Skip to content

Ný stjórnarskrá: Hvernig er valdapíramídinn?

Höfundur: Þorkell Helgason, December 2nd, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 2. desember 2011]

Tillögur stjórnlagaráðs hafa sætt gagnrýni eins og við mátti búast. Sumt af því er ómaklegt, annað eru eðlilegar athugasemdir. Stjórnarráðsfulltrúarnir Katrín Oddsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson fóru skilmerkilega yfir ýmsar þessar athugasemdir í Silfri Egils 27. nóvember s.l. Hér verður hnykkt á einu mikilvægi atriði: Hvernig valdið hríslast frá þjóðinni til Alþingis og þaðan til ríkisstjórnar; hvernig umboðsferlið er og hvernig það byrjar og endar hjá þjóðinni. Ferlið er hér kortlagt með einföldum hætti í upptalningarstíl. Innan sviga eru getið þeirra frumvarpsgreina sem vitnað er til, en lesendur geta fundið þær, t.d. á vefnum stjornlagarad.is.

Þjóðin kýs alþingismenn

 • Atkvæðakvæðavægi allra, óháð búsetu, skal vera jafnt (39. gr., 2. mgr.).
  • Þetta er grundvallarbreyting, en atkvæðavægið hefur ætíð verið misjafnt hérlendis. Í núgildandi stjórnarskrá er beinlínis kveðið á um viðvarandi ójöfnuð að þessu leyti. Hitt er önnur saga að náðst hefur jöfnuður milli flokka allt frá 1987.
 • Ríkt persónuval (5. mgr.).
  • Algert nýmæli hérlendis. Jafnvel hægt að velja þvert á lista. Stjórnmálaflokkar gegna þó áfram lykilhlutverki við val á frambjóðendum.

Alþingi kýs forsætisráðherra

 • Forseti Íslands gerir fyrstur tillögu (90. gr., 2. mgr.).
  • Skýrt og eðlilegt ákvæði. Kemur í stað óljósrar hefðar um að forseti „feli einhverjum stjórnarmyndun“.
 • Þingið getur sjálft stungið upp á manni (sama mgr.).
  • Þótt forsetinn eigi frumkvæðið getur Alþingi kosið hvern þann sem því hugnast.
 • Að lokum kýs þingið forsætisráðherra (sama mgr.).
  • Algerlega skýrt að forsætisráðherra situr í umboði Alþingis. Í núg. stjórnarskrá er allt á huldu um þetta, sagt felast í því að „stjórn sé þingbundin“.

Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórninni

 • Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra (90. gr., 5. mgr.).
  • Staðfestir ábyrgð forsætisráðherra á allri ríkisstjórninni og starfi hennar gagnvart Alþingi. Núg. stjórnarskrá segir forseta „skipa ráðherra“, en það er markleysa eins og margt annað um embætti forsetans.
 • Ríkisstjórn er samábyrg um helstu athafnir ráðherra (87. gr., 3. mgr.).
  • Ráðherrar geta ekki leikið lausum hala. Ábyrgðarskiptingin er afar grautarleg í gildandi stjórnarskrá og túlkun á henni.

Alþingi ekki undir hæl ríkisstjórnar

 •  Ráðherrar sitja ekki á Alþingi (89. gr., 3. mgr.).
  • Nýmæli til að skerpa skil löggjafar- og framkvæmdarvalds. Styrkir stöðu Alþingis. Ýtir undir val á ráðherrum á faglegum forsendum.
 • Valdatími ráðherra takmarkaður við tvö kjörtímabil (86. gr., 3. mgr.).
  • Ráðherrar geta ekki vera með þaulsetur í ráðherrastólum. Góð ráðherraefni geta þó á lengri tíma fikrað sig upp stigann og endað sem forsætisráðherrar.

Alþingi getur hvenær sem er sagt ríkisstjórninni upp

 • Þingið getur fyrirvaralaust skipt um forsætisráðherra (91. gr. 1. mgr.).
  • Það er varnagli gegn stjórnleysi að vantrausti á forsætisráðherra verður að fylgja val á eftirmanni. Nýmæli sem hefur reynst vel erlendis.
  • Með brotthvarfi forsætisráðherra fer öll ríkisstjórnin. Núg. stjórnarskrá er þögul um þetta eins og margt annað.
 • Þingið getur lýst vantrausti á einstaka ráðherra og verða þeir þá að hverfa úr starfi (91. gr., 2. mgr.).
  • Ekkert er um þetta í gildandi stjórnarskrá en talin hefð. Orðið „vantraust“ er ekki nefnt í þeirri grundvallarskrá þjóðfélagsins sem nú gildir.

Aftur til þjóðarinnar

 • Kjósendur geta haft beina aðkomu að lagasetningu (65.-67. gr.).
  • Þjóðin getur gripið inn í störf Alþingis þyki henni eitthvað fara úr skorðum.

Það er engum vafa undirorpið hvernig þetta valdaferli á að vera að mati stjórnlagaráðs. Alþingi, sem starfar í umboði þjóðarinnar, er þungamiðjan. Ríkisstjórn er verkfæri Alþingis til að framkvæma það sem gera skal.

 

Comments are closed.