Skip to content
Flokkar

,

Stjórnarskrá verður ekki til með krossaprófi

Höfundur: Þorkell Helgason, November 13th, 2010

DV.is á allt gott skilið fyrir að sinna kosningunni til stjórnlagaþings, einn fárra fjölmiðla. Á hinn bóginn hef ég miklar efasemdir um þá aðferð að setja frambjóðendur í krosspróf þar sem þeim er ætlað að taka með afar einföldum og yfirborðskenndum hætti afstöðu til meginþátta í gerð stjórnarskrár. Góð stjórnarskrá verður aldrei til með þeim hætti. Ef svo væri þá þyrfti ekkert stjórnlagaþing heldur dygði að leggja krossaprófið fyrir almenning og láta svo ritnefnd sjá um afganginn. Úr því yrði álíka afurð og þegar nefnd samdi píanókonsert á dögum menningarbyltingarinnar í Kína.
Ég hef sem frambjóðandi engu að síður svarað spurningum DV eftir mikið hik. Hvað gerir ekki frambjóðandi til að falla ekki utangarðs? En ég vara við að afstaða mín til grundvallarmála er margbrotnari en svo að henni verði lýst með hætti þessa spurningaleiks. Nægir að nefna þingræðið og samspil þess við forseta og ríkisstjórn. Fyrirkomulag kjördæma og kosninga er annað mál sem verður með engu móti svarað með jáum og neium. Enn annað dæmi eru samskipti ríkis og kirkju. Segi menn að þeir vilji aðskilnað er sagan ekki öll sögð.
Megingallinn við þessa aðferð til að finna frambjóðanda við hæfi er að svörin segja ekkert um persónuna. Er frambjóðandinn trausts verður? Býr hann yfri þekkingu, reynslu, innsæi eða öðru því sem að gagni má koma? Hverju á frambjóðandi eins og ég að svara ef hann leggur áherslu á góða samvinnu á stjórnlagaþingi og er fús að hlusta, taka rökum og skipta um skoðun?
Ég skora á kjósendur að kynna sér frambjóðendur og falla ekki í þá gryfju að reiða sig á spurningakeppnir.

Comments are closed.