Rétt og rangt um kosningakerfi Stjórnlagaráðs

[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu 9. ágúst 2011]

Stjórnlagaráð hefur skilað þjóð og þingi heildartilllögum að nýrri stjórnarskrá. Nú þarf að hefjast upplýst og vönduð umræða um tillögurnar. Fjölmiðlar hafa þar ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna. Úrtöluraddir mega ekki einar heyrast.

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, hefur haft uppi hörð orð um fyrirkomulag um kosningar til Alþingis í tillögum Stjórnlagaráðs, m.a. í Fréttablaðinu. Hér verður þó málflutningur Hauks í fréttum á Stöð 2 hinn 6. ágúst undir fyrirsögninni „Persónukjör án kjördæma marklaust“ einkum gerður að umtalsefni.

Flokkar og fólkið

Möguleikar kjósenda til að velja sér þingmenn fóru síminnkandi alla síðustu öld. Kjósendur standa nú aðeins frammi fyrir pakkalausnum í formi fyrirskrifaðra lista. Í Stjórnlagaráði kom strax upp vilji til að leggja til persónukjör þar sem kjósendur réðu sem mestu um það hverjir veldust til þingsetu. Mörg okkar skynjuðum sterkan vilja meðal fólks í þessa veru, m.a. á Þjóðfundinum 2010, og velflestir fulltrúar í ráðinu höfðu persónukjör eitt meginmarkmiða sinna við framboð til stjórnlagþings.

Fullyrt er að með persónukjöri sé verið að grafa undan flokkunum. Ekki verður þó annað séð en að flokkar séu sprelllifandi í þeim grannlöndum okkar þar sem alfarið eru kosnir einstaklingar en ekki flokkar, en það er í Finnlandi og Írlandi.  Flokkar njóta ekki vinsælda um þessar mundir. Gæti orsökin m.a. verið sú að fólki finnist það vanvirt með því að fá aðeins að kjósa fyrirskrifaða lista í heilu lagi en geti nær engu ráðið um hverjir veljast á þing?

Skipun þingmanna í samstæða hópa, flokka, er að flestra dómi gagnleg, jafnvel nauðsynleg. En þó tókst okkur í Stjórnlagaráði prýðilega að ná saman án þess að skipa okkur í fylkingar.

Óbærilegur stöðugleiki

Af fyrrgreindu sjónvarpsviðtali og blaðagreinum  Hauks má ætla að það sé hættulegt að kjósendur geti valið sér þingmannsefni þvert á flokka. Fyrst er því til að svara að í tillögum Stjórnlagaráðs er þess ekki krafist að kjósendur hafi svo mikið valfrelsi. Alþingi er heimilað að takmarka val kjósenda við menn úr sama flokki.

En segjum svo að kosningalög leyfi val þvert á flokka og að kjósandi velji sér þrjá frambjóðendur, tvo úr flokki A en einn úr flokki B. Atkvæði hans skiptist þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka. Nú verður kjósandinn fyrir vonbrigðum með aðalflokk sinn, flokk A, og hefnir sín í næstu kosningum með því að hafa endaskipti á atkvæðinu, velur aðeins einn úr A-flokki en tvo úr B-flokki. Haukur segir þá illt í efni þar sem aðeins færist þriðjungur úr atkvæði kjósandans á milli flokka. Ef kjósandanum hefði ekki verið leyft að skipta atkvæðinu hefði hann í fyrri kosningunni kosið A-flokkinn alfarið og síðan orðið gramur og kosið B-flokkinn, aftur með heilu atkvæði. Þannig dragi persónukjör úr fylgissveiflum.

Rök finnast ekki, aðeins hugardæmi af þessu tagi. Það er auðvelt að búa til dæmi í öndverða átt svo og reiknidæmi sem sýna ýmist minni eða meiri sveiflur.

Er kosningaréttur kvenna ógn?

Kjósendum í þingkosningum stórfjölgaði árabilinu 1915-20 að mestu vegna þess að konur fengu kosningarrétt. Sérfræðihaukar þess tíma hefðu örugglega varað við og sagt það stórhættulegt. Með ríflega tvöföldun á tölu kjósenda væri viðbúið að drægi úr fylgissveiflum. Áður hefði húsbóndinn á heimilinu ýmist kosið A- eða B-flokk og þar með sveiflað fylgi flokkana tveggja til og frá. Nú gæti svo farið að eiginkonan væri ávallt annarrar skoðunar en hann og hringlið í vinnuhjúunum, sem fengju nú að kjósa í fyrsta sinn, bætti ekki úr skák. Stöðugleikinn yrði óbærilegur, aukinn kosningaréttur væri því hættulegur þingræðinu.

Er jafn kosningaréttur mannréttindabrot?

