About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Ný stjórnarskrá: Landið eitt kjördæmi – eða hvað?

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum  12. ágúst 2011]

Eitt meginverkefni okkar sem sátum í stjórnlagaráði var að leggja til stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag kosninga til Alþingis. Þingið hafði beinlínis kallað eftir því. Sama gerði þjóðfundurinn haustið 2010. Meginatriðin í tillögum ráðsins eru nýskipan kjördæma og persónukjör. Um þetta mikilvæga viðfangsefni verður fjallað í þessum og næstu pistlum.

Kjördæmi, eitt eða fleiri?

Mörg okkar vildum leggja niður kjördæmin og viðhafa landskjör einvörðungu. Fyrir því færðum við ýmis rök, svo sem að þingmenn sem kosnir eru á landsvísu hugsi best um hagsmuni heildarinnar. Aðrir töldu nauðsynlegt að tengja framboð afmörkuðum kjördæmum, ella myndu tengsl þingmanna við kjósendur sína rofna. Niðurstaða ráðsins var beggja blands. Landið verður eitt kjördæmi nema Alþingi nýti sér heimild til að skipta því upp í allt að átta kjördæmi. Hér verður gert ráð fyrir að skipt verði upp í kjördæmi, a.m.k. um hríð.

Kjördæmin fá nýja merkingu. Listar verða boðnir fram á kjördæmavísu en einnig verða landslistar. Frambjóðandi á kjördæmislista má jafnframt vera á landslista síns flokks eða samtaka, en þar geta líka vera frambjóðendur sem ekki bjóða sig fram í ákveðnu kjördæmi. Kjósandi getur merkt við einn lista af hvorri tegundunni sem er. Hann getur líka valið einstaklinga, jafnvel af mörgum listum, eins og skýrt verður út í næsta pistli. Gagnvart kjósendum er landið því sem eitt kjördæmi.

Frambjóðandi hlýtur að jafnaði að tala til kjósenda í kjördæmi sínu en líka höfða til allra landsmanna, vilji hann hljóta stuðning utan kjördæmis síns. Þess er vænst að þannig náist kostir landskjörs, sem er ábyrgð þingmanna gagnvart öllum landslýð, en um leið sé trygging fyrir því að rödd hverrar byggðar heyrist á þingi.

Tvískiptur kjörseðill

KjörseðillVerði hugmynd ráðsins að veruleika verða kjörseðlar tvískiptir. Hér er sýndur ímyndaður og einfaldur kjörseðill, þar sem aðeins tvö samtök koma við sögu og kjördæmi eru tvö, Austurvesturkjördæmi (AV) og Norðursuðurkjördæmi (NS). Efri hlutinn verður eins og verið hefur, með kjördæmislistum hlið við hlið. Kjósandi í Austvesturkjördæmi getur merkt við einn af listunum þremur. T.d. getur hann merkt við Z-lista íþróttamanna, eins og sýnt er á myndinni, og hefur hann þá um leið gefið þeim tveimur mönnum sem eru á listanum jafna hlutdeild í atkvæði sínu.

Neðri helmingur kjörseðilsins tilgreinir lista sem eru í boði á öllu landinu og lítur því eins út í öllum kjördæmum. Frambjóðendur á kjördæmislistum mega jafnframt vera á landslista sömu samtaka. Frambjóðandinn Inga á lista íþróttamanna í AV-kjördæmi nýta sér þetta, en ekki Hreiðar sem vill ekkert gera hosur sínar grænar utan síns kjördæmis. Á landslista íþróttamanna er auk þess Anna sem ekki er á neinum kjördæmislista. Listamannasamtökin bjóða aðeins fram á landsvísu. Kjósandi hvar sem er, t.d. í Austvesturkjördæmi, getur samt merkt við landslista þeirra.

Hér er einungis fjallað um listakjör, ekki persónukjör. Það bíður næsta pistils

Flókið?

Flest virðist flókið við fyrstu sýn. Þingmönnum fannst listakjör í stað einstaklingskjörs illskiljanlegt þegar það var tekið upp fyrir rúmri öld. Fullyrða má að kosningafyrirkomulag það sem hér er reifað er ekki flókið. Það er til í ýmsum gerðum erlendis, t.d. í Hollandi. Bland af kjördæmis- og landslistakjöri tíðkaðist líka hér á landi um áratugaskeið um miðbik liðinnar aldar.

