About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Dagur fólksins

Þegar þetta er ritað er verið að opna kjörstaði. Í dag verður kosið til stjórnlagaþings sem er falið það ábyrgðarmikla verkefni að gera tillögu um endurbætta stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Þessi kosning er því ein sú mikilvægasta í sögu þessa lýðveldis. Brýnt er að kjörsókn verði góð þannig að þingfulltrúar fái traust umboð þjóðarinnar til starfa sinna. Flykkjumst því á kjörstað í nafni lýðræðisins. Látum ekki aðra kjósa fyrir okkur með því að mæta ekki.
Það er mikið úrval góðra frambjóðenda. Fjöldi þeirra ætti því ekki að vaxa mönnum í augum; þvert á móti veitir hann kjósendum tækifæri til vals í þessum fyrsta persónukjöri á fulltrúaþing. Látum ekki tækifærið úr greipum okkur ganga.

Stuðningsyfirlýsingar góðra manna, karla og kvenna

„Ég styð Þorkel af því að hann er traustur maður.“  Baldvin Tryggvason fv. sparisjóðsstjóri.

„Ég styð Þorkell vegna þess að hann  kann að greina vandamál, en hann er líka einn vandaðasti maður sem ég þekki.“ Vilhjálmur Bjarnason lektor.

„Ég styð Þorkel vegna þess að hann á gott með að vinna með fólki sem hefur aðrar skoðanir en hans eigin.” Steingrímur Hildimundarson afgreiðslumaður.

„Þorkell Helgason hefur einstaka hæfileika til að sjá hlutina í víðu samhengi.“ Helga Barðadóttir stjórnsýslufræðingur.

„Ég kýs Þorkel Helgason á stjórnlagaþing því þekking og reynsla eiga erindi.” Pétur Örn Sverrison hrl.

„Ég styð Þorkel því hann getur nefnilega tekið sönsum. Það er ekki öllum gefið.” Guðrún Jóhannsdóttir fv. bókari.

„Ég styð Þorkel af því að hann hefur mikla reynslu og sterka dómgreind.” Sr. Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla.

“Ég styð Þorkel vegna mannkosta hans, reynslu og þekkingar.” Magnús Jónsson fv. veðurstofustjóri.

„Ég styð Þorkel. Einn eftirminnilegasti og besti kennari minn frá háskólaárunum.”  Bjarni Júlíusson tölvunarfræðingur.

„Ég styð Þorkel vegna þess að hann er hógvær og einbættur hugsjónamaður.“ Guðrún Óskarsdóttir semballeikari.

„Ég kýs Þorkell vegna þess að hann er rökfastur og hugmyndríkur.“ Kolbeinn Bjarnason flautuleikari.

„Ég styð Þorkel Helgason til stjórnlagaþings. Einmitt maðurinn sem við þurfum þar.” Björn Karlsson brunamálastjóri.

„Þorkell er frjór og sjálfstæður í hugsun.“ Auður H. Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur

„Ég styð Þorkel Helgason vegna þess að ég þekki hann af góðgirni, heiðarleika og lipurð og yfirburðaþekkingu á kosningareglum.“ Markús Möller hagfræðingur.

“Af þeim fjölmörgu frambjóðendum sem ég hef kynnst, treysti ég engum betur en Þorkatli til að leiða stjórnlagaþingið. Þess vegna kýs ég Þorkel.” Geir Guðmundsson verkfræðingur.

„Ég styð Þorkel af því að hann er traustur, heiðarlegur og vandaður maður.” Guðfinna S. Bjarnadóttir fv. rektor

Frambjóðendur hittast á Lýðveldistorginu föstudagskvöld kl. 20

Í Reykjavík og reyndar víða um land ætla frambjóðendur að hittast í kvöld kl. 20, kveikja á kertum og sýna þannig á táknrænan hátt samhug sinn og þakklæti fyrir að „kosningabaráttan” hefur verið bæði málefnaleg og hófstilt. Í Reykjavík hittast frambjóðendur við Þjóðmenningarhúsið á Hverfisgötu og ganga svo fylktu liði að Lýðveldistorginu fyrir ofan Þjóðleikhúsið.

Áríðandi! Utankjörfundaratkvæðagreiðslu líkur á hádegi á föstudag 26. nóvember

Ekki gleyma að kjósa. Þeir sem missa af lestinni verða þá að reyna að mæta á kjörstað á laugardag. Góð kjörsókn er grunnforsenda þess að stjórnlagaþingið verði farsælt þjóðinni. Kjósum öll. Samkvæmt tölum er staða utankjörstaðaatkvæðagreiðslu svipuð og við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Er þjóðin að taka við sér? Góðar fréttir fyrir stjórnlagaþingið? Vonandi.

