Forsetinn njóti stuðnings meirihlutans

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 4. mars 2011]

Aðeins einn af forsetum lýðveldisins hefur náð stuðningi meirihluta kjósenda við fyrstu kosningu í embættið. Það gerði Kristján Eldjárn í forsetakosningunni 1968 er hann hlaut nær tvo þriðjuhluta atkvæða, en þar ber þó að hafa í huga að hann hafði einungis einn mótframbjóðanda. Yfirlit yfir stuðning við kjörinn forseta er sýnt í 1. töflu:

1. tafla.          Fylgi kjörinna forseta við fyrstu kosningu.
Forseti Kosningaár Hlutfall af gildum atkvæðum Tala mótfram-bjóðenda
Sveinn Björnsson 1944 Var þingkjörinn
Ásgeir Ásgeirsson 1952 48,3% 2
Kristján Eldjárn 1968 64,3% 1
Vigdís Finnbogadóttir 1980 33,8% 3
Ólafur Ragnar Grímsson 1996 41,4% 3

 

Samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar telst sá rétt kjörinn forseti sem fær flest atkvæði. Þessi regla býður upp á það að frambjóðandi geti náð kjöri þótt hann njóti einungis stuðnings lítils minni hluta kjósenda. Það væri ankannaleg niðurstaða ekki síst ef litið er til þess hvernig forsetaembættið og völd forseta hafa þróast í embættistíð núverandi forseta.

Æskilegt verður að teljast að forseti njóti ótvíræðs stuðnings meirihluta kjósenda. Sums staðar tíðkast að endurtaka slíkt kjör ef enginn frambjóðandi nær meirihluta. Er þá að jafnaði kosið á milli tveggja efstu manna á ný. Til er einfaldari aðferð að sama marki. Hún er sú að sameina þetta í einni kosningu með því að beita forgangsröðunaraðferð. Kjósendur raða þá frambjóðendum í forgangsröð. Fái enginn þeirra meirihluta er sá sem fær minnst fylgi að fyrsta vali kjósenda dæmdur úr leik og atkvæði hans færð til hinna í samræmi við annað val viðkomandi kjósenda, og svo framvegis allt þar til meiri hluti liggur fyrir. Þetta er sama aðferð og beitt var í stjórnlagaþingskosningunni alræmdu s.l. haust, nema hvað frambjóðendur verða vart 522 eins og þá.

Írar hafa um langan aldur notað þessa aðferð í öllum almennum kosningum, þar á meðal í forsetakosningum. Einu sinni hefur reynt á það á Írlandi að sá forsetaframbjóðandi sem fékk flest atkvæði að fyrsta vali, en þó ekki meirihluta, náði samt ekki kjöri. Þetta dæmi er rakið í 2. töflu.

 

2. tafla. Forsetakosning á Írlandi 1990.
Frambjóðandi Atkvæði
að 1. vali
Færð atkvæði Atkvæði
í 2. talningu
Austin Currie 267.902 -267.902 0
Brian Lenihan 694.484 36.789 731.273
Mary Robinson 612.265 205.565 817.830

 

Brian Lenihan hlaut vissulega flest atkvæði í fyrstu, en kjósendur Austin Currie gerðu  útslagið. Velflestir þeirra tóku Mary Robinson fram yfir Brian Lenihan svo að það var Mary sem náði kjöri en ekki Brian. Trúlega hefði það sama orðið upp í teningnum ef kosið hefði verið aftur á milli þeirra tveggja.

Í forsetakosningunni hér á landi árið 1996 féllu atkvæði eins og í sýnt er í 3. töflu.

3. tafla. Forsetakosning 1996.
Frambjóðandi Gild atkvæði Hlutfall af gildum atkvæðum
Ástþór Magnússon Wium 4.422 2,7%
Guðrún Agnarsdóttir 43.578 26,4%
Ólafur Ragnar Grímsson 68.370 41,4%
Pétur Kr. Hafstein 48.863 29,6%

 

 

 

 

 

 

Hefði valið á forseta orðið annað með forgangsröðunaraðferð, eða ef forsetakjörið hefði farið fram í tveimur umferðum þar sem kosið hefði verið á milli þeirra Ólafs Ragnars og Péturs Kr. í seinni umferð? Því verður ekki svarað eftirá.