Haft er eftir Hauki í sjónvarpsviðtalinu að það sé mannréttindabrot að fella niður kjördæmin, sérstaklega ef um leið er viðhaft persónukjör. Vera má að spyrjandinn hafi klippt viðtalið sundur og saman eða misskilið orð Hauks, en það sem haft er eftir honum í beinum og óbeinum orðum verður vart á annan veg skilið en þann að það sé brot á rétti fólks að jafna kosningaréttinn hvort sem það er gert með því að gera landið að einu kjördæmi eða á annan veg.

Stjórnlagaráð krefst ekki afnáms kjördæma. Á hinn bóginn er það ótvíræð krafa Stjórnlagaráðs að „atkvæði kjósenda alls staðar á landinu veg[i] jafnt“ eins og segir í frumvarpi ráðsins. Kjósandi á ekki að fá helmingi meiri rétt við það eitt að bregða búi og flytja frá öðrum munna Hvalfjarðarganga til hins eins og nú er. Haukur virðist réttlæta slíka mismunun með því að laun á landsbyggðinni séu helmingi hærri en á höfuðborgarsvæðinu. Forsenduna um launamuninn verður að draga mjög í efa, en þó svo hún væri rétt eru rökin ótæk. Mannréttindi, eins og kosningaréttur, mega hvorki ráðast af launum né auði.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði

 

 

Hvað þurfa margir að strika út mann til að hann færist niður?

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 29. maí 2010 er spurt hver sé munurinn á mati á útstrikun (og öðrum breytingum á kjörseðlum) annars vegar samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og hins vegar samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Um þetta er ítarlega fjallað í niðurlagi greinargerðar um þingkosningarnar 2003 annars staðar á þessum vef.  Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér.

Hér verður því ekki farið út í aðferðafræðina en útfærslurnar bornar saman í eftirfarandi töflu þar sem því er svarað sem oftast er spurt um í þessu sambandi: „Hve stór hluti kjósenda lista þarf að strika út sama manninn til að hann falli niður um sæti?“

Útstrikanir í kosningum
Við sveitarstjórnarkosningar (þar sem fram fara hlutbundnar kosningar) er svarið einfalt: Meira en helmingur kjósenda lista verður að strika mann út svo að hann falli niður um sæti. Gerist það fellur hann raunar alveg út af listanum.

Eftir þeirri aðferð sem beitt er við þingkosningar (frá og með kosningunum 2003) er þetta flóknara og fer eftir fjölda sæta sem listinn fær og því sæti sem frambjóðandinn er boðinn fram í. Taka má sem dæmi um fjórða mann á lista sem fær fjóra menn kjörna. Þá þarf meira en 16,7% þátttöku í slíkri útstrikunaraðgerð til að frambjóðandinn falli út niður um sæti og nái ekki kjöri sem aðalmaður (en verði í staðinn fyrsti varamaður).

Allt er þetta byggt á þeirri forsendu að ekki sé hróflað við frambjóðendum á listanum að öðru leyti. Stuðningsmenn umrædds fjórða manns geta t.d. beitt þeim mótleik að strika út fimmta mann listans. Útstrikanir ofar á listanum geta líka gert það erfiðara að víxla röð tveggja frambjóðenda.

Til að finna hvað hátt hlutfall útstrikana verður að vera til að færa mann niður í um tvö sæti í þingskosningum þarf einfaldlega að tvöfalda töluna í töflunni, o.s. frv.

Lærdómur af örlögum stjórnlagaþingskosningar

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 18. febrúar 2011]

Meginlærdómurinn er sá að enn á ný sjáum við hvað við erum fá og smá. Sumir segja að við bætum fámennið upp með sérstökum dugnaði og gáfum auk þessa íslenska séreinkennis að láta hlutina „reddast“. Þetta er 2007-hugsun, svo notað sé nútímamál. Það má ekki vera okkar haldreipi lengur að treysta á að hlutirnir bjargist einhvern veginn. Við verðum að vera raunsæ, taka tillit til smæðarinnar, leita einfaldra lausna og róa óhikað á erlend mið eftir fyrirmyndum, svo að fá hollráð séu nefnd. Umfram allt verðum við að nýta vel það takmarkaða mannvit sem við höfum úr að moða.

