Auðkennistalan er 2853

Í kosningum til stjórnlagaþings fær hver frambjóðandi auðkennistölu og er tala Þorkels Helgasonar 2853. Kjósendur geta raða allt að 25 nöfnum eftir auðkennistölum á kjörseðilinn og er mikilvægt að nýta valrétt sinn vel. Mikilvægast er að sjálfsögðu að setja töluna 2853 á listann og ekki væri verra ef hún lenti ofarlega!


Virkt þingræði

Hvort vil ég halda í þingræðið eða taka upp hreint forsetaræði? Annars vegar ræður þingið því í reynd hverjir skipa ríkisstjórn eða þá að foringi ríkisstjórnar er kosin beint af almenningi. Ég verð að játa að ég hef sveiflast nokkuð til í þessum efnum eftir þeim rökum sem ég hef heyrt. En því betur sem ég kynni mér málið, horfi til baka yfir reynsluna hallast ég nú að þingræðisleiðinni en þó í þeirri gerð sem henti okkur sem fámennri þjóð. Nái ég kjöri á stjórnlagaþing mun ég þó í þessum málum sem öðrum hlusta á rök annarra.

Vík ég þá að rökum mínum fyrir þingræðisleiðinni:

  • Þingræðisleiðin er sú leið sem við höfum farið í meira en öld. Söðlum ekki um nema að vel athuguðu máli. Spyrjum heldur hvað hafi á bjátað og mætti laga að meginstefnunni óbreyttri. Meinið er að hér hefur ekki ríkt raunverulegt þingræði. Ríkisstjórn – og þó einkum frægir forystusauðir ríkisstjórna sem þarf ekki að nefna – hafa farið sínu fram án þess að þingið hafi gripið í taumana. Ég kem að því síðar hvernig megi styrkja þingræðið.
  • Gæti ekki þjóðkjörinn forseti eða forsætisráðherra orðið mjög valdamikill? Allt vald spillir. Það yrði þá að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að enginn gæti verið í slíkri aðstöðu nema mjög takmarkaðan tíma.
  • Ef við tækjum upp fullan aðskilnað þings og ríkisstjórnarvalds væri það að óbreyttu ójafn leikur. Þjóðkjörinn forsætisráðherra eða forseti hefði allt stjórnarráðið undir sér og væri því með ótvírætt forskot á þingið um þekkingu og sérfræðingalið. Þingið myndi skjótt bregðast við. Hugboð mitt er að þingið kæmi sér upp umtalsverðu sérfræðingaliði til að eiga í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Grófir reikningar benda til 2-3 milljarða kr. kostnaðarauka á ári sem er ámóta og niðurskurðurinn á sjúkrahúsunum nú. Höfum við efni á því?
  • Hitt er alvarlegra að þing og stjórn gætu eldað grátt silfur saman þannig að erfitt yrði að leiða brýn mál til lykta. Það er ekki það sem er okkur fýsir einmitt um þessar mundir.

Hvaða markmiðum vilja menn ná með fullum aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds? Helst heyrist að með því eigi að efla Alþingi og stemma þannig stigu við því að framkvæmdarvaldið valti yfir þingið. Er þá ekki verið að kalla eftir virkara þingræði frekar en sjálfstæðara framkvæmdarvaldi? Næst markmiðið ekki betur með því að styrkja þingræðið fremur en að gefa framkvæmdarvaldinu lausan tauminn eins og yrði með fullum aðskilnaði þessara valdaþátta? Ég mun reifa svör við þessum spurningum í næstu pistlum mínum.

Þingræði eða forsetaræði?

Við búum við þingræði á Íslandi, ekki forsetaræði, enda þótt orðlag gildandi stjórnarskrár um valdsvið forseta sé óljóst. Það verður eitt stærsta verkefni stjórnlagaþings að taka af skarið í þessum efnum.

Hvað er átt við með þessum hugtökum? Stuttar skilgreiningar eru þessar:

Þingræði er sú stjórnskipun að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins, Alþingis. Kjósendur hafa þannig ekki beina aðkomu að vali á ríkistjórn heldur aðeins í gegnum fulltrúa sína, þingmennina.

Forsetaræði er nafgift sem er notuð um það að framkvæmdarvaldið sé í höndum forystumanns eða manna, forseta eða forsætisráðherra, sem kjörnir eru beint af þjóðinni óháð hvernig þjóðþingið, Alþingi, er skipað.

Spurningin er hvort við eigum í meginatriðum að halda í þingræðið eða snúa við blaðinu. Hvor leiðin sem farin verður er verk að vinna. Þingræðisleiðin verður ekki farin óbreytt. Það verður þá a.m.k. að kveða skýrt á um hana og skilgreina hlutverk forsetans í þeim efnum. Viðsnúningur að hreinu forsetaræði þarfnast vitaskuld ítarlegrar yfirlegu.

Það er skiljanlegt að margir horfa nú hýru auga til fullkomins aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdarvalds, skiljanlegt eftir áratugi þar sem valdið hefur í meginatriðum verið hjá framkvæmdarvaldinu. Hjá öðrum kann ástæðan að vera meint getuleysi Alþingis til að taka á málum sjálft.

Hvort fyrirkomulagið vil ég? Um það fjalla ég í öðrum pistli.

Núgildandi stjórnarskrá er barn síns tíma

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er, eins og allir vita, komin til ára sinna. Upphaflega fengu Íslendingar hana frá Kristjáni IX. Danakonungi, þeim sem stendur á stalli fyrir framan stjórnarráðshúsið „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og skáldið kvað. Aldurinn þarf ekki að vera stjórnarskrá til hnjóðs. Nægir að nefna stjórnarskrá Bandaríkjanna eða Noregs sem eru báðar um eða yfir tvö hundruð ára gamlar.