Undirritaður reifaði í framboði sínu til stjórnlagaþings, og aftur í stjórnlagaráði, sáraeinfalt kerfi þar sem kosið væri persónukjöri og einvörðungu á landsvísu. Hugmyndin náði ekki fram að ganga en með góðu fólki í stjórnlagaráði varð sátt um ofangreinda lausn sem vissulega er nokkru flóknari – en nær flestum markmiðum.

Ný stjórnarskrá: Grunnur að traustara samfélagi

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 5. ágúst 2011]

„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“ Það var Freyja Haraldsdóttir, hin ötula baráttukona í stjórnlagaráði fyrir rétti lítilmagna, sem lagði þessa grein til í nýja stjórnarskrá og hún var samþykkt samhljóða í ráðinu. Er þetta einungis merkingarlaus fagurgali? Nei, þetta er ein viljayfirlýsinga um að öll viljum við bæta samfélagið. Þau okkar sem njóta heilbrigðis og bjargálna eiga að leggja sitt af mörkum, hvert eftir sinni getu, til að létta undir með þeim sem minna mega sín. Samfélagssáttmáli, sem stjórnarskrá er, veitir okkur ekki aðeins réttindi, svo sem til eignaverndar, réttlætis eða kosningaréttar. Með því að búa í samfélagi um samhyggju tökum við líka á okkur skyldur, sem við uppfyllum með því að inna af hendi skatta og skyldur, til að hlúa megi að velferð allra. Hver veit hvenær við sjálf þurfum á umhyggju að halda?

Dæmigerð málamiðlun?

Við í stjórnlagaráði höfum skilað af okkur frumvarpi til nýrra stjórnskipunarlaga, eins og skjalið heitir á fínu máli, með öðrum orðum: Drög að glænýrri stjórnarskrá. Við vorum einum rómi sammála um niðurstöðuna. Efnisgreinarnar voru í heild samþykktar með atkvæðum allra tuttugu og fimm stjórnlagaráðsfulltrúanna. Þá kann að vera sagt: „Þegar allir eru sammála hlýtur niðurstaðan að vera rýr, dæmigerð málamiðlun þar sem eitt rekst á annars horn.“ Ég fullyrði að svo er ekki. Við höfðum að vísu knappan tíma, tæpa fjóra mánuði, en nýttum hann vel til að fara yfir sem flestar hliðar hvers máls. Þetta var gert fyrir opnum tjöldum á vefsetri ráðsins. Allir gátu séð hvernig við vorum smám saman að nálgast það sem okkur þótti að lokum það besta, að teknu tilliti til sjónarmiða hvers annars. Sjálfur skipti ég oft um skoðun í ýmsum málum – og skammast mín ekki fyrir það. Ég sá einfaldlega að stundum höfðu aðrir betri rök en ég. Ég hygg að svo hafi farið fyrir okkur öllum. Þess vegna er niðurstaðan betri en sú sem fengist hefði ef eitthvert eitt okkar hefði ráðið ferðinni. Betur sjá augu en auga.

Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga að við komum ekki tómhent til starfa í apríl sl. Í fyrsta lagi höfðum við strax sl. haust, þegar við buðum okkur fram til stjórnlagaþingsins, sökkt okkur ofan í málið. Hæstiréttur gaf okkur svo óvænt lengri umþóttunartíma. Síðast en ekki síst var búið að vinna mikla undirbúningsvinnu sem var starf stjórnlaganefndar er hófst fyrir ári. Vinna nefndarinnar hvíldi jafnframt á mörgu því sem á undan var gengið; stjórnlaganefndum sem höfðu starfað nær allan lýðveldistímann, síðast velþenkjandi nefnd sem Jón Kristjánsson stýrði.

Boltinn er hjá þjóðinni

Nú ríður á að þjóðin sjálf, ekki bara þingmenn og svokallaðir sérfræðingar, kynni sér tillögur okkar í þaula. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið leiðsögn handa öllum þeim sem fara með vald í hennar umboði. Þegar verið er að umskrifa stjórnarskrána í heild eins og nú er gert, verður þjóðin að koma að málum, kynna sér tillögurnar, benda á það sem betur mætti fara og að lokum að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá. Hvenær og hvernig er sérstakt umræðuefni sem ég mun ræða í seinni pistli.

