Skip to content

Þurfum við ríkisstjórn?

Höfundur: Þorkell Helgason, October 31st, 2016

Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi –  að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.

„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.

Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.

Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.

Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði  þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!

 

Comments are closed.