Stjórnkerfið og vistvænir bílar – Morgunblaðið úti að aka?
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Miðvikudaginn 7. mars, 2007
Þorkell Helgason gerir athugasemdir við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins
Í REYKJAVÍKURBRÉFI Morgunblaðsins 3. mars sl. eru athyglisverð skrif um nauðsyn þess að draga úr hvers konar mengun af völdum bílaumferðar, þar með talin losun bíla á gróðurhúsalofttegundum. Ritari Reykjavíkurbréfsins hvetur til aðgerða af hálfu hins opinbera og segir m.a.: „Í ljósi þess að ríkisvaldið getur með skattlagningu sinni ráðið miklu um útsöluverð bifreiða er nærtækt að spyrja af hverju sé ekki byrjað að undirbúa það í fjármálaráðuneytinu að breyta innflutningsgjöldum á bifreiðum til sama horfs og í Noregi.“ Framar í bréfinu hafði bréfritari nefnt að Norðmenn hefðu „ákveðið að innflutningsgjöld á bifreiðar fari eftir útblástursgildi“. Í leiðara Morgunblaðsins hinn 20. febrúar sl. hafði verið hvatt til hins sama, en þar er lagt til að „gjöldum á bifreiðar verði [hagað] þannig að það ýti undir kaup á bílum sem losa minna af gróðurhúsaloftegundum.“
Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi að breyting Norðmanna tók gildi um sl. áramót en er ekki jafnróttæk og sagt er í Reykjavíkurbréfinu; aðeins hluti innflutningsgjaldanna er gerður háður útblæstrinum. En hitt er mikilvægara að leiðrétta, að það sem Morgunblaðið leggur til að stjórnvöld geri er nú þegar á fleygiferð. Á Orkustofnun hefur um rúmlega þriggja ára skeið verið í gangi verkefni undir heitinu Vettvangur um vistvænt eldsneyti með það að markmiði að móta og samræma aðgerðir stjórnvalda til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og stuðla að nýtingu innlendrar orku í samgöngum og sjávarútvegi. Fyrir verkefninu fer stýrihópur sex ráðuneyta og er breið aðkoma að verkinu þannig tryggð. Í desember sl. var gengið frá skýrslu um stefnu Íslendinga í eldsneytismálum einkabifreiða. Tillögur um aðgerðir stjórnvalda. Iðnaðarráðherra og forsvarsmenn Vettvangsins kynntu skýrsluna á blaðamannafundi 5. febrúar sl. Skýrsluna er að finna á vef Orkustofnunar ásamt kynningarefni, sjá www.os.is/page/vve.
Á bls. 32 í skýrslunni eru settar fram eftirfarandi tillögur:
Í tillögunum er gengið mun lengra en Norðmenn gera. Burtséð frá nauðsynlegri gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu er lagt til að öll gjöld á bíla og notkun þeirra verði beintengd við „útblástursgildi“. Í þessu felst að af bílum sem ekkert losa (rafbílum, metanbílum, vetnisbílum) eru hvorki greidd stofngjöld, árlegir bílaskattar né eldsneytisgjöld (fyrir utan áðurnefnd veggjöld). Í skýrslunni eru sýnd dæmi um hugsanlega (varfærnislega) útfærslu á þessari kerfisbreytingu á gjaldtöku. Tillögurnar voru ræddar í ríkisstjórn og hlutu þar góðan hljómgrunn og hafa einstakir ráðherrar tjáð sig á opinberum vettvangi fylgjandi þessari stefnumótun. Undirbúningur er þegar hafinn að því að hrinda slíkri breytingu í framkvæmd.
Kerfisbreyting í þessa veru gæfi öllum, erlendum framleiðendum, innflytjendum og neytendum, skýr skilaboð um að það sé allra hagur að velja vistvæna bíla. Mikilvægur þáttur í tillögunum er að slíkir skattalegir hvatar hygla ekki einni tækni eða eldsneytistegund fram yfir aðra; enda er sama hvaðan gott kemur. Það er ekki ríkisins að velja tæknilausnina heldur á slíkt val að fara fram á markaði.
Um leið og Morgunblaðinu er þakkað frumkvæði þess í fyrrgreindum skrifum er blaðið hvatt til að kynna tillögur stýrihóps Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem virðast því miður hafa týnst í fjölmiðlafári um önnur mál. Hiklaust má telja að Ísland verði í fararbroddi í baráttu fyrir samdrætti í útblæstri frá umferð þegar þessar tillögur eru komnar til framkvæmda. Innleiðing tillagnanna ætti að verða meðal stefnuþátta ríkisstjórnar að loknum kosningum.
Aths. ritstj.
Málsgreinin í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem Þorkell Helgason vitnar til, var byggð á því, sem haft var eftir Þorsteini Þorgeirssyni, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, í umfjöllun blaðsins 19. febrúar sl. Þar sagði m.a.: „Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, segir „hlutfall bifreiða með dísilvélar síðan hafa aukist.“
Hann segir aðspurður þennan málaflokk vera í sífelldri endurskoðun. Hvað varði aðgerðir Norðmanna sé ekkert í bígerð sem stendur.“
Höfundur er orkumálastjóri og formaður stýrihóps Vettvang um vistvænt eldsneyti.