Um bestu aðferðir við úthlutun þingsæta
Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.
Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.
Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.
Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.
Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.
Comments are closed.