Þingkosningar í Grikklandi 2023 með bónuskerfi!
Sagt hefur verið í íslenskum fjölmiðlum frá tvennum þingkosningum í Grikklandi á þessu sumri. Þær fréttir hafa verið nokkuð villandi svo að mig langar að útskýra málið stuttlega:
Um nokkurt árabil kváðu grísku kosningalögin á um að sá flokkur eða flokkabandalag sem flest fær atkvæði skuli möglunarlaust fá 50 bónussæti, sem eru til viðbótar við 250 sæti sem deilt var út hlutfallslega (með 3% þröskuldi). Hugsunin var væntanlega sú að hvetja flokka til að slá sér saman fyrir kosningar til að ná í bónusinn. Jafnframt væri þá auðveldara að mynda meirihlutastjórn.
Þetta bónuskerfi var afnumið fyrir kosningar 2016 en aftur tekið upp 2022 (2020 segja sumar heimildir) en nú í breyttri mynd: Sá flokkur (eða bandalag), sem fær flest atkvæðin yfir 25%, fær 20 sæti í bónus og bætir svo við sig einu sæti fyrir hvert hálft prósent í viðbót þar til hann hefur náð 50 bónussætum við 40% fylgi eða meira, sem eru þá sem fyrr 50 af alls 300 sætum.
En skv. ákvæðum í stjórnarskrá um gildistöku kosningalagabreytinga gátu þessi lög ekki orðið virk fyrr en í öðrum kosningum eftir að lögin voru sett. Í fyrri kosningunum í ár, þ.e. 21. maí 2023, giltu því fyrri lög án bónussæta. Hægri flokkur Mitsotakis varð stærstur og gat vísvitandi þvælst fyrir stjórnarmyndun svo að kjósa varð aftur 25 júní. Þá fékk flokkurinn ámóta fylgi og í fyrri kosningunum, rétt rúm 40% og krækti því í öll bónussætin og þar með meirihluta á þingi!
Leifur heitinn Ásgeirsson, fyrsti stærðfræðiprófessor landsins, sagði mér á sínum tíma að hann hefði fundið í einhverju fræðiriti að kosningalögum sé að jafnaði ekki breytt nema til hagsbóta fyrir ráðandi öfl. Mér finnst þarna full djúpt tekið í árinni. Mildari gerð á kannski við hér á landi: Kosningalögum verður ekki breytt nema með samþykki ráðandi afla.
Heimildir:
https://www.kas.de/de/laenderberichte/detail/-/content/griechenland-waehlt-ein-neues-parlament
https://en.wikipedia.org/wiki/May_2023_Greek_legislative_election
Comments are closed.