Okkur sem urðum, fyrir tilstilli kjósenda, þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna þetta uppbyggingarstarf ber skylda til að aðstoða þjóðina við að koma þessu grundvallarmáli í höfn.

Greining á úrslitum kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010

Greinargerð þessi birtist í  í heild sinni í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla 1.tbl. 7. árg. sem kom út 30. júní 2011.

Samantekt á innihaldi greinargerðarinnar:

  • Margt var sérstætt við þessa kosningu. Þetta var landskjör, þ.e. landið var eitt kjördæmi, framboð voru einstaklingsbundin, hreint persónukjör. Kosningin var um margt nýmæli, ekki aðeins hér á landi heldur líka sé leitað samanburðar út í hinn stóra heim.
  • Frambjóðendur skiptust þannig eftir kyni að 70% voru karlar en 30% konur. Hlutfall frambjóðenda var verulega umfram hlutfall kjósenda á kjörskrá í Reykjavík. Þessi hlutföll voru mjög ámóta á Suðvesturlandi en í öðrum kjördæmum hallaði á frambjóðendur, mest í Suðurkjördæmi þar sem hlutfall þeirra var einungis helmingur af hlutfalli kjósenda.
  • Kosningarþátttaka var dræm, 35,95%. Ógildir kjörseðlar, þar með talin auðir, námu 1,43% sem er minna en gerist og gengur í kosningum hérlendis. Á hinn bóginn  kunna allmörg atkvæði að hafa verið óvirk að hluta vegna umdeilanlegra  ákvæða laga um meinbugi á kjörseðlum.
  • Uppgjör kosningarinnar fór fram með aðferð, STV, sem ekki hefur verið notuð hérlendis áður. Kostir STV-aðferðarinnar eru tíundaðir: Atkvæði fara lítt í súginn, aðferðin er hlutfallsaðferð, hægt er að kjósa eftir sannfæringu, kjósandinn tekur ekki áhættu við að auka við röðun sína og það er erfitt að beita brögðum. STV-aðferðin hefur líka galla: Hún kann að þykja flókin, sem er aðallega vegna þess að hún er lítt þekkt. Enn fremur er hún ekki einhalla (frekar en margar aðrar), þ.e. búa má til dæmi þess efnis að frambjóðandi missi af kjöri við að fá of mörg atkvæði og öfugt.
  • Aðferðin í stuttu máli: Hver kjósandi fer með eitt atkvæði og raðar frambjóðendum í vallínur eftir þeim forgangi sem hann vill að þeir hafi að atkvæðinu. Sá sem er í efstu vallínu hjá kjósandanum hefur fyrstur aðgang að atkvæðinu. Sé frambjóðandinn úr leik – þ.e. hefur náð kjöri eða fallið út sakir lítils fylgis – færist atkvæðið til þess sem er næstur á óskalista kjósandans. Og síðan koll af kolli. Ítralegri lýsing er í fylgiskjali.
  • Þátttaka kjósenda í röðunarferlinu var mjög góð. Að meðaltali raðaði hver kjósandi 14,8 frambjóðendum en 29% röðuðu í allar þær 25 línur sem stóðu til boða. Hinir kjörnu hlutu 38,5% atkvæða þegar að 1. vali. 83,4% atkvæða áttu að hlutdeild í vali þeirra sem kjöri náðu. Afgangurinn, eða 16,6% atkvæða, dagaði uppi í þeim skilningi að þau atkvæði gögnuðust engum hinna kjörnu frambjóðenda. Að meðaltali hafði hver kjósandi nöfn 3,7 þeirra frambjóðenda sem kjöri náðu á seðli sínum.
  • Úthlutun með STV-aðferðinni, þeirri sem notuð var í raun, er borin saman við útkomu eftir ýmsum öðrum aðferðum: Einn kross, allt að 25 krossar, stigagjafaraðferð, prófskjörsaðferðin. 18 til 21 af hinum 25 kjörnu hefðu líka náð kjöri með hinum aðferðunum. Með STV-aðferðinni náðu 10 konur kjöri. Þær hefðu orðið 1-2 færri með hinum aðferðunum. Eftir STV-aðferðinni höfðu 59%-83% atkvæðanna raunverulega áhrif á val hinna 25 en aðeins 16%-21% atkvæðanna hefðu skipt sköpum um úthlutun sætanna ef öðrum aðferðum hefði verið beitt.
  • Brugðist er við ýmissi gagnrýni á kosningarkerfið: Því er andmælt að kosningaraðferðin sé íslenskur sérvitringsháttur og hrákasmíð. Vakin er athygli á þeirri gagnrýni að STV-aðferðin sé ekki einhalla. Því er andmælt að aðeins þeir sem ná fullum sætishlut séu rétt kjörnir. Leiðréttur er sá misskilningur að það skipti máli í hvað röð seðlarnir séu taldir. Öfgakenndu dæmi um að STV-aðferðin geti hyglað fámennri klíku er andmælt. Því er svarað hví ekki voru notaðar þróaðri útgáfur af STV-aðferðinni. Tekið er undir þá gagnrýni að aðferðin til úthlutunar sæta til kynjajöfnunar hafi verið gölluð, en sem betur fer reyndi ekki á hana.
  • Fjallað er ítralega um þá skoðun að kosningin hafi verið dauðadómur yfir persónukjöri og því að hafa landið eitt kjördæmi. Fullyrt er að því fari fjarri að stjórnlagaþingskosningin hafi sýnt að persónukjör á landsvísu sé illgerlegt. Kosningin hafi á hinn bóginn leitt í ljós viðfangsefni sem leysa þarf til að slíkt fyrirkomulag heppnist sem best. Bent er á nokkrar lausnir í því sambandi.
  • Í fylgiskjölum eru annars vegar vangaveltur um það hvers vegna fólk hafi setið heima í kosningunni. Hins vegar er farið ítarlega yfir STV-kosningaraðferðina og henni lýst með tilvísun í úrslit kosningarinnar.