Forgangsröðunaraðferðin tryggir að réttkjörinn forseti njóti meirihluta stuðnings kjósenda og sneiðir hjá ókostunum við kjör í tveimur umferðum sem eru m.a. eftirfarandi:

  • Kostnaður við tvær kosningar.
  • Áhugaleysi almennings á þátttöku í báðum umferðunum. Sé t.d. talið ljóst að engin muni ná kjöri í þeirri fyrri og einsýnt hverjir nái að vera í kjöri í þeirri seinni, kunna kjósendur að bíða seinni umferðarinnar.
  • Flokkadrættir og hrossakaup frambjóðenda eftir fyrri kosninguna, þar sem hinir tveir efstu kunna að biðla með óviðeigandi hætti til stuðningsmanna þeirra sem eru úr leik.

Þess má geta að breska ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir þjóð sína að valið verði á milli frambjóðenda í einmenningskjördæmunum, eins og þar tíðkast, með þessari sömu forgangsröðunaraðferð.

Kjörtímabili forseta Íslands líkur á næsta ári. Að öllum líkindum fer þá fram forsetakosning. Hvað svo sem verður um breytingar á stjórnarskrá er næsta víst að þetta forsetakjör verður með óbreyttum hætti. Munum við þá áfram búa við forseta án meirihlutastuðnings? Hvernig svo sem það fer er ljóst að ákvæði 5. gr. stjórnarskrárinnar um forsetakjör er eitt af þeim mörgum um ákvæði stjórnarskrárinnar sem þarfnast skoðunar.

Höfundur þessa pistils lagði á árinu 2006 þessa hugmynd um forsetakjör með forgangsröðun fyrir stjórnarskrárnefnd sem þá var að störfum.

Til hvers er forsetinn?

[Birt í Fréttatímanum 25. febrúar 2011]

Eftir þriðju synjun forseta Íslands á staðfestingu á lögum frá Alþingi er tilvist og hlutverk embættisins í brennidepli. Stjórnarskráin frá 1944 er ótraust heimild um verksvið forseta í ljósi þeirrar túlkunar sem núverandi forseti hefur haft á hlutverki sínu. Það er reyndar engin furða þar sem orðanna hljóðan í stjórnarskránni segir eitt en svokallaðir lögspekingar annað. Þótt stjórnarskránni væri ekki breytt að öðru leyti en því að gera ákvæðin um forsetann skiljanleg venjulegu fólki væri það mikilsverð betrumbót. Eftir að núverandi forseti hefur varpað mörgum af hefðunum um embættið fyrir róða þarf þó að fjalla um hlutverk og vald forsetans frá grunni.

Hættulegt forsetaræði
Fyrsta spurningin er hvort við viljum áfram þingræði, þ.e. að framkvæmdarvaldið sitji í skjóli Alþingis. Sömuleiðis hvort löggjafarvaldið eigi næsta óskorað að vera hjá Alþingi. Þetta eru spurningar um það hvort við viljum í meginatriðum búa við fulltrúalýðræði, að við kjósum okkur fulltrúa, þingmenn, til að fara með öll meginmál okkar. Ég hef á öðrum vettvangi svarað þessum spurningum játandi. Ég tel forsetaræði í hvaða mynd sem er í senn óhentugt og hættulegt smáþjóð.

Hví segi ég óhentugt? Ef við tækjum upp forsetaræði, þ.e. fullan aðskilnað þings og framkvæmdarvalds, væri það að óbreyttu ójafn leikur. Þjóðkjörinn forseti eða forsætisráðherra hefði allt stjórnarráðið undir sér og væri því með ótvírætt forskot á þingið um þekkingu og sérfræðingalið. Þingið myndi skjótt bregðast við. Hugboð mitt er að Alþingi kæmi sér upp umtalsverðu sérfræðingaliði til að eiga í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Grófir reikningar benda til 2-3 milljarða kr. kostnaðarauka á ári. Höfum við efni á því?

En hví er það hættulegt? Þjóðkjörinn æðsti maður framkvæmdarvaldsins gæti orðið mjög valdamikill. Allt vald spillir. Höfum við ekki séð dæmi um það? Það yrði þá að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að enginn gæti verið í slíkri aðstöðu nema mjög takmarkaðan tíma. Hitt er ekki síður alvarlegt að þing og stjórn gætu eldað grátt silfur saman þannig að erfitt yrði að leiða brýn mál til lykta. Við höfum fundið smjörþefinn af slíkum deilum. Þetta er ekki það sem okkur fýsir einmitt um þessar mundir.

