Skip to content

Þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá eða ekki?

Höfundur: Þorkell Helgason, November 25th, 2010

Allmargir kjósendur hafa spurt mig um afstöðu mína til þjóðkirkjuákvæðis stjórnarskrárinnar.

Í grundvallaratriðum tel ég óeðlilegt að fjallað sé um einstök trúfélög í stjórnarskránni. Eðlilegt er að trúfrelsi borgaranna og jafnræði trúfélaga sé tryggt í mannréttindakafla hennar. Að mínu mati eiga trúmálin fyrst og fremst heima á þeim vettvangi.

Á hinn bóginn er þjóðkirkjan svo samofin íslensku samfélagi og menningarlífi að taka verður tillit til þess við alla ákvarðanatöku í málinu. Ekki má heldur gleyma því að grunngildin sem stjórnarkrá okkar byggist á og grunngildi kristinnar trúar fara saman. Þessi gildi eru ekki tilgreind í stjórnarskránni. Væntanlega hafa þeir sem mótað hafa stjórnarskrána ekki talið þörf á því m.a. með vísan til kristinnar undirstöðu hennar. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að slík grunngildi eigi að festa í stjórnarskránni sjálfri.

Í 2. mgr. 79. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um að sérhverja breytingu á „kirkjuskipun ríkisins“, þ.e. 62. gr., skuli bera undir þjóðaratkvæði. Mér finnst því við hæfi að leita beint til þjóðarinnar um þetta mál, annað hvort um leið og ný eða endurbætt stjórnarskrá yrði borin undir þjóðaratkvæði, sem verður að gerast, eða síðar. Ég sé fyrir mér að þjóðin veldi um þrjá kosti:

  1. Óbreytta skipan þjóðkirkjunnar, þ.e. 62. gr. efnislega óbreytt.
  2. Sérákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé alfarið fellt brott, þ.e. afnám 62. gr.
  3. Millileið, og mætti þá leita í smiðju annarra Norðurlanda einkum Svía um fyrirmynd, en þar hefur ríkið gert eins konar þjónustusamning við kirkjuna.

Allt kallar þetta á rækilega umfjöllun á stjórnlagaþingi og nái ég kjöri mun ég leita eftir sátt í þessu máli sem og öðrum.

Ég vil taka það fram að málið er mér skylt. En mjög er kallað eftir því að frambjóðendur upplýsi um „hagsmunatengsl“ sín eins og það er gjarnan nefnt. Málvextir eru þeir að kona mín sáluga, Helga Ingólfsdóttir, stóð að Sumartónleikum í Skálholtskirkju í 30 sumur og þar var ég henni ávallt til aðstoðar. Í Skálholti var okkar annað heimili og staðurinn er mér mjög kær.

Comments are closed.