 

Hvað þurfa margir að strika út mann til að hann færist niður?

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 29. maí 2010 er spurt hver sé munurinn á mati á útstrikun (og öðrum breytingum á kjörseðlum) annars vegar samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og hins vegar samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Um þetta er ítarlega fjallað í niðurlagi greinargerðar um þingkosningarnar 2003 annars staðar á þessum vef.  Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér.

Hér verður því ekki farið út í aðferðafræðina en útfærslurnar bornar saman í eftirfarandi töflu þar sem því er svarað sem oftast er spurt um í þessu sambandi: „Hve stór hluti kjósenda lista þarf að strika út sama manninn til að hann falli niður um sæti?“

Útstrikanir í kosningum
Við sveitarstjórnarkosningar (þar sem fram fara hlutbundnar kosningar) er svarið einfalt: Meira en helmingur kjósenda lista verður að strika mann út svo að hann falli niður um sæti. Gerist það fellur hann raunar alveg út af listanum.

Eftir þeirri aðferð sem beitt er við þingkosningar (frá og með kosningunum 2003) er þetta flóknara og fer eftir fjölda sæta sem listinn fær og því sæti sem frambjóðandinn er boðinn fram í. Taka má sem dæmi um fjórða mann á lista sem fær fjóra menn kjörna. Þá þarf meira en 16,7% þátttöku í slíkri útstrikunaraðgerð til að frambjóðandinn falli út niður um sæti og nái ekki kjöri sem aðalmaður (en verði í staðinn fyrsti varamaður).

Allt er þetta byggt á þeirri forsendu að ekki sé hróflað við frambjóðendum á listanum að öðru leyti. Stuðningsmenn umrædds fjórða manns geta t.d. beitt þeim mótleik að strika út fimmta mann listans. Útstrikanir ofar á listanum geta líka gert það erfiðara að víxla röð tveggja frambjóðenda.

Til að finna hvað hátt hlutfall útstrikana verður að vera til að færa mann niður í um tvö sæti í þingskosningum þarf einfaldlega að tvöfalda töluna í töflunni, o.s. frv.