Hvað hefur þetta með kosningu til stjórnlagaþings að gera? Jú, við reistum okkur ef til vill hurðarás um öxl. Eftir rúmlega árs málþóf ákvað Alþingi skyndilega á miðju síðastliðnu sumri að efna til kosningar til stjórnlagaþings aðeins nokkrum mánuðum síðar, sem endaði með því að Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda. Ég er ósáttur við margt í úrskurði Hæstaréttar og hef í fyrri greinum mínum bent á rökleysur, en um leið á það hvernig rétturinn hefði getað farið meðalhófsleið jafnframt því sem hann hefði vísað veginn til umbóta í framkvæmd kosninga. Engu að síður verður að sætta sig við ákvörðun Hæstaréttar og láta hana verða okkur tilefni til að haga framkvæmd kosninga í senn með vönduðum en líka sem einföldustum hætti. Því miður veitir úrskurður Hæstaréttar fáa vegvísa þar sem rétturinn rökstyður ákvörðun sína lítt og frávísun endurupptökubeiðnarinnar á engan hátt.

Almennar kosningar, einkum um einstök málefni, verða efalaust tíðari hér eftir en hingað til. Krafan um virkt lýðræði kallar á það. Nú eru í gildi ein fimm lög um slíkar kosningar, hver með sínum hætti. Þetta er of flókið fyrir okkar kotríki. Sameina ætti þessa lagabálka í einn þar sem kveðið væri á um öll sameiginleg framkvæmdaratriði. Þá verður ekki það klúður að vísað sé þvers og kruss milli laga með tilheyrandi mistökum og mistúlkunum, eins og reyndi á fyrir Hæstarétti. Þessi almennu lög verða að vera nútímaleg með það að markmiði að gera kosningar ódýrar í framkvæmd um leið og lýðræðið er í heiðri haft og kosningaleyndar gætt sem frekast er kostur. Það er ótækt að framkvæmd kosninga skuli kosta 200-300 milljónir króna. Við hljótum t.d. að geta sætt okkur við einföld kjörklefaskilrúm eða plastkjörkassa eins og aðrar lýðræðisþjóðir, ef það sparar fé. Stóri sparnaðurinn er hins vegar fólginn í einfaldaðri og samræmdri yfirstjórn en ekki síst í rafrænum aðferðum. Vitaskuld á kjörskrá að vera rafræn þannig að kjósa megi á hvaða kjörstað sem er. Taka þarf af skarið með heimild til rafænnar úrvinnslu kjörseðla og stefna að beinum rafrænum kosningum.

Við verðum að tryggja framkvæmd lýðræðisins á þann hátt sem hentar smáþjóð. Hér er verk að vinna.

Kosningaraðferðin hyglir ekki nýnasistum – Reginfirra leiðrétt

Einar Júlíusson ritar 24. nóv. s.l. grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Er nokkur nýnasisti í framboði? Þessi grein byggir því miður á reginmisskilningi á þeirri kosningaraðferð sem beitt er við kosninguna til stjórnlagaþings. Aðferðin hefur verið nefnd forgangsröðunaraðferð en er oftast auðkennd með skammstöfuninni STV erlendis.

Einar gengur út frá því að 100.000 kjósendur greiði atkvæði og velji á milli 500 frambjóðenda. Einn þeirra vill hann kalla nýsnasista og sá hljóti 4.000 atkvæði að 1. vali hjá fylgismönnum sínum. Atkvæði hinna 96.000 kjósenda skiptist handahófskennt á milli frambjóðendanna 499 og raðist einhvern vegin á seðla þeirra. Hver þessara 499 fái að meðaltali (um) 200 atkvæði að 1. vali. Þá segir Einar réttilega að nýnasistinn svonefndi muni ná kjöri. Það er rétt enda fær hann 1/25 af öllum greiddum atkvæðum að 1. vali. Vandfundinn er sú lýðræðislega kosningaraðferð sem gæti með réttu komið í veg fyrir það. Svo segir Einar „en aðrir … detta út“ sem verður vart skilið á annan veg en að þeir nái ekki kjöri. Þetta er auðvitað kórvilla. Á þinginu skulu sitja 25 fulltrúar (að kynjajöfnunarsætunum slepptum). Það er því sama hvaða aðferð beitt yrði, 24 þessara munu að sjálfsögðu ná kjöri. Væri beitt einfaldri krossmerkingu væri það undir hælinn lagt hverjir þessir 24 væru og hver þeirra hefði aðeins um 200 atkvæði að baki sér. STV-aðferðin er með allt öðrum hætti. Með henni er lesið þannig úr vilja kjósenda samkvæmt forgangsröð þeirra að þeir 24 sem að lokum verða valdir, auk hins eina „vinsæla“, munu hafa stuðning mun fleiri kjósenda, allt að 4.000 hver.