Munið enn og aftur: Aðeins eitt atkvæði, það er efsta sætið sem gildir!

Mikill misskilningur og rangfærslur eru á ferðinni um kosningaraðferðina, enda þótt meginhugsunin sé sáraeinföld:

  • Sá sem er í efstu vallínu er sá sem hefur forgang að atkvæðinu. Hann situr í aðalvallínunni.
  • Sé hann úr leik – hefur náð kjöri – eða fallið út sakir lítils fylgis færist atkvæðið til þess sem er næstur á óskalista kjósandans og færist í aðalvallínuna
  • Og svo koll af kolli.

Það er því höfuðatriði að raða, og það sem flestum. En það er efsta línan sem er aðallínan. Þessu má lýsa með mynd:

Kveðið um frambjóðandann

Nokkrir vinir hafa sent mér framboðsvísur. Þessi er frá sr. Hjálmari Jónsyni:

Hvatningu sífellt ég syng,
síst má því gleyma
að senda Þorkel á þing,
þar á hann heima.

Meðframbjóðandinn sr. Þórir Jökull Þorsteinsson sparar ekki dönskuna á mig auk blessunar:

Besta ósk með blessun sé,
borin fram af heilu þeli.
Otte og tyve, fem og tre,
telst þú heita núna Keli.

Leikfimisfélagi minn í Menningarfélagi Háskólans, Þórður Jóhannesson, orti auðkennisnúmeravísur um alla þrjá frambjóðendurna sem eri í þessu merka félagi, þ.e. auk mín þá Gísla Má Gíslason og Júlíus Sólnes. Á mig pundar hann svona:
Tvisturinn er tala góð
teymir með sér áttu.
Fimman þar næst fetar slóð
fylgja þristinn láttu.

Ef þú vilt, kjósandi, Þorkel á þing
þér númer hans rétt er að tjá.
Ég tuttugu‘ og átta‘ að þér tölunni sting
sem tengist við fimmtíu og þrjá.

Að lokum orti granni minn hér á Álftanesinu, Sigtryggur Jónsson, orti limru:

Enginn um fróðleik og vit honum frýr,
í framsetning allri með eindæmum skýr.
Þorkell að nafni
mun standa í stafni,
stimplirðu tveir – átta , fimm, þrír.

Kosningaraðferðin hyglir ekki nýnasistum – Reginfirra leiðrétt

Einar Júlíusson ritar 24. nóv. s.l. grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Er nokkur nýnasisti í framboði? Þessi grein byggir því miður á reginmisskilningi á þeirri kosningaraðferð sem beitt er við kosninguna til stjórnlagaþings. Aðferðin hefur verið nefnd forgangsröðunaraðferð en er oftast auðkennd með skammstöfuninni STV erlendis.

Einar gengur út frá því að 100.000 kjósendur greiði atkvæði og velji á milli 500 frambjóðenda. Einn þeirra vill hann kalla nýsnasista og sá hljóti 4.000 atkvæði að 1. vali hjá fylgismönnum sínum. Atkvæði hinna 96.000 kjósenda skiptist handahófskennt á milli frambjóðendanna 499 og raðist einhvern vegin á seðla þeirra. Hver þessara 499 fái að meðaltali (um) 200 atkvæði að 1. vali. Þá segir Einar réttilega að nýnasistinn svonefndi muni ná kjöri. Það er rétt enda fær hann 1/25 af öllum greiddum atkvæðum að 1. vali. Vandfundinn er sú lýðræðislega kosningaraðferð sem gæti með réttu komið í veg fyrir það. Svo segir Einar „en aðrir … detta út“ sem verður vart skilið á annan veg en að þeir nái ekki kjöri. Þetta er auðvitað kórvilla. Á þinginu skulu sitja 25 fulltrúar (að kynjajöfnunarsætunum slepptum). Það er því sama hvaða aðferð beitt yrði, 24 þessara munu að sjálfsögðu ná kjöri. Væri beitt einfaldri krossmerkingu væri það undir hælinn lagt hverjir þessir 24 væru og hver þeirra hefði aðeins um 200 atkvæði að baki sér. STV-aðferðin er með allt öðrum hætti. Með henni er lesið þannig úr vilja kjósenda samkvæmt forgangsröð þeirra að þeir 24 sem að lokum verða valdir, auk hins eina „vinsæla“, munu hafa stuðning mun fleiri kjósenda, allt að 4.000 hver.

Blaðagrein þessi er það myrk að ekki verður ráðið í hvað veldur þessum hrapalega misskilningi höfundar en svo virðist vera að grunnhugsun STV-aðferðarinnar, þeirrar sem hin mikilvæga kosning til stjórnlagaþingsins byggir á, sé höfundi algerlega hulin ráðgáta. Aðferðin byggir á forgangsgröðun: Hver kjósandi fer aðeins með eitt atkvæði, ekki 25 eins og greinarhöfundur virðist telja. Sá sem kjósandinn setur að 1. vali er sá sem hann raunverulega kýs. Hann er sá sem kjósandinn vill allra helst að nái kjöri. Hinir sem á eftir koma á kjörseðlinum eru eins konar varamenn, þeir sem kjósandinn vill að gripið sé til þegar sá að efsta vali hans er úr leik.

Greinarhöfundar ættu að vera alveg vissir í sinni sök áður en þeir ríða fram á ritvöllinn til að villa lesendum, og þar með kjósendum, sýn nú þegar örfá dægur eru í lýðræðislegar kosningar, einar þær mikilvægustu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir.

Þeir síðustu í talningunni munu ekki verða fyrstir – Misskilningur leiðréttur

Hinn 24. nóv. s.l. birtist grein eftir Sigurð F. Sigurðsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Furðuleg nýting atkvæða. Í fyrrihluta greinarinnar vísar höfundur til kynningarblaðs sem dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur sent á öll heimili þar sem meðal annars er leitast við að skýra hvernig atkvæði eru talin í komandi kosningu til stjórnlagaþings. Lýsingin, sem er væntanlega sú á öftustu opnu blaðsins, er því miður ekki nægilega skýr enda misskilur greinarhöfundur aðferðina og leggur því rangt út af henni. Málið fjallar um það hvernig atkvæði færast frá þeim sem náð hefur kjöri til þeirra sem tilgreindir eru að næsta vali hjá viðkomandi kjósendum.

Einfaldast er að taka talnadæmi: Frambjóðandi A fær 10.000 atkvæði að 1. vali en aðeins þarf 5.000 atkvæði til að ná kjöri. Greinarhöfundur álítur að þá séu þau 5.000 atkvæði sem síðast eru talin í bunka A færð til þeirra frambjóðenda sem eru tilgreindir á þessum seðlum. Hann telur réttilega að þetta sé „furðuleg nýtin atkvæða“ vegna þess að þá skipti máli í hvaða röð atkvæðin eru talin. Þetta er ekki svo. Það er horft til allra atkvæða A og hverju einstöku atkvæði í raun skipt í tvennt. Annar helmingur atkvæðisins er skilin eftir hjá A til að tryggja honum þau 5.000 atkvæðisígildi sem þarf til að hann ná kjöri. Hinn helmingur hvers atkvæðis, sem er þá ígildi hálfs atkvæðis, er færður til þess næsta að vali viðkomandi kjósanda.
Sú aðferð sem greinarhöfundur ranglega telur að hér verði notuð tíðkaðist í árdaga þeirra STV-aðferðar sem hér um ræðir. Það var fyrir daga tölva og ótækt talið að klippa seðla í sundur í miðjunni hvað þá í öðrum hlutföllum. Reynt var að stokka seðlana vel áður en talið var en síðan látið þar við sitja og einungis efstu atkvæðin í bunka frambjóðanda A í þessu dæmi færð. Á tölvuöld er auðvelt að gera þetta með fullri nákvæmni: Atkvæðin eru ekki klippt í sundur heldur er talnaígildi þeirra reiknað og þau færð með viðeigandi hætti.

Í seinni helmingi greinar sinnar furðar greinarhöfundur sig á því hví ekki skuli valin sú leið að beita stigagjöf þannig „að sá fyrsti fengi t.d. 100 stig , næsti eitthvað minna og svo koll af kolli …“. Þetta er sú aðferð sem er notuð við uppgjör á breyttum atkvæðaseðlum við Alþingiskosningar. Hefur svo verið gert lengst af í rúm hundrað ár. Aðferð þessi er nefnd Borda-aðferðin. Hér eru ekki tök á að færa rök fyrir því hvers vegna þessi leið var ekki farin nú. Þau eru að nokkru rakin í athugasemdum við frumvörp um persónukjör sem lögð voru síðast fram haustið 2009. Meginástæða þess að Borda-aðferðinni var hafnað er sú að hún býður upp á að kjósandinn nái markmiðum sínum betur fram með því að raða með öðrum hætti en hugur hans girnist. Þessi mótsögn á mun síður við sé STV-aðferðinni beitt. Sú aðferð hefur þann dýrmæta eiginleika umfram Borda-aðferðina að kjósandinn rýrir aldrei hlut þeirra sem hann hefur þegar sett á seðilinn við það að bæta fleirum við þar á eftir.