Eigum við þá að láta forsetaembættið veg allrar veraldar? Munum ætíð að við búum í kotríki. Við verðum ávallt að gæta hagsýni og hafa okkar fyrirkomulag einfaldara en grannríkjanna. Vera má að við þurfum forseta sem sameiningartákn – en þá verður að fara varlega með embættið.

Umboðsmaður fólksins
Ef við viljum halda forsetaembættinu ætti að finna því raunhæf verkefni svo sem til styrktar nauðsynlegu aðhaldi að stjórnvöldum og Alþingi. Er ekki málskotsréttur forsetans, 26. gr. stjórnarskrárinnar, einmitt dæmi um slíkt aðhaldsvald? Jú, en eins og mál hafa nú þróast er bersýnilegt að þar skortir allar leikreglur. Þing og þjóð mega ekki vera í fullkominni óvissu um afdrif stórra mála þar til véfréttin á Bessastöðum hefur talað. Ég er fylgjandi því að forsetinn hafi neyðarhemil, svo sem til að stöðva framgang laga sem kunna að brjóta í bága við stjórnarskrá. Ferlið verður þó að vera gegnsætt, til dæmis þannig að forsetinn afli sér fyrst umsagnar Hæstaréttar sem væri þá í hlutverki stjórnlagadómstóls.

Á ólgutímum er kallað á aukið eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Nú eru allmörg embætti og stofnanir sem hafa það hlutverk að veita slíkt aðhald og gefa viðvaranir af ýmsum toga. Hvernig væri að setja ramma utan um þetta aðhalds-, úrskurðar- og eftirlitsvald og tryggja enn betur að það sé hlutlaust og standi utan við hið þrískipta ríkisvald? Að úr þessu verði eins konar umboðsmaður fólksins? Forseti lýðveldisins gæti verið yfirboðari þessa aðhaldsvalds í þeim skilningi að hann skipi yfirmenn þessa óháða valds. Forsetinn er þjóðkjörinn og hefði því gott umboð til slíkrar forystu.

Stjórnlagaþingið, þegar því tekst að hefja störf, hefur verk að vinna, ekki síst það að koma með úrbætur á stöðu og hlutverki forsetans. Það kann að reynast brýnt að koma slíkum umbótum á áður en forseti verður kosinn á næsta ári.

Hver gætir almennings gagnvart valdinu?

Mikilvægt er að hinir þrír stólpar ríkisvaldsins, löggjafinn (Alþingi), framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) og dómsvaldið (dómstólarnir) séu aðskildir og hafi aðhald og eftirlit hver með öðrum. Ýmis sjónarmið eru uppi um það hvernig þetta skuli gert. Sumir vilja að framkvæmdarvaldið sé kosið sérstaklega. Aðrir vilja efla þingið, styrkja þingræðið, svo að það eigi í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Ég reifa þessi sjónarmið í nokkrum pistlum á vefsíðu minni og hallast þá fremur að seinni lausninni. Um sjálfstæði dómstólanna eru allir sammála.

En gagnkvæmt eftirlit er eitt, utanaðkomandi eftirlit er annað. Nú eru allmörg embætti og eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að úrskurða í deilum borgaranna og stjórnvalda, að veita aðhald og gefa ábendingar af ýmsum toga um hvað eina sem úrskeiðis fer eða betur má fara í starfi framkvæmdarvaldsins. Fyrstan má nefna Umboðsmann Alþingis og aðra sérhæfða umboðsmenn en Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit eru hugsanlega líka af þessum meiði. Hvernig væri að setja ramma utan um þetta aðhalds-, úrskurðar- og eftirlitsvald og tryggja enn betur að það sé hlutlaust og standi utan við hið þrískipta stjórnvald? Þá hef ég í huga eins konar fjórða þátt ríkisvaldisins, fjórða valdið. Mér hugnaðist að kalla þetta vald umboðsmann almennings. Það er í samræmi við það að allt vald í lýðræðisríki er komið frá almenningi, fólkinu sem landið byggir.

Er þá verið að leggja til enn eitt ríkisskrímslið sem kosti morð fjár og verði nýtt sjálfumglatt vald? Nei, alls ekki. Fyrirkomulagið ætti að geta leitt til sparnaðar þar sem ég sé fyrir mér að sameinuð verði þau smáu embætti sem nú starfa á þessu sviði. Hins vegar þarf að gæta að ýmsu þannig að þetta fjórða vald geri það sem þá á að gera, þjóna fólkinu. Hver á t.d. að skipa það og hver að veita því forystu? Það væri vitaskuld á skjön við tilganginn að einhver hinna valdþáttanna kæmi þar nærri enda þótt ekki yrði hjá því komist að Alþingi skammtaði embættinu fé. En hvernig væri að þarna fengi forseti lýðveldisins hlutverk, að hann væri æðsti maður þessa aðhaldsvalds í þeim skilningi að hann skipi yfirmann þessa valds, en það sé síðan óháð öllum, líka forsetanum? Forsetinn er þó alla vega þjóðkjörinn og hefði því gott umboð til slíkrar forystu. Þetta gæti um leið orðið hluti af því verkefni að finna forsetanum stað í nýrri stjórnarskrá, vilji menn halda í þetta embætti.

Auk slíks umboðsmanns almennings þarf Hæstiréttur að fá það hlutverk að vera um leið stjórnlagadómstóll. Umboðsmaður almennings ætti að geta vísað lögum til úrskurðar þess dómstóls. Þannig veitti umboðsmaðurinn Alþingi einnig aðhald.

Ég býð mig fram til stjórnlagaþings undir þeim formerkjum að vinna vel, hlusta á rök og gagnrök en ríghalda mig ekki í niðurnjörvaðar skoðanir. Ég varpa framangreindri hugmynd fram til umræðu á þessum forsendum. Komi fram rökstuddar ábendingar um að hugmyndin hafi fleiri galla en kosti mun ég ekki hika við að skipta um skoðun. Stjórnlagaþingið á að vera rökræðuvettvangur, ekki þrasþing. Af því höfum við nóg.

Þingræði eða forsetaræði?

Við búum við þingræði á Íslandi, ekki forsetaræði, enda þótt orðlag gildandi stjórnarskrár um valdsvið forseta sé óljóst. Það verður eitt stærsta verkefni stjórnlagaþings að taka af skarið í þessum efnum.

Hvað er átt við með þessum hugtökum? Stuttar skilgreiningar eru þessar:

Þingræði er sú stjórnskipun að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins, Alþingis. Kjósendur hafa þannig ekki beina aðkomu að vali á ríkistjórn heldur aðeins í gegnum fulltrúa sína, þingmennina.

Forsetaræði er nafgift sem er notuð um það að framkvæmdarvaldið sé í höndum forystumanns eða manna, forseta eða forsætisráðherra, sem kjörnir eru beint af þjóðinni óháð hvernig þjóðþingið, Alþingi, er skipað.

Spurningin er hvort við eigum í meginatriðum að halda í þingræðið eða snúa við blaðinu. Hvor leiðin sem farin verður er verk að vinna. Þingræðisleiðin verður ekki farin óbreytt. Það verður þá a.m.k. að kveða skýrt á um hana og skilgreina hlutverk forsetans í þeim efnum. Viðsnúningur að hreinu forsetaræði þarfnast vitaskuld ítarlegrar yfirlegu.

Það er skiljanlegt að margir horfa nú hýru auga til fullkomins aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdarvalds, skiljanlegt eftir áratugi þar sem valdið hefur í meginatriðum verið hjá framkvæmdarvaldinu. Hjá öðrum kann ástæðan að vera meint getuleysi Alþingis til að taka á málum sjálft.

Hvort fyrirkomulagið vil ég? Um það fjalla ég í öðrum pistli.

Minnisblað til stjórnarskrárnefndar 2005 um aðferðir við kjör forseta Íslands

[Ég sendi stjórnarskrárnefnd þeirri sem skipuð var 2005 minnisblað sem hér má lesa.]

Minnisblaðið hefst þannig:

Ákvæði um kjör forseta Íslands er að finna í 5. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en þar segir:
Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt
hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra
manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er
rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án
atkvæðagreiðslu.

Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, einfaldri meirihlutakosningu, getur það hæglega gerst að forseti nái kjöri án þess að fá hreinan meirihlutanatkvæða, hvað þá að hann njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Eins og fram kemur í 1. og 2. töflu hafa tveir síðustu forsetarlýðveldisins ekki verið kosnir með meirihluta atkvæða að baki sér þegar þeir voru kosnir í fyrsta sinn.

Þú getur lesið greinina í heild með því að smella hér