Lýðveldisstjórnarskráin er í grundvallaratriðum byggð á „frelsiskránni“ þó þannig að orðinu „kóngur“ er skipt út fyrir orðið „forseti“. Síðan hafa einkum verið gerðar á henni breytingar af þrennum toga: Ákvæðum um kjördæmaskipan og kosningamál hefur þrisvar sinnum verið breytt, skipan og starfshættir Alþingis hafa verið endurskoðaðir, ákvæði um mannréttindi hafa verið aukin og bætt, einkum nýmæli um félagsleg réttindi sem voru  væntanlega sett í kjölfar aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvernig er stjórnarskráin uppbyggð? Hún er sem betur fer ekki mjög löng, telur 81 grein (sú áttugasta að vísu fallin út) auk úreltra ákvæða til bráðabirgða. Stjórnarskráinni er skipt í kafla á  eftirfarandi hátt:

  • I.       1.-2. gr. Grunnskipting valdsins
  • II.      3.-30. gr. Forsetinn
  • III.     31.-34 gr. Alþingi
  • IV.    35.-58. gr. Alþingi
  • V.     59.-61. gr. Dómsvald
  • VI.    62.-64. gr. Trúmál
  • VII.   65.-81. gr. Mannréttindi o.fl.
  • Ákvæði til bráðabirgða

Kaflaheiti eru engin, efnisorðin er mín. Margt vekur athygli, nefna má eftirfarandi:

  • Engar forsendur eru gefnar eins og þær að valdið sé allt frá þjóðinni komið.
  • Þrír fjórðuhlutar skrárinnar fjalla um stjórnskipanina, aðeins einn fjórðungur um réttindi fólksins.
  • Forsetanum er gert hátt undir höfði en þriðjungur stjórnarskrárgreinanna fjalla um hann og hlutverk hans. Þó gerir ein greinin, sú 13., flestar hinn ómerkar þar sem hún er talin segja að forsetinn hafi í reynd lítil völd.
  • Kaflar um Alþingi eru tveir og heldur tætingslegir.
  • Ráðherra og ráðuneyti kemur rétt aðeins við sögu, en ríkisstjórn er hvergi nefnd, hvað þá starfshættir hennar, nema ef vera skyldi ákvæði um ríkisráð sem er þó í raun aðeins puntsamkoma.
  • Sameignir þjóðarinnar, landið, hafið, auðlindirnar, tungan og margt fleira kemur ekki við sögu.
  • Aðhald að valdinu er ekki nefnt nema ef vera skyldi málsskotsréttur forsetans. Almenn ákvæði um þjóðaratkvæði eru engin.

Með þessari upptalningu, sem þó er ekki tæmandi, er ekki ætlunin að gera lítið úr stjórnarskránni. Hún hefur í meginatriðum gagnast okkur vel. En hvort sem menn vilja breyta henni mikið eða lítið er nauðsynlegt að endurskrifa hana þó ekki væri nema til að hún verði á betra máli, aðgengilegri og yfirhöfuð læsileg hverju barni.

Í næstu pistlum mun ég reifa hvað mér liggur á hjarta varðandi stórbætta stjórnarskrá. En fyrst vil ég hamra á því sem segir í framboðskynningu minni: Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum. Sátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.

Nýtum alla þekkingu

Ég hef oft hugleitt hvernig þjóðin getur búið við fámennið og jafnvel fært sér það í nyt. Meginsvarið er að það gerum við best með almennri þátttöku allra, með því nýta okkur allt okkar mannvit. Hefð er fyrir því að sumir, t.d. embættismenn, haldi sig til hlés í þjóðfélagsumræðunni. En höfum við efni á því? Oft er nær öll þekking eða vitneskja um einstök málefni hjá þröngum hópi manna. Verða þeir ekki að deila viti sínu með okkur hinum?

Hugsanir sem þessar fóru í gegnum kollinn á mér þegar ég var að ígrunda framboð mitt til stjórnalagþings. Ég tel mig hafa reynslu og þekkingu sem gagnast megi við endurgerð stjórnarskrárinnar, fyrir utan brennandi áhuga. En nú háttar svo til að ég hef verið viðriðinn undirbúning stjórnlagaþingsins allt frá því að fyrsta frumvarpið þar um var lagt fram á vorþinginu 2009. Þriggja manna nefnd, sem ég stýrði, samdi það ásamt frumvörpum um persónukjör, en hafði þó aðeins til þess örfáa daga. Síðla nýliðins sumars hef ég aftur unnið að stjórnlagaþingsmálinu, nú að tæknilegum þáttum þess. Ég hugleiddi því hvort ég væri of nákominn viðfangsefninu til að geta boðið mig fram og fór því í gegnum alla aðkomu mína að málinu en hnaut ekki um neitt sem gæti valdið hugsanlegum hagsmunaárekstri. Ég ákvað því að liggja ekki á liði mínu og bjóða mig fram. Um leið og sú ákvörðun lág fyrir hætti ég ráðgjöf við stjórnvöld um allt þetta mál og er nú í leyfi frá hlutastarfi mínu þar að lútandi. Ég get því um frjálst höfuð strokið.

Þegar þetta er ritað hafa nöfn frambjóðenda ekki verið birt. Ég vænti þess og vona að þar verði margt gott fólk. Efalaust eru þar á meðal fleiri en ég sem hafa þurft að spyrja sig hvort þeir gætu boðið sig fram starfa sinna vegna og komist að þeirri niðurstöðu að störfin ættu ekki að hindra þá í því að ljá málefninu lið.

Stjórnarskráin á það skilið að allir leggi sig fram.