(Pistill þessi var ritaður 25. nóv. en rataði ekki á vefinn þá. Því er hann birtur nú, 28. nóv. en birtingartíminn aftur í tímann til þess að röð hans á vefsíðunni sé í sögulegri röð.)

Þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá eða ekki?

Allmargir kjósendur hafa spurt mig um afstöðu mína til þjóðkirkjuákvæðis stjórnarskrárinnar.

Í grundvallaratriðum tel ég óeðlilegt að fjallað sé um einstök trúfélög í stjórnarskránni. Eðlilegt er að trúfrelsi borgaranna og jafnræði trúfélaga sé tryggt í mannréttindakafla hennar. Að mínu mati eiga trúmálin fyrst og fremst heima á þeim vettvangi.

Á hinn bóginn er þjóðkirkjan svo samofin íslensku samfélagi og menningarlífi að taka verður tillit til þess við alla ákvarðanatöku í málinu. Ekki má heldur gleyma því að grunngildin sem stjórnarkrá okkar byggist á og grunngildi kristinnar trúar fara saman. Þessi gildi eru ekki tilgreind í stjórnarskránni. Væntanlega hafa þeir sem mótað hafa stjórnarskrána ekki talið þörf á því m.a. með vísan til kristinnar undirstöðu hennar. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að slík grunngildi eigi að festa í stjórnarskránni sjálfri.

Í 2. mgr. 79. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um að sérhverja breytingu á „kirkjuskipun ríkisins“, þ.e. 62. gr., skuli bera undir þjóðaratkvæði. Mér finnst því við hæfi að leita beint til þjóðarinnar um þetta mál, annað hvort um leið og ný eða endurbætt stjórnarskrá yrði borin undir þjóðaratkvæði, sem verður að gerast, eða síðar. Ég sé fyrir mér að þjóðin veldi um þrjá kosti:

  1. Óbreytta skipan þjóðkirkjunnar, þ.e. 62. gr. efnislega óbreytt.
  2. Sérákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé alfarið fellt brott, þ.e. afnám 62. gr.
  3. Millileið, og mætti þá leita í smiðju annarra Norðurlanda einkum Svía um fyrirmynd, en þar hefur ríkið gert eins konar þjónustusamning við kirkjuna.

Allt kallar þetta á rækilega umfjöllun á stjórnlagaþingi og nái ég kjöri mun ég leita eftir sátt í þessu máli sem og öðrum.

Ég vil taka það fram að málið er mér skylt. En mjög er kallað eftir því að frambjóðendur upplýsi um „hagsmunatengsl“ sín eins og það er gjarnan nefnt. Málvextir eru þeir að kona mín sáluga, Helga Ingólfsdóttir, stóð að Sumartónleikum í Skálholtskirkju í 30 sumur og þar var ég henni ávallt til aðstoðar. Í Skálholti var okkar annað heimili og staðurinn er mér mjög kær.

Kjóstu!

Stór hópur frambjóðenda hefur opnað vefsíðuna kjostu.org í þeim eina tilgangi að hvetja fólk til að kjósa.

En ekki er nóg að kjósa. Það verður að gera rétt. Munið að kosningarfyrirkomulagið er þannig að frambjóðandinn sem þú setur í efstu vallínu á kjörseðilinn hefur forgang að atkvæði þínu. Næsti maður á kjörseðlinum getur erft atkvæðið (eða hluta þess) frá þeim efsta undir tveimur kringumstæðum. Annars vegar ef sá efsti fær of lítið fylgi til að ná á kjöri eða hins vegar ef hann fær meira fylgi að hann þarf til að ná kjöri. Í báðum tilvikum færist atkvæði þitt (eða viðeigandi hluti þess) til næsta manns á þínum kjörseðli. Og svo koll af kolli. Þetta merkir líka að þú skaðar engan af þeim sem þú berð helst fyrir brjósti með að raða fleirum neðar á kjörseðilinn.
En það er lykilatriði að menn raði: Þann efsta viltu helst, en að honum frágengnum viltu þann næsta sem þitt varaval og svo framvegis.