Stjórnarskráin verður að vera þjóðinni hjartfólgin
[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 1. apríl 2011]
Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Eftir langan aðdraganda og ýmis skakkaföll hefur Alþingi nú falið sérstöku Stjórnlagaráði, skipuðu 25 konum og körlum, það verkefni að semja frumvarp að nýjum sáttmála utan um þjóðskipulag okkar. Stjórnlagaráðið er nú fullskipað og tekur til starfa í næstu viku. Ég er einn þeirra sem hafa tekið sæti í ráðinu.
Nú er lag
Vissulega þurftum við að spyrja okkur ýmissa samviskuspurninga áður en við þáðum boð um setu í ráðinu, ekki síst í ljósi úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningar til Stjórnlagaþings. Bent hefur verið á alvarlegar rökvillur í þeim úrskurði en ákvörðun dómaranna var engu að síður endanleg. Við sem munum sitja í Stjórnlagaráði berum hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til úrskurðarins né heldur á þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Við höfum einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem okkur er falið. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þetta má lesa út úr talningu landskjörstjórnar sem Hæstiréttur hefur ekki borið brigður á. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.
Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.
Ákvörðun mín um að taka sæti í ráðinu byggðist ekki síst á því að nú býðst langþráð tækifæri. Gangi það okkur úr greipum er hætt við að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert minna vera. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.
Snúa þarf að við blaðinu
Ónot eru í mörgum landsbúum yfir ásigkomulagi þjóðarinnar nú rúmum tveimur árum eftir hrunið mikla. Væntingar um breytt og bætt þjóðfélag í kjölfar hrunsins voru miklar. Öndvert við það sem gerst hefur víða annars staðar tók almenningur á sig verulega kjaraskerðingu nánast möglunarlaust, enda vissu allir að svokallað góðæri árin á undan hruninu var byggt á sandi. Vissulega hefur margt áunnist þessi tvö erfiðu ár. Tekist hefur að hemja afleiðingar hrunsins og atvinnuleysi varð ekki eins mikið og óttast var. En siðbótin hefur látið standa á sér. Enn er beðið eftir því að sannleikurinn um forkólfa hrunsins verði dreginn fram í dagsljósið fyrir dómstólum. Sumir þeirra sem gengu frjálslega um fjárhirslur bankanna eru aftur farnir að berast mikið á. Mörgum finnst verklag hjá stjórnvöldum og á Alþingi lítt hafa breyst til batnaðar. Svo mætti lengi telja.
Það er í þessu umhverfi sem Stjórnlagaþing hefst handa við að betrumbæta stjórnarskrána. Vonandi fagna flestir þessu skrefi, en svo eru öfl sem reyna að gera starfið tortryggilegt. Það verður því á brattann að sækja. Við sem höfum tekið verkefnið að okkur verðum að reynast trausts verð, við verðum að vinna þannig að sómi sé að og skila frá okkur lokaskjali sem hljóti hylli þjóðarinnar. Að þessu verðum við verðum við að einbeita okkur.
Comments are closed.