Skip to content

Forsetinn njóti stuðnings meirihlutans

Höfundur: Þorkell Helgason, March 4th, 2011

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 4. mars 2011]

Aðeins einn af forsetum lýðveldisins hefur náð stuðningi meirihluta kjósenda við fyrstu kosningu í embættið. Það gerði Kristján Eldjárn í forsetakosningunni 1968 er hann hlaut nær tvo þriðjuhluta atkvæða, en þar ber þó að hafa í huga að hann hafði einungis einn mótframbjóðanda. Yfirlit yfir stuðning við kjörinn forseta er sýnt í 1. töflu:

1. tafla.          Fylgi kjörinna forseta við fyrstu kosningu.
Forseti Kosningaár Hlutfall af gildum atkvæðum Tala mótfram-bjóðenda
Sveinn Björnsson 1944 Var þingkjörinn
Ásgeir Ásgeirsson 1952 48,3% 2
Kristján Eldjárn 1968 64,3% 1
Vigdís Finnbogadóttir 1980 33,8% 3
Ólafur Ragnar Grímsson 1996 41,4% 3

 

Samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar telst sá rétt kjörinn forseti sem fær flest atkvæði. Þessi regla býður upp á það að frambjóðandi geti náð kjöri þótt hann njóti einungis stuðnings lítils minni hluta kjósenda. Það væri ankannaleg niðurstaða ekki síst ef litið er til þess hvernig forsetaembættið og völd forseta hafa þróast í embættistíð núverandi forseta.

Æskilegt verður að teljast að forseti njóti ótvíræðs stuðnings meirihluta kjósenda. Sums staðar tíðkast að endurtaka slíkt kjör ef enginn frambjóðandi nær meirihluta. Er þá að jafnaði kosið á milli tveggja efstu manna á ný. Til er einfaldari aðferð að sama marki. Hún er sú að sameina þetta í einni kosningu með því að beita forgangsröðunaraðferð. Kjósendur raða þá frambjóðendum í forgangsröð. Fái enginn þeirra meirihluta er sá sem fær minnst fylgi að fyrsta vali kjósenda dæmdur úr leik og atkvæði hans færð til hinna í samræmi við annað val viðkomandi kjósenda, og svo framvegis allt þar til meiri hluti liggur fyrir. Þetta er sama aðferð og beitt var í stjórnlagaþingskosningunni alræmdu s.l. haust, nema hvað frambjóðendur verða vart 522 eins og þá.

Írar hafa um langan aldur notað þessa aðferð í öllum almennum kosningum, þar á meðal í forsetakosningum. Einu sinni hefur reynt á það á Írlandi að sá forsetaframbjóðandi sem fékk flest atkvæði að fyrsta vali, en þó ekki meirihluta, náði samt ekki kjöri. Þetta dæmi er rakið í 2. töflu.

 

2. tafla. Forsetakosning á Írlandi 1990.
Frambjóðandi Atkvæði
að 1. vali
Færð atkvæði Atkvæði
í 2. talningu
Austin Currie 267.902 -267.902 0
Brian Lenihan 694.484 36.789 731.273
Mary Robinson 612.265 205.565 817.830

 

Brian Lenihan hlaut vissulega flest atkvæði í fyrstu, en kjósendur Austin Currie gerðu  útslagið. Velflestir þeirra tóku Mary Robinson fram yfir Brian Lenihan svo að það var Mary sem náði kjöri en ekki Brian. Trúlega hefði það sama orðið upp í teningnum ef kosið hefði verið aftur á milli þeirra tveggja.

Í forsetakosningunni hér á landi árið 1996 féllu atkvæði eins og í sýnt er í 3. töflu.

3. tafla. Forsetakosning 1996.
Frambjóðandi Gild atkvæði Hlutfall af gildum atkvæðum
Ástþór Magnússon Wium 4.422 2,7%
Guðrún Agnarsdóttir 43.578 26,4%
Ólafur Ragnar Grímsson 68.370 41,4%
Pétur Kr. Hafstein 48.863 29,6%

 

 

 

 

 

 

Hefði valið á forseta orðið annað með forgangsröðunaraðferð, eða ef forsetakjörið hefði farið fram í tveimur umferðum þar sem kosið hefði verið á milli þeirra Ólafs Ragnars og Péturs Kr. í seinni umferð? Því verður ekki svarað eftirá.

Forgangsröðunaraðferðin tryggir að réttkjörinn forseti njóti meirihluta stuðnings kjósenda og sneiðir hjá ókostunum við kjör í tveimur umferðum sem eru m.a. eftirfarandi:

  • Kostnaður við tvær kosningar.
  • Áhugaleysi almennings á þátttöku í báðum umferðunum. Sé t.d. talið ljóst að engin muni ná kjöri í þeirri fyrri og einsýnt hverjir nái að vera í kjöri í þeirri seinni, kunna kjósendur að bíða seinni umferðarinnar.
  • Flokkadrættir og hrossakaup frambjóðenda eftir fyrri kosninguna, þar sem hinir tveir efstu kunna að biðla með óviðeigandi hætti til stuðningsmanna þeirra sem eru úr leik.

Þess má geta að breska ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir þjóð sína að valið verði á milli frambjóðenda í einmenningskjördæmunum, eins og þar tíðkast, með þessari sömu forgangsröðunaraðferð.

Kjörtímabili forseta Íslands líkur á næsta ári. Að öllum líkindum fer þá fram forsetakosning. Hvað svo sem verður um breytingar á stjórnarskrá er næsta víst að þetta forsetakjör verður með óbreyttum hætti. Munum við þá áfram búa við forseta án meirihlutastuðnings? Hvernig svo sem það fer er ljóst að ákvæði 5. gr. stjórnarskrárinnar um forsetakjör er eitt af þeim mörgum um ákvæði stjórnarskrárinnar sem þarfnast skoðunar.

Höfundur þessa pistils lagði á árinu 2006 þessa hugmynd um forsetakjör með forgangsröðun fyrir stjórnarskrárnefnd sem þá var að störfum.

Comments are closed.