Blaðagrein þessi er það myrk að ekki verður ráðið í hvað veldur þessum hrapalega misskilningi höfundar en svo virðist vera að grunnhugsun STV-aðferðarinnar, þeirrar sem hin mikilvæga kosning til stjórnlagaþingsins byggir á, sé höfundi algerlega hulin ráðgáta. Aðferðin byggir á forgangsgröðun: Hver kjósandi fer aðeins með eitt atkvæði, ekki 25 eins og greinarhöfundur virðist telja. Sá sem kjósandinn setur að 1. vali er sá sem hann raunverulega kýs. Hann er sá sem kjósandinn vill allra helst að nái kjöri. Hinir sem á eftir koma á kjörseðlinum eru eins konar varamenn, þeir sem kjósandinn vill að gripið sé til þegar sá að efsta vali hans er úr leik.

Greinarhöfundar ættu að vera alveg vissir í sinni sök áður en þeir ríða fram á ritvöllinn til að villa lesendum, og þar með kjósendum, sýn nú þegar örfá dægur eru í lýðræðislegar kosningar, einar þær mikilvægustu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir.

Þeir síðustu í talningunni munu ekki verða fyrstir – Misskilningur leiðréttur

Hinn 24. nóv. s.l. birtist grein eftir Sigurð F. Sigurðsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Furðuleg nýting atkvæða. Í fyrrihluta greinarinnar vísar höfundur til kynningarblaðs sem dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur sent á öll heimili þar sem meðal annars er leitast við að skýra hvernig atkvæði eru talin í komandi kosningu til stjórnlagaþings. Lýsingin, sem er væntanlega sú á öftustu opnu blaðsins, er því miður ekki nægilega skýr enda misskilur greinarhöfundur aðferðina og leggur því rangt út af henni. Málið fjallar um það hvernig atkvæði færast frá þeim sem náð hefur kjöri til þeirra sem tilgreindir eru að næsta vali hjá viðkomandi kjósendum.

Einfaldast er að taka talnadæmi: Frambjóðandi A fær 10.000 atkvæði að 1. vali en aðeins þarf 5.000 atkvæði til að ná kjöri. Greinarhöfundur álítur að þá séu þau 5.000 atkvæði sem síðast eru talin í bunka A færð til þeirra frambjóðenda sem eru tilgreindir á þessum seðlum. Hann telur réttilega að þetta sé „furðuleg nýtin atkvæða“ vegna þess að þá skipti máli í hvaða röð atkvæðin eru talin. Þetta er ekki svo. Það er horft til allra atkvæða A og hverju einstöku atkvæði í raun skipt í tvennt. Annar helmingur atkvæðisins er skilin eftir hjá A til að tryggja honum þau 5.000 atkvæðisígildi sem þarf til að hann ná kjöri. Hinn helmingur hvers atkvæðis, sem er þá ígildi hálfs atkvæðis, er færður til þess næsta að vali viðkomandi kjósanda.
Sú aðferð sem greinarhöfundur ranglega telur að hér verði notuð tíðkaðist í árdaga þeirra STV-aðferðar sem hér um ræðir. Það var fyrir daga tölva og ótækt talið að klippa seðla í sundur í miðjunni hvað þá í öðrum hlutföllum. Reynt var að stokka seðlana vel áður en talið var en síðan látið þar við sitja og einungis efstu atkvæðin í bunka frambjóðanda A í þessu dæmi færð. Á tölvuöld er auðvelt að gera þetta með fullri nákvæmni: Atkvæðin eru ekki klippt í sundur heldur er talnaígildi þeirra reiknað og þau færð með viðeigandi hætti.

Í seinni helmingi greinar sinnar furðar greinarhöfundur sig á því hví ekki skuli valin sú leið að beita stigagjöf þannig „að sá fyrsti fengi t.d. 100 stig , næsti eitthvað minna og svo koll af kolli …“. Þetta er sú aðferð sem er notuð við uppgjör á breyttum atkvæðaseðlum við Alþingiskosningar. Hefur svo verið gert lengst af í rúm hundrað ár. Aðferð þessi er nefnd Borda-aðferðin. Hér eru ekki tök á að færa rök fyrir því hvers vegna þessi leið var ekki farin nú. Þau eru að nokkru rakin í athugasemdum við frumvörp um persónukjör sem lögð voru síðast fram haustið 2009. Meginástæða þess að Borda-aðferðinni var hafnað er sú að hún býður upp á að kjósandinn nái markmiðum sínum betur fram með því að raða með öðrum hætti en hugur hans girnist. Þessi mótsögn á mun síður við sé STV-aðferðinni beitt. Sú aðferð hefur þann dýrmæta eiginleika umfram Borda-aðferðina að kjósandinn rýrir aldrei hlut þeirra sem hann hefur þegar sett á seðilinn við það að bæta fleirum við þar á eftir.

(Pistill þessi var ritaður 25. nóv. en rataði ekki á vefinn þá. Því er hann birtur nú, 28. nóv. en birtingartíminn aftur í tímann til þess að röð hans á vefsíðunni sé í sögulegri röð.)