ICESAVE er prófraun á beint lýðræði

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 8. apríl 2011]

Þannig hefur oftsinnis háttað til að stutt hefur verið á milli kosninga til sveitarstjórna og kosninga til Alþingis; ár eða minna. Eitt sinn gerði ég lauslega tölfræðilega könnun á úrslitum slíkra kosningapara og fékk sterka fylgni með tilfærslum milli vinstri og hægri í hvorum tveggja kosningunum. Gott ef fylgnin var ekki sterkust milli úrslita í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og landsúrslita í þingkosningum. Greinilegt var að kjósendur voru oft að „hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi“.

Það er því miður algengt í öllum kosningum að kjósendur horfi um víðan völl en einbeiti sér ekki að því sem kosningin á að snúast um hverju sinni. Þetta er einkum bagalegt þegar greitt er þjóðaratkvæði um einstakt afmarkað efni og eru það ein meginrökin sem beitt er gegn beinu lýðræði. Um þrjátíu þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram um ýmis málefni viðvíkjandi Evrópusambandinu í aðildarríkjum þess, svo sem um aðild að sambandinu, um einstakar breytingar á grunnsamningum þess eða um evruna. Vitað er að úrslitin hafa oft ráðist af vinsældum ríkisstjórnar í viðkomandi aðildarlandi.

Kosningin nú snýst um eitt mál

Á morgun, 9. apríl, reynir á þjóðina í afar mikilvægri atkvæðagreiðslu um nýjan Icesave-samning. Málið er flókið en í mjög einfaldaðri mynd snýst valið um það hvort við viljum ljúka málinu með þeim samningi sem nú liggur fyrir, og talinn er sá besti sem fengist getur, eða hvort við viljum láta reyna á dómstóla, innlenda og erlenda, og sjá hvernig okkur skattgreiðendum reiðir af í ólgusjó lögspekinnar. Vissulega eru mörg fleiri sjónarhorn, svo sem hin siðferðilega hlið málsins, sem skiptir marga miklu máli, meðal annars undirritaðan sem vill ekki vera talinn óreiðumaður. Siðaðir menn semja við granna sína. En skoðun mín er ekki tilefni þessa pistils heldur hitt að hvetja kjósendur til að einskorða sig við viðfangsefnið, að segja „já“ eða „nei“ um fyrirliggjandi samning einan. Þessi kosning snýst EKKI um forseta lýðveldisins, ekki um Evrópusambandið, ekki um evruna, ekki um kvótakerfið, ekki um ríkisstjórnina. Enn síður um stjórnlagaráðið og hvernig því reiðir af. Með kosningunni erum við heldur ekki að ná okkur niðri á ráðamönnum Breta og Hollendinga. Kosningin snýst ekki um allt það sem kjósendur kunna að vera fúlir út í. Hún snýst aðeins um eitt mál, Icesave-samninginn.

Hver svo sem úrslitin verða munu þau efalaust verða túlkuð út og suður af lýðskrumurum. Mikilvægara er að vandaðir fræðimenn kanni niðurstöðuna út frá því sem hér er rætt: Stóðst þjóðin prófið? Kynntu kjósendur sér málefnið og létu það eitt ráða atkvæði sínu?

Beint lýðræði er heillandi

Það er heillandi viðauki við fulltrúalýðræðið að þjóðin geti tekið af skarið um mikilvæg lagafrumvörp sem Alþingi hefur afgreitt, jafnvel lagt til lagabreytingar. En þetta krefst áhuga og aga af hálfu þjóðarinnar. Það kemur ekki af sjálfu sér og ekki í einu vetfangi. Við höfum nánast enga reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum. Mest er reynslan í þeim efnum annars vegar í Sviss og hins vegar í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum má rekja upphafið til öndverðrar 17. aldar í fylkjum Nýja-Englands. Síðustu áratugina heyrist einkum af slíkum atkvæðagreiðslum í Kaliforníu, þar sem þróunin hefur verið með ýmsu móti og að margra dómi orðið að eins konar skrílræði. Í Sviss finnast dæmi um beint lýðræði allt aftur til 15. aldar. Í nútímabúningi er þessi ríka lýðræðishefð þeirra frá miðri 19. öld. Síðan 1848 hefur um 500 sinnum verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Í einstökum sýslum landsins (kantónum) skipta slíkar atkvæðagreiðslur þúsundum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss var um nýja stjórnarskrá en meðal dæma frá þessari öld er að finna þjóðaratkvæði um bann við akstri bíla einn sunnudag á hverjum ársfjórðungi. Sú tillaga var felld með 62% atkvæða en 49% svissnesku þjóðarinnar létu sig málið það miklu skipta að að þau mættu á kjörstað. Í slíkum atkvæðagreiðslum láta Svisslendingar ekkert trufla sig, til dæmis ekki það hvernig ríkisstjórn reiðir af – enda láta þeir sig yfirleitt litlu skipta hverjir skipa hana.

