Skip to content

Var hægt að rekja kjörseðla til kjósenda?

Höfundur: Þorkell Helgason, January 31st, 2011

[Pistill þessi var saminn 31. janúar 2011 en ekki birtur fyrr en 16. apríl s.á.]

Hæstaréttur segir í ákvörðun sinni um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings um tvö atriði að þau séu “verulegur annmarki á kosningunni”. Annað þessara atriða er að auðkenning á seðlunum geti leitt til þess rekja megi kjörseðlana til kjósenda.

Rétturinn víkur ekki einu orði að því í ákvörðun sinni hvers vegna nauðsynlegt var að auðkenna seðlana. Rafrænn talning, þ.e. úthlutun sæta, er næsta óhjákvæmileg með þeirri kosningaraðferð sem lögin um stjórnlagaþing kveða á um. Svo væri einnig þótt öðrum aðferðum hefði verið beitt, svo sem merkingu við fleiri en einn frambjóðenda með krossi, prófkjörsaðferðinni o.s.frv. Seðlarnir voru auðkenndir til að unnt væri á talningarstað að rekja saman kjörseðla og hina rafænu mynd þeirra og samlesa þegar vafi lék á því að tækin hefðu lesið rétt. Þetta er alls staðar gert þar sem talið er með rafrænum hætti. Þetta væri líka nauðsynlegt þótt innlestur væri ekki með skönnun heldur atkvæðin slegin inn eins og líka kom til álita að gera. Það hefði vissulega verið betra að að þessi auðkenni hefðu verið sett á seðlana fyrst á talningarstað áður en seðlarnir voru skannaðir.

En rétturinn stóð frammi fyrir því að seðlarnir voru auðkenndir fyrir fram. Hvað segja dómararnir þá? Hér er orðrétt það sem segir í 3. mgr. kafla VI.1 ákvörðunar Hæstaréttar þar sem niðurstaða er um þetta atriði. Skotið er inn númerum milli hornklofa á undan málsliðum til að unnt sé að vísa til þeirra í umsögn hér á eftir.

Við ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, nú innanríkisráðuneytis, á því hvernig auðkenningu kjörseðla skyldi hagað á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 90/2010, sbr. 2. gr. laga nr. 120/2010, varð að taka fullt tillit til þess að samkvæmt 4. gr. laganna skyldi kosningin vera leynileg. [1] Eins og skýrt er tekið fram í athugasemdum frumvarpsins átti kjörseðill ekki að vera rekjanlegur til kjósanda. [2] Alkunna er að sú aðferð er oft viðhöfð við að stemma af fjölda kjósenda sem komið hafa í kjördeild að rituð eru nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir koma og greiða atkvæði. [3] Þar sem upplýst hefur verið að kjörseðlarnir voru ekki aðeins strikamerktir heldur einnig merktir númerum sem voru í samfelldri hlaupandi töluröð var í reynd afar auðvelt að færa upplýsingar samhliða nöfnum kjósenda þannig að rekja mætti til númera seðla sem þeir höfðu fengið. [4] Verður að telja að ákvörðun um að haga númeramerkingu seðlanna með þeim hætti sem hér hefur verið lýst hafi farið í bága við lokaákvæði 4. gr. laga nr. 90/2010 um leynilegar kosningar, en það er í samræmi við grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar um opinberar kosningar, sbr. 5. gr., 26. gr., 1. mgr. 31. gr. og 2. mgr. 79. gr. hennar. [5] Verður að telja þetta verulegan annmarka á framkvæmd kosninganna, ekki síst í ljósi þess, eins og nánar verður vikið að síðar, að telja bar atkvæði fyrir opnum dyrum og að viðstöddum fulltrúum samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 24/2000.

Skal nú vikið að þeim atriðum sem hér eru auðkennd innan hornklofa:

[2]: Hvaðan hafa dómararnir það að “alkunna sé að … rituð eru nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir koma og greiða atkvæði”? Láta þeir duga lítt rökstudda fullyrðingu eins kæranda um að slíkt hafi tíðkast einhvers staðar. Við þetta kannast engir þeir kjördeildarmenn sem ég hef haft spurnir af. Enda væri slíkt athæfi trúlega brot á lögum um kosningar til Alþingis svo og til stjórnlagaþings.

[3]: Vissulega hefði verið unnt að skrifa niður í kjördeildum beint eða óbeint hvaða kjósandi fékk hvaða seðlinúmer. En sem fyrr væri það augljóst lögbrot.

[1]: Hvar í röksemdafærslu Hæstaréttar er sýnt fram á að kjörseðillinn hafi verið rekjanlegur til kjósenda án bersýnilega sviksamrar hegðunar af hálfu kjörstjórnarmanna? Hvergi.

[4]: Hvað svo, þótt þeir væru rekjanlegir í þeim skilningi að hægt væri (með glæpsamlegi athæfi) að komast að hvaða seðilnúmer tiltekinn kjósandi fékk? Hvernig átti þá að finna hvernig atkvæði var greitt á þessum seðli? Hæstiréttur botnar ekki röksemdafærslu sína. Þar með er hún marklaus.

[5]: Með öllu er óskiljnalegt hvað hér vakir fyrir dómurunum. Hér er rekjanleikinn einhvern veginn tengdur við það að trúnaðarmenn hefðu átt að vera viðstadddir talninguna, samtímis því sem kvartað er yfir því að þeir hafi ekki verið viðstaddir. Hvers konar rökleysu getur rétturinn leyft sér!

Skal nú fjallað um þetta kæruatriði í heild, það hvort auðkenning seðlanna hefði svipt kjósendur kosningarleynd.

Hvernig hefði mátt rekja það hvernig einstakir kjósendur vörðu atkvæði sínu? Til þess hefðu a.m.k. tveir opinberir ábyrgðarmenn þurft að fremja alvarleg lögbrot:

  1. Fyrst hefði kjörstjórnarmaður í kjördeild þurft að skrá hjá sér, beint eða óbeint, seðilnúmer þess kjósenda sem hann vildi njósna um.
  2. Í öðru lagi hefði kjörstjórnarmaðurinn að þurft að setja sig í samband við einn þeirra örfáu trúnaðarmanna landskjörstjórnar sem gátu haft aðgang að hinum rafræna gagnagrunni með kjörseðlunum.
  3. Þessi tengill á talningarstað hefði síðan þurft að hafa upp á umræddum seðli og ljóstra upp um hvernig atkvæðinu var varið og koma þeim upplýsingum út fyrir talningarstaðinn.

Aðrar leiðir til að nýta seðilnúmerin til að komast að því hvernig atkvæði hefði verið varið eru langsóttari. Hefði kjörstjórnarmaður getað vaðið í kjörkassa þegar á kjörstaðnum og fundið þann seðil sem hann hafði númerið á? Ekki án þess að séð hefði á kassanum og innsigli hans.

Allt þetta hefði verið lögbrot sem varðaði væntanlega við hegningarlög, sbr. ákvæði 124. gr. um kosningar til Alþingis en í þá lagagrein er m.a. vísað í lögum um stjórnlagaþing. Í 124. gr. fyrrgreindu laganna segir: “Það varðar sektum, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana.”

Vissulega gætu auðkenni seðlanna gert auðveldara en ella að rekja kjörseðla. En til þess hefði þurft samsæri að lágmarki tveggja embættismanna eins og að ofan greinir. Sé eindreginn brotavilji fyrir hendi er vitaskuld margt hlægt að gera. Einfaldasta leiðin til njósna er að koma vefmyndavél fyrir í rjáfri kjörstaðar sem beinir linsu sinni beint ofan á kjörborðið. Þar sem ég kaus í frægu íþróttahúsi á Álftanesi hefði nánast hver sem var getað hengt upp slíka myndavél í rjáfrið fyrir kosningardaginn án þess að eftir því væri tekið. Þá hefði lítið gagnað þótt unnt væri að draga tjald fyrir kjörklefanna, nema haft væri þak á klefunum!

Það verður seint komið í veg fyrir lögbrot en við verðum að treysta því eiðsvarna fólki sem sér um framkvæmd kosninga. Ella mætti ógilda allar kosningar með því einu að menn með einbeittan brotavilja geta alltaf svindlað. Einmitt það er hættan við ákvörðun Hæstaréttar. Héðan í frá má tortryggja allar kosningar og fá þær ógiltar á grunsemdum einum.

Comments are closed.