Forsmánin við Skálholtskirkju og fjóspúkarnir á bitanum

[Birtist í visir.is og í styttri gerð í Fréttablaðinu 15. júlí 2014.]

 

 

clip_image002

VINIR SKÁLHOLTS SKRIFA:

Í Fréttablaðinu 8. júlí sl. er hálfkveðin „frétt“ um svokallað Þorláksbúðarmál. Skýrt er frá því að kirkjuráð hafi ákveðið að „lána“ Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir kr. og gefa eina milljón að auki til að félagið geti gert upp skuld við smið byggingar þeirrar sem hefur verið reist yfir rúst svokallaðrar Þorláksbúðar. Smiðurinn er verður launa sinna eftir að hafa verið vélaður til verksins á sínum tíma.

Árni Johnsen, sem er eins konar forystusauður svonefnds Þorláksbúðarfélags, segir að félagið hafi verið í fjárþröng vegna þess að „fjóspúkar á bitanum“ hafi haldið uppi harðri gagnrýni á verkefnið. Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, tekur í sama streng og kennir gagnrýnendum um fjárskort félagsins. Þess vegna hafi kirkjuráð lánað félaginu og vonast hún nú til að þeir finnist sem leggja vilja fé af mörkum, en bætir við að seinna meir verði hægt að „leita til ríkisins“. Hve oft hefur ekki hið opinbera þurft að greiða óreiðuskuldir ævintýramanna. Nú á að bæta þar við.

Það er rétt að við undirritaðir, og margir aðrir, höfum barist gegn því að umrædd smíð rísi þétt upp við Skálholtskirkju og tökum því það til okkar að vera fjóspúkar í augum Árna. Hvað höfum við á móti framkvæmdinni?

  • Sögulegt gildi nýrrar Þorláksbúðar er ekkert. Engar heimildir eru fyrir því að tóftin tengist Þorláki biskupi. Nafngiftina Þorláksbúð er fyrst að finna á 16. öld, mörgum öldum eftir daga Þorláks og tilgátuhúsið, sem risið er ofan á tóftina, á sér enga sögulega fyrirmynd.
  • Með þeirri yfirbyggingu tóftarinnar er friðuðum fornleifum spillt, sem er óheimilt. Væri tóftin í raun nátengd heilögum Þorláki, eins og forkólfurinn Árni hefur einatt haldið fram, væri þetta enn alvarlegra mál.
  • Með smíðinni er grafarró raskað í gamla kirkjugarðinum, sem varðar við lög.
  • En ekki síst er yfirbygging Þorláksbúðar fádæm smekkleysa, þar sem hún er trónir þétt upp við kirkjuna, hornskakkt á hana. Hún er vanvirðing við þá sem stóðu að gerð Skálholtskirkju hinnar nýju og þyrnir í augum allra þeirra sem vilja reisn staðarins sem mesta.

Allt verklagið við þennan gerning er með ólíkindum. Göslast var áfram þvert á gildandi skipulag og áður en tilskilin leyfi voru fengin, svo sem byggingarleyfi. Margir þeir sem hefðu þurft að veita slík leyfi voru ekki spurðir, eða þá fyrst spurðir þegar þeir stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur líka lýst furðu sinni á verklaginu.

Allt á huldu

Allt er á huldu um hvað Þorláksbúðarfélagið er, hverjir að því standa, hvernig fjárreiður þess eru o.s.frv. Eitt er þó víst að það er rangt sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir í umræddri frétt „að kirkjan hafi ekki áður lagt fé til Þorláksbúðar“. Í bréfi Ríkisendurskoðunar sem vitnað er til í skýrslu stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi segir: „Í bréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að Félag áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar fékk á árunum 2008–2011 úthlutað samtals 9,4 millj. kr. úr ríkissjóði og að auki 3 millj. kr. frá kirkjuráði“. Síðan kann meira að hafa komið til. Það er því ósatt að kirkjan hafi ekki þegar lagt fé í þessa framkvæmd Árna Johnsens í Skálholti. Þá er það deginum ljósara að það mun lenda á kirkjunni að standa undir viðhaldi og rekstrarkostnaði byggingarinnar. Það getur orðið dágóð upphæð.

Árni Johnsen „segist vona að málið sé allt komið í góðan farveg nú þegar kirkjan sé „með í dæminu“. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs er sama sinnis og vonast til að „neikvæð umræða um verkefnið dofni“. Við, vinir Skálholts, getum lofað henni því að við munum halda áfram að gagnrýna óskundann í Skálholti og ekki linna látum fyrr en Þorláksbúðarbyggingin hefur verið fjarlægð. Vissulega verður róðurinn erfiðari nú þegar kirkjan er orðin samsek og hefur hagsmuna að gæta með tóftarfélaginu. Það sem haft er eftir framkvæmdastjóranum um þetta bendir frekar til að hún sé orðin fjölmiðlatengill Árna Johnsens fremur en þeirrar kirkju sem á að gæta að sóma Skálholts. Talar hún fyrir munn biskups Íslands?

Framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir að flestir útlendingar sem koma í Skálholt skoði Þorláksbúð. Við undirritaðir erum oft í Skálholti og það er rétt að margir horfa á tóftarbygginguna, jafnvel líta þar inn. En er það til að dást að hinum „algjöra gullmola“, eins og Árni kallar smíðina, eða er það til furða sig á smekkleysu og molbúahætti Íslendinga? Við höfum ekki enn hitt þann útlending sem hefur dásamað fyrirbærið, en viðmælendur okkar hafa lýst mikilli undrun og spurt hvernig annað eins geti gerst á þessum sögulega og helga stað.

Það eitt er til ráða að fjarlægja bygginguna úr kirkjugarðinum og reyna að koma tóftinni í fyrra horf, hafi hún ekki þegar verið eyðilögð. Taka má undir með framkvæmdastjóranum títtnefnda að tréverkið er á sinn hátt „listasmíð“. Húsið mætti því endurreisa á Skálholtsstað þar sem það spillir ekki staðarmyndinni og gæti jafnvel nýst til einhverrar þjónustu við gesti og gangandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur sagt að það sé „ekki vilji Minjastofnunar Íslands að húsið verði áfram þar sem það er nú“. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en að stofnunin vilji húsið burt. Í viðbótarfrétt í Fréttablaðinu 9. júlí eru orð hennar þá og nú túlkuð á þennan veg. Aðspurð segir forstöðumaðurinn að vel sé hægt að flytja húsið. Árni Johnsen og framkvæmdastjóri kirkjuráðs segja, eins og við var búist, bæði tvö, að það sé „útilokað að færa Þorláksbúð“. Kristín Huld segir á hinn bóginn að húsið hafi einmitt verið reist þannig að flytja mætti það burt. Væntanlega hefur Árni kríað út leyfi með því lofa þessu, en nú heldur hann öðru fram.

Það kostar fé að færa bygginguna. Kirkjuráð hefur nú fundið rúmar tíu milljónir króna handa tóftarfélaginu, mitt í miklum harðindum Þjóðkirkjunnar. Þau lýsa sér m.a. í því að kirkjan hefur hætt öllum beinum fjárstuðningi við Sumartónleikana, það starf í Skálholti sem er staðnum einna mest til sóma, en þeir halda nú upp á fertugasta hátíðarsumarið. Milljónir kirkjuráðs verða afskrifaðar, hvað sem öllu líður. Væntanlega stendur það í kirkjunni að fórna meiru. Hverjir vilja ljá málinu lið og leggja fram þá tugi milljóna kr. sem þarf til að gera gott úr smíðinni og afmá þá hneisu sem Þorláksbúðarbyggingin er á núverandi stað?

Allt ferli Þorláksbúðarmálsins á að verða rannsóknarefni fyrir þar til bær yfirvöld, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hægt sé með frekju og yfirgangi að þjösnast áfram á kostnað almennings. Fyrir félagsvísindamenn getur málið líka verið áhugavert, hvort það sé einkenni kunningjasamfélagsins að menn komist upp með að brjóta lög og reglur.

Eiður Svanberg Guðnason, fv. stjórnmálamaður
Hörður H. Bjarnason, fv. sendiherra
Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri
Ormar Þór Guðmundsson, arkitekt
Þorkell Helgason, prófessor emeritus
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður

Stóryrtar yfirlýsingar um stjórnlagaráð

[Birtist í Fréttablaðinu 2. júlí 2014]

Í ritstjórnargrein Fréttablaðsins 26. júní s.l. er fjallað um áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar sem birt var á dögunum. Undirritaður sat í stjórnlagaráði og telur sér því málið skylt.
Eins og ritstjórinn fagna ég sérhverju skrefi í stjórnarskrármálinu; líka reifun málsins í áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar, þótt beinar tillögur séu þar næsta fáar. Stjórnarskrármálið er þó aftur komið í umræðuna. Á hinn bóginn finnst mér ritstjórinn tala ómaklega um störf stjórnlagaráðs. Það hafi „skellt… fram illa ígrunduðum tillögum“ segir hann. Ráðið fékk afmarkaðan tíma til sinna starfa, rúma þrjá mánuði. Tíminn hafði verið verulega skorinn niður frá því sem upphaflega var ráðgert. Hinu má þó ekki gleyma að mikið starf hafði farið fram áður en stjórnlagaráðið tók til starfa, og það þurfti því ekki að hefja störf á byrjunarreit. Engu var „skellt fram“, enda störfuðu 25 einstaklingar ásamt sérfræðingum að verkefninu nótt sem nýtan dag sumarið 2011. Unnið var fyrir opnum tjöldum með samfelldu aðgengi almennings.
Dundar sér út kjörtímabilið
Nýja nefndin fær að dunda sér við málið út kjörtímabilið og er ekki einu sinni skuldbundin til að skila neinu frá sér, en stjórnlagaráði var uppálagt að skila drögum að frumvarpi. Að tillögur okkar hafi verið „illa ígrundaðar“ er órökstudd fullyrðing. Í lok ritstjórnargreinarinnar er talað um „hrærigraut[inn] sem hin misheppnaða tilraun um stjórnlagaþingið gat af sér.“ Það virðist í tísku að taka stórt upp í sig um störf stjórnlagaráðs, án þess að láta nokkuð í ljós sem stutt geti stóryrðin.
Ritstjóranum er tíðrætt um skoðanir stjórnlagaráðs. Ráðið samanstóð af einstaklingum sem sameiginlega hafa engar aðrar skoðanir en þær sem komu fram í skriflegum skilum ráðsins 29. júlí 2011. Ritstjórinn segir að „[r]áðið … virtist halda að … með [tillögum þess] væri komin ný stjórnarskrá, sem ekki mætti breyta eða ræða frekar.“ Það kann að vera að einstaka félagar í ráðinu hafi talað þannig, en flestir, ef ekki allir sögðu að vissulega bæri að gera þær breytingar sem til bóta mættu vera, eins og gert var í umfjöllun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Sjötíu ára bið
Þá segir ritstjórinn að „[s]tóryrtar yfirlýsingar fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna um „valdarán“ og „aðför að lýðræðinu“ í tilefni af áfangaskýrslunni eru fáránlegar.“ Hér er aftur verið að ýja að því að stjórnlagaráðsmenn fyrrverandi tali allir á sömu nótum. Sum okkar mundu nota önnur orð um þetta nýja plagg og tilurð þess.
Ritstjórinn segir að flest bendi „til að málið sé nú … lagt þannig upp að það geti fengið vandlega umræðu og skoðun, Alþingi fjallað um það á vandaðan hátt og þjóðin verði síðan spurð álits – með lýðræðislegum hætti.“ Vonandi hefur hann rétt fyrir sér, en reynslan segir því miður annað. Það var ekkert því til fyrirstöðu að frumvarp stjórnlagaráðs fengi „vandlega umræðu og skoðun“ og aldrei stóð annað til en „að þjóðin [yrði] .. spurð álits – með lýðræðislegum hætti“ um endanlegt stjórnarskrárfrumvarp, sem byggt væri á tillögum stjórnlagaráðs eins og 2/3-hlutar þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, óskuðu eftir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. En af öllu þessu varð ekki þar sem málið þvældist fyrir Alþingi í tvo vetur og endaði síðan í allsherjar málþófi eins og einatt áður.
Í sjötíu ár hefur verið beðið eftir raunhæfum stjórnarskrárbótum. Það á eftir að koma í ljós hvort nú sé „góð byrjun“ í þessa veru, eins og felst í yfirskrift ritstjórnargreinarinnar, það hvort útkoman verður yfirklór eða raunverulegar réttarbætur til eflingar almannahag gegn sérhagsmunum.

Stórhátíð að hefjast í Skálholti

[Greinarstúfur þessi birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2014] 

Þorkell Helgason

Þorkell Helgason

Skálholt hefur um aldir verið partur af þjóðarsálinni. Svo er enn eins og sannast hefur á þeim mikla og maklega áhuga sem ópera Gunnars Þórðarsonar hefur vakið, en í henni er fjallað um ástir í meinum á sjálfu biskupssetrinu, ástir þeirra Ragnheiðar og Daða. Sagt hefur verið að Ragnheiður hafi leikið á klavíkord en fátt er þó vitað um tónlistariðkun í Skálholti á öldum áður. Hitt er víst að nú er hafin í fertugasta sinn ein elsta og umfangsmesta tónlistarhátíðin á landinu, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, og í þetta sinn er hún ekki af lakara taginu.

Í tilefni af fertugsafmælinu ljá norrænir sjóðir, samtök og listamenn hátíðinni lið. M.a. verða Sumartónleikar vettvangur þriðju EAR-ly-keppninnar, norrænnar samkeppni ungra tónlistarhópa sem leika forna tónlist á upprunaleg hljóðfæri.

Þá er það sérstakt fagnaðarefni að margir þeir sem voru frumkvöðlar Sumartónleikanna koma nú fram. Meðal þeirra er Ann Wallström fiðluleikari sem kornung kom í Skálholt, sá og sigraði hjörtu áheyrenda. Síðan hefur hún orðið að einum helsta túlkanda barokktónlistar í Svíaríki. Ann mun leika til minningar um Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, stofnanda Sumartónleikanna, bæði að kvöldi 2. júlí og síðdegis hinn 5. júlí.

Annar frumkvöðull er hollenski fiðluleikarinn Jaap Schröder, en enginn erlendur listamaður hefur lagt hátíðinni jafnmikið lið og hann. Svo eru það frumkvöðlarnir Bachsveitin í Skálholti og sönghópurinn góði, Hljómeyki.

Stundum stendur styr um Skálholt. Það sýnir að engum stendur á sama um staðinn, kirkjuna og söguna. Nú er tækifæri til að gleðjast í Skálholti, njóta góðrar tónlistar á fögrum stað á hásumri. Um allt þetta má fræðast nánar á vefsíðunni www.sumartonleikar.is.

Það verður tónaveisla í Skálholti allan júlímánuð og fram á verslunarmannahelgi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis.

Höfundur er stærðfræðingur og áhugamaður um málefni Skálholts.