Vöndum valið

Við væntanlega endurskoðun stjórnarskrár okkar verða ákvæði um þjóðaratkvæði eitt af stóru málunum. Þá verður efalaust dreginn lærdómur af tvennum kosningum um Icesave-málið alræmda. Meðal annars af þeim sökum er mikilvægt að þjóðin hugsi vel sinn gang, mæti á kjörstað og taki afstöðu til þessa eina málefnis – og vandi valið!

Stjórnarskráin verður að vera þjóðinni hjartfólgin

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 1. apríl 2011]

Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Eftir langan aðdraganda og ýmis skakkaföll hefur Alþingi nú falið sérstöku Stjórnlagaráði, skipuðu 25 konum og körlum, það verkefni að semja frumvarp að nýjum sáttmála utan um þjóðskipulag okkar. Stjórnlagaráðið er nú fullskipað og tekur til starfa í næstu viku. Ég er einn þeirra sem hafa tekið sæti í ráðinu.

Nú er lag

Vissulega þurftum við að spyrja okkur ýmissa samviskuspurninga áður en við þáðum boð um setu í ráðinu, ekki síst í ljósi úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningar til Stjórnlagaþings. Bent hefur verið á alvarlegar rökvillur í þeim úrskurði en ákvörðun dómaranna var engu að síður endanleg. Við sem munum sitja í Stjórnlagaráði berum hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til úrskurðarins né heldur á þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Við höfum einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem okkur er falið. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þetta má lesa út úr talningu landskjörstjórnar sem Hæstiréttur hefur ekki borið brigður á. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.

Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.

Ákvörðun mín um að taka sæti í ráðinu byggðist ekki síst á því að nú býðst langþráð tækifæri. Gangi það okkur úr greipum er hætt við að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert minna vera. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.

Snúa þarf að við blaðinu

Ónot eru í mörgum landsbúum yfir ásigkomulagi þjóðarinnar nú rúmum tveimur árum eftir hrunið mikla. Væntingar um breytt og bætt þjóðfélag í kjölfar hrunsins voru miklar. Öndvert við það sem gerst hefur víða annars staðar tók almenningur á sig verulega kjaraskerðingu nánast möglunarlaust, enda vissu allir að svokallað góðæri árin á undan hruninu var byggt á sandi. Vissulega hefur margt áunnist þessi tvö erfiðu ár. Tekist hefur að hemja afleiðingar hrunsins og atvinnuleysi varð ekki eins mikið og óttast var. En siðbótin hefur látið standa á sér. Enn er beðið eftir því að sannleikurinn um forkólfa hrunsins verði dreginn fram í dagsljósið fyrir dómstólum. Sumir þeirra sem gengu frjálslega um fjárhirslur bankanna eru aftur farnir að berast mikið á. Mörgum finnst verklag hjá stjórnvöldum og á Alþingi lítt hafa breyst til batnaðar. Svo mætti lengi telja.

Það er í þessu umhverfi sem Stjórnlagaþing hefst handa við að betrumbæta stjórnarskrána. Vonandi fagna flestir þessu skrefi, en svo eru öfl sem reyna að gera starfið tortryggilegt. Það verður því á brattann að sækja. Við sem höfum tekið verkefnið að okkur verðum að reynast trausts verð, við verðum að vinna þannig að sómi sé að og skila frá okkur lokaskjali sem hljóti hylli þjóðarinnar. Að þessu verðum við verðum við að einbeita okkur.

Yfirlýsing Þorkels Helgasonar um töku sætis í Stjórnlagaráði

Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um skipun Stjórnlagaráðs. Drjúgur meirihluti þeirra þingmanna sem afstöðu tóku studdu ályktunina. Þeim 25 sem hlotið höfðu kjörbréf til setu á Stjórnlagaþingi hefur verið boðin seta í ráðinu. Ég er einn þeirra.

