesta ekki breytinguna, enda myndu samtökin lofa því að standa síðan að þingrofi. Í kjölfarið mætti svo kjósa um önnur mál – og síðan drægi þessi sérmálshreyfing sig í hlé. Væri þetta haldreipi til að sporna við hugsanlegri gerræðisstjórn? Sporin frá Ungverjalandi og Póllandi hræða, þó aðeins sé tekin nýleg dæmi og enn verri dæmi fyrr á síðustu öld látin ónefnd.
[1] Bráðbirgðaákvæði það, sem skotið var inn 2013 til þess að réttlæta það að gera ekkert með tillögur Stjórnlagaráðs, var að mínu mati af þessum toga. Ákvæðið hefði gert það næsta ógerlegt að breyta stjórnarskránni á ný. Sem betur fer var ákvæðið bæði valkvætt og tímabundið. Sem almennt ákvæði myndi það frysta stjórnarskrána um ókomna tíð og væri því stórhættulegt að mínu mati.
by Þorkell Helgason | nóv 9, 2020 | Á eigin vefsíðu
Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um fulla jöfnun atkvæðavægis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins bað mig um umsögn, sem ég gerði og lagði talsverða vinnu í með aðstoð Péturs Ólafs Aðalgeirssonar stærðfræðings. Umsögn mín er á faglegum nótum með ábendingum um hvað megi tæknilega betur fara í frumvarpstextanum. Jafnframt geng ég ögn lengra og reifa þann möguleika að skipta Suðvesturkjördæmi í tvennt til að jafna að nokkru stærð kjördæmanna.
Ég var kallaður á fjarfund nefndarinnar 16. nóv. 2020 til að reifa umsögnina og svara spurningum. Í kjölfar fundarins endurskoðaði ég umsögnina með hliðsjón af athugasemdum nefndarmanna. Þessa endurskoðuðu gerð er að finna á síðu Alþingis, https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-418.pdf. Enn fremur hér: Umsögn um frv. um jöfnun atkvæðavægis ÞH endurskoðuð.
Á nefndarfundinum fór ég yfir efni umsagnar minnar með glærusýningu, sem forvitnir geta fundið hér: YfirlitViðreisnFrvUmsögn.
Ég hef á öðrum vettvangi ekki farið leynt með þá skoðun mína að jafnt vægi atkvæða heyri til grundvallarmannréttinda. Þetta var og sjónarmið okkar í Stjórnlagaráði.
Í fyrstu umræðu um frumvarpið var ekki að heyra neina efnislega andstöðu. Þvert á móti. T.d. sagðist Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og sérfræðingur í þessum málaflokki, „get[a] tekið undir öll meginmarkmið frumvarpsins“ og bætti við: „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt markmið að jafna atkvæðisréttinn.“
Geta þingmenn ekki þetta sinn náð saman um stórmál hvað sem flokkslínum líður?
by Þorkell Helgason | júl 22, 2020 | Á eigin vefsíðu
Klúbbur formanna stjórnmálaflokka á Alþingi heldur áfram bútasaum á stjórnarskránni gömlu og lúnu. Nú hafa þeir birt á Samráðsgáttinni hugmyndir um breytingar stjórnarskrárákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl. Gefinn var afar stuttur tími til að senda inn umsagnir.
Ég hef þó sent inn allítarlega umsögn sem hér má rekja í heild sinni (eftir leiðréttingu á par ritvillum!): ÞorkellHelgasonUmsognForsetamal.
Einnig má finna þessa umsögn mína (þá nr. #1o8) og aðrar á Samráðgáttinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2713#advices
Ég spyr þar hvort það samræmist yfirlýstu markmiði um „gagnsæi“ við þetta viðfangsefni að fela tveimur lögfræðingum, þótt mætir séu, að ganga frá þessum hugmyndum og það í frumvarpsformi án þess að fram komi hvað er hvurs, formannanna og lögfræðinganna.
Þá lýsi ég vonbrigðum yfir því að hvergi er hægt að sjá hvort eða hvaða áhrif umsagnir um fyrri hugmyndir formannaklúbbsins hafa haft.
Ég tel að með frumvarpsdrögunum horfi margt til bóta, enda er víða byggt á sjónarmiðum Stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn þarf meira til þess að úr verði heilsteypt og samræmd endurskoðun á stjórnarskránni. Því bendi ég enn og aftur á að tillögur Stjórnlagaráðs frá sumrinu 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun og þjóðarstuðning.
Nokkrir punktar úr umsögn minni:
- Hnykkja ætti á því að allt vald komi frá þjóðinni en kjörnir fulltrúar fari með það í hennar umboði.
- Þess er saknað að ekki skuli tekin upp tillaga Stjórnlagaráðs um raðval til að tryggja að kjörinn forseti njóti á endanum stuðnings meirihluta kjósenda.
- Spurt er um það ákvæði sem á að takmarka setu forseta við tólf ár. Óljóst er hvort sami maður geti gegnt embættinu enn lengur sé seta hans í stóli ekki samfelld.
- Tillögur um aðkomu forseta að stjórnarmyndun eru athyglisverðar en verða ekki gagnrýndar innan þess stutta tímafrests sem gefinn er.
- Dregið er í efa að ríkisráð hafi einhvern tilgang.
- Því miður eru „þykjustuhlutverk“ forseta ekki afnumin, jafnvel nýjum bætt við.
- Orðlag um gildistöku nýs ákvæðis um hámark á embættistíð forseta þykir óskýrt.
- Brýnt er að stjórnarskrá sé öllum læsileg og aðgengileg og verði þjóðinni hjartfólgin. Bútasaumuð stjórnarskrá er ekki til þess fallin.
by Þorkell Helgason | okt 14, 2019 | Á eigin vefsíðu
Þróaður hefur verið hugbúnaður, kosningahermir, til prófunar á eiginleikum og gæðum kosningakerfa. Þetta er verkfæri til að kanna mismunandi skipan kjördæma og með hinum ýmsu úthlutunaraðferðum.
Hægt er að fræðast nánar um herminn með því að renna yfir þessar glærur: Kosningakerfishermir kynning oktober 2019
Með herminum má prófa hugmyndir um fyrirkomulag kosninga á grundvelli raunverulegra kosningaúrslita en ekki síður með tilbúnum hendingakenndum úrslitum sem fengnar eru með tölfræðilegum hætti.
Kostir og gallar hvers kerfis eru mældir á ýmsan hátt, t.d. því hve hlutfallsleg úrslitin eru eða hvort jöfnunarsæti riðla um of úthlutun innan hvers kjördæmis.
Hugbúnaðurinn er ekki sérsniðinn að Íslandi. Alþingkosningar eru hafðar í huga en búnaðurinn fellur að kosningakerfum flestra grannríkja.
Kosningahermirinn verður gerður aðgengilegur öllum, fræðimönnum, stjórnmálamönnum og öðrum áhugamönnum um grunnstoð lýðræðisins: Fyrirkomulag kosninga.
Ennfremur er á glærunum sagt lauslega frá bók sem er í smíðum um viðfangsefnið (en ekki þó herminn sérstaklega). Bókin gengur undir vinnuheitinu „Kosningafræðarinn“.
[Glærurnar lítillega endurbættar 16. okt. 2019.]