Öllum til hagsbóta að ná sáttum við þjóðina um kvótakerfið
[Eftirfarandi pistill birtist í tímaritinu Sjávarafli, ágústhefti 2015, bls. 4. Texti greinar minnar fylgir hér á eftir. Þar á eftir birtist forsíða tímaritsins og fæst þá aðgangur að heftinu um leið.]
Vart er lengur um það deilt að stjórna þarf aðgengi að takmörkuðum auðlindum eins og fiskistofnum. Takmörkun á veiðinni getur verið með ýmsu móti en flestir hag- og fiskifræðingar telja að aflakvótakerfi sé skilvirkasta aðferðin í því skyni.
Kvótunum var upphaflega úthlutað ókeypis en hafa síðan gengið kaupum og sölum. Það hefur þjóðin ekki getað sætt sig við – og gerir ekki enn, að mati greinarhöfundar. Því hefur útgerðin ekki getað notið til fulls kosta kvótafyrirkomulagsins og eilíft búið við óvissu um framtíð þess. Ástæðan er sú að það skortir siðferðilegan grundvöll undir kvótakerfið, grundvöll sem bæði þjóðin og þeir sem að sjávarútvegi starfa geta við unað.
Makrílmálið angi af sama meiði
Í vor leið var lagt fram stjórnarfrumvarp um úthlutun makrílkvóta með því nýmæli að kvótum skyldi ekki lengur úthlutað til eins árs í senn án frekari skuldbindinga. Í þess stað skyldi úthlutunin vera ótímabundin nema hvað stjórnvöld gætu afturkallað hana, en til þess þurfi sex ára aðdraganda. Eigi að segja ákvæðinu upp þurfi því meiri hluti á Alþingi að vera sama sinnis í tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð. Það væri því jafnvel erfiðara að afturkalla makrílúthlutunina en að breyta sjálfri stjórnarskránni.
Hrundið var af stað undirskriftasöfnun til að hindra framgang þessa máls og skrifuðu yfir 53 þúsund kjósendur undir áskorun til „forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Fjöldi þeirra sem skrifaði undir eru um 22% kosningabærra manna í landinu.
Makrílfrumvarpið var ekki smámál um smáan fisk heldur kynni það að ryðja brautina að endanlegri einkavæðingu fiskimiða við Íslandsstrendur. Því var frumvarpið ógæfuspor. Sjávarútvegsráðherra hlustaði á rökin og dró frumvarpið til baka, enda mun það ekki hafa verið ætlun hans að festa makrílúthlutunina í sessi, heldur hið gagnstæða. Fyrir þetta á hann hrós skilið.
Siðlegur grunnur kvótakerfisins
Nú þarf að vinna að varanlegri lausn sem tryggir gott kvótakerfi, en þá verður ekki undan því vikist að stjórnarskrárbinda ákvæði um raunverulega þjóðareign á sameiginlegum auðlindum; tryggja jafnræði í aðgengi að þeim og eðlilegt gjald fyrir afnot þeirra.
Ekki er sanngjarnt að innkalla kvótana fyrirvaralaust. Það er til millileið sem í senn tryggir fyllstu hagkvæmni, stóreykur jafnræði í aðgangi að veiðunum og veitir núverandi útgerðum og þar með kvótahöfum eðlilega aðlögun um leið og tekið er tillit til forsögunnar.
Þessi leið hefur lengi legið fyrir. Í henni er gengið út frá núverandi stöðu, þ.e.a.s. þeirri að kvótarnir eru, þegar af stað er lagt, í höndum tiltekinna útgerða. Aflahlutdeildum er síðan endurúthlutað nær óbreyttum frá ári til árs en þó skertar lítillega í hvert sinn, segjum 8% á hverju ári. Þau 8% eru síðan seld á opinberu uppboði og lúta sömu skerðingarákvæðum. Þeir sem vilja hefja útgerð geta því aflað sér kvóta á þessum uppboðsmarkaði. Þeir sem fyrir eru og vilja halda sínum hlut óskertum þurfa árlega að kaupa það sem nemur skerðingunni.
Sýna má fram á með hefðbundnum núvirðisreikningum að þessi leið fetar þann meðalveg að núverandi kvótahafar og þjóðin skipta á milli sín verðmæti aflahlutdeildanna nokkurn veginn til helminga. Það sem meira er þá ætti útgerðin að vera betur sett með slíkt kerfi en pólitískt ákvarðað veiðigjald á grundvelli hæpinna útreikninga og sífellda óvissu um framtíð alls kerfisins. Pólitísk verðlagning gæða heyrir til sögu haftáranna um og upp úr miðri s.l. öld en er nú tímaskekkja sem stingur í stúf við þann markaðsbúskap sem vel hefur reynst.
Í huga greinarhöfundar er ekki aðalatriðið hvort slíkt kerfi skilar eiganda fiskauðlindarinnar, þjóðinni, meiru eða minna í vasann en núverandi veiðigjöld, heldur það að jafnræði sé komið á og markaður en ekki pólitík ákvarði hvert afnotagjaldið skuli vera. Um leið er sanngjarnt að sá auðlindaarður, sem þannig er innheimtur, renni a.m.k í byrjun, í mestum mæli til þeirra byggða þaðan sem útgerð er stunduð. Þar má nota féð til að styrkja búsetu með ýmsum hætti. Þetta er betri leið en flókin útfærsla byggðakvóta, löndunarkvaða eða annarra kúnsta í margslungnu kerfi.
Niðurstaðan er sú að festa þarf kvótakerfið í sessi sjávarútveginum og þjóðinni til hagsbóta. En þetta verður aðeins gert þannig að fólki finnist ekki að verið sé að afhenda verðmæti til meintra útvalinna án eðlilegs endurgjalds. Markaðsfyrirkomulag er hlutlaus leið að þessu marki.
Þorkell Helgason, áhugamaður um sanngjarnt kvótakerfi