Í kosningunni til Stjórnlagaþings hlaut ég tilnefningu nær 13 þúsunda kjósenda sem safnaðist upp í 3196 atkvæði. Þrátt fyrir úrskurð Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar tel ég mig hafa stuðning þessa góða fólks auk þess að hafa skyldur við það til að vinna að því brýna verki að endurbæta stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þessar tölur má lesa út úr talningu landskjörstjórnar en á þær hefur Hæstiréttur ekki borið brigður. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.

Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.

Úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings varpar vissulega skugga á tilurð og tilvist Stjórnlagaráðsins. Ég hef haft efasemdir um niðurstöðu hæstaréttardómaranna, sbr. skrif mín á vefsíðunum http://thorkellhelgason.is/?p=724, svo og http://thorkellhelgason.is/?p=730. Dómurunum var í endurupptökubeiðni bent á hvernig höggva mætti á hnútinn. Úrræðið fólst í endurtalningu fyrir opnum dyrum eftir að öll auðkenni hefðu verið fjarlægð af kjörseðlunum.  Þá hefðu þeir tveir „annmarkar“ á framkvæmd kosningarinnar sem dómararnir töldu „alvarlega“ verið úr sögunni. Við beiðninni var ekki orðið og eftir situr upprunanlega ákvörðunin sem hin endanlega. Þau sem taka boði Alþingis um setu í Stjórnlagaráði bera hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til umræddrar niðurstöðu né heldur þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Þau hafa einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem þeim er falið.

Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána í heild. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Verði það tækifæri sem nú býðst ekki nýtt óttast ég að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert vera minna. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.

Í ljósi alls þessa hef ég tekið boði Alþingis um skipun í Stjórnlagaráð.

27. mars 2011, Þorkell Helgason

Endurspegla kjördæmi nærumhverfi okkar?

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 25. mars 2011]

Í síðustu grein minni í Fréttatímanum færði ég siðferðileg rök fyrir því að kjósendur ættu að hafa jafnt atkvæðavægi, óháð búsetu, þegar kemur að því að kjósa til Alþingis. Því markmiði má ná með ýmsu fyrirkomulagi kosninga og kjördæmaskipunar. En um leið þarf að huga að fleiri sjónarmiðum, t.d. eftirfarandi og byrja ég þá á forsendunni sem áður greinir:

  1. Kjósendur hafi jafnt atkvæðavægi óháð búsetu.
  2. Jafnræði sé með stjórnmálasamtökum.
  3. Æskilegt er að þingmannsefni bjóði sig fram í nærumhverfi kjósenda.
  4. Kjósendur ráði vali á þingsmannsefnum a.m.k. innan þess flokks sem þeir styðja, jafnvel þvert á flokka.

Þessi upptalning er hvergi nærri tæmandi, en látum hér við sitja í svipinn. Ég hef þegar tekið af skarið með þá skoðun að frá fyrsta markmiðinu megi ekki víkja, enda fæ ég ekki séð að það þurfi að vera í mótsögn við neitt hinna markmiðanna.

Með öðru markmiðinu er átt við pólitískt jafnræði í þeim skilningi að þingflokkar fái rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Segja má að það hafi leynt eða ljóst verið markmið stjórnarskrárgjafans  a.m.k. allt frá kjördæmabreytingunni miklu 1959. En þetta pólitíska markmið kann að stangast á við fjórða markmiðið. Um það markmið ætla ég að ræða í síðari pistlum. Einblínum því nú á annað markmiðið og að hluta til það þriðja, en að því fyrsta sjálfgefnu.

Allir þingmenn verði landskjörnir

Annað markmiðið er í raun krafa um hlutfallskosningar í einhverri mynd; að þingsætin skiptist á milli flokka því sem næst í beinu hlutfalli við landsfylgi þeirra. Í grundvallaratriðum er þá aðeins ein tegund lausna: Uppskipting í kjördæmi, eitt eða fleiri, ásamt með nægilega mörgum jöfnunarsætum til að tryggja flokkajafnræði. Kjördæmaskiptingin verður að sjálfsögðu að vera slík að ekