Það þarf stjórnlagadómstól til að sporna við gerræði
[Birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2015.]
Undanfarna daga hefur verið deilt um grundvallarþætti lýðræðisins, um þingræðið og framkvæmdarvaldið í tilefni þess að ríkisstjórnin hefur – að því er virðist – afturkallað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Hefur hún rétt til að gera þetta upp á sitt eindæmi eða þarf hún að leita fulltingis Alþingis? Hér verður ekki farið út í efni þessa einstaka tilviks heldur einblínt á lýðræðisþátt málsins.
Deilur af þessum toga væru í mörgum lýðræðisríkjum útkljáðar fyrir stjórnlagadómstóli. Af alræmdu tilefni ruddu Þjóðverjar brautina eftir stríð og settu á laggirnar stjórnlagadómstól sem vakir yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Síðan hafa fjölmörg Evrópuríki fetað í fótspor þeirra, ekki síst hin nýju lýðræðisríki í Austur-Evrópu.
Vitaskuld verður ekki stjórnlagadómstól komið á nema með breyttri stjórnarskrá. Atvikin undanfarið ættu að sýna okkur hve brýnt er að koma nýrri stjórnarskrá í höfn. Hvers vegna? Forseti þýska stjórnlagadómstólsins hefur svarað þessu skorinort. „Frelsi og lýðræði án stjórnarskrár er óhugsandi,“ sagði dómsforsetinn og bætti við að stjórnarskrá væri handa minnihlutanum. Meirihluti sem ekki byggi við aðhald gæti leiðst til að kúga minnihlutann. Þess vegna þyrfti óvefengjanleg grunnréttindi, þess vegna þyrfti að tjóðra stjórnmálin með réttarreglum og þess vegna væri nauðsynlegt að hafa dómstól, stjórnlagadóm, sem gætti þess að farið væri að grunnreglunum.
Stjórnlagaráð tók að nokkru á þessum vanda og vildi koma á sérstakri úrskurðarnefnd, Lögréttu, sem vísi að stjórnlagadómstól. Trúlega þarf að ganga lengra. Það mætti hugsanlega gera í tengslum við þá áformuðu breytingu á dómskerfinu að koma á millidómstigi. Þá verður Hæstarétti lyft á hærri stall og kynni hann því að geta tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls. En grundvöllurinn verður að vera traustur og byggjast á stjórnarskrárákvæði.
Lærum af reynslunni. Treystum lýðræðið – með endurbættri stjórnarskrá.
Comments are closed.