Skip to content

Hvernig á að spyrja um stjórnarskrá?

Höfundur: Þorkell Helgason, April 30th, 2012

Nú er sagt að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hyggist leggja til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram í lok september og um leið verði spurt sérstaklega um tiltekin álitamál. Eins og ég hef þegar sagt í tveimur blaðagreinum og nokkrum pistlum á þessari vefsíðu minni er ég efins um þessa leið til að fá fram vilja þjóðarinnar og fremur bent á atkvæðagreiðslu á e.k. þjóðfundi.

En verði af umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu er áríðandi að vandað sé til spurninganna. Þegar málið var síðast í umræðunni í marslok s.l. sendi ég þingnefndinni erindi sem hér fylgir sem pdf-skjal:  UmÞjóðaratkvæðiÞHGerð28mars. Þar lagði ég til annað upplegg á spurningunum. Nefndarmeirihlutinn breytti spurningunum og liggja þær nú fyrir sembreytingartillaga á þingskjali 1098. Mér finnast þær enn loðnar og villandi og nefni ég sérstaklega þessar:

3.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

4.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Þriðja spurningin sker sig úr hvað það varðar að hún er sú eina sem svara verður með „nei“ sé kjósandinn sammála tillögum stjórnlagaráðs, en í þeim eru ekki sérstök ákvæði um þjóðkirkju utan að sagt er að kveða megi á um kirkjuskipanina í almennum lögum. Því er þó haldið óbreyttu að breyting á skipaninni kalli á samþykki í þjóðarinnar.

Fjórða spurningin er veikt orðuð og tekur ekki mið af tillögu stjórnlagaráðs. Í spurningunni er kveðið á um „heimild“ í stjórnarskrá til að setja megi í lög ákvæði um persónukjör „í meira mæli en nú er“. Það þarf enga stjórnarskrárheimild til þessa, sbr. t.d. stjórnarfrumvarp um víðtækt persónukjör sem legið hefur fyrir Alþingi, en dagað uppi – eins og margt annað. Tillaga stjórnlagaráðs gengur mun lengra og kveður á um „skyldu“ til að setja markvisst persónukjör í kosningalög.

Af þessum sökum tel ég að gera þurfi að lágmarki eftirfarandi breytingar á ofangreindum spurningum:

3.    Vilt þú að staða þjóðkirkjunnar verði ákveðin í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá?

4.    Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði mælt fyrir um persónukjör í kosningum til Alþingis? 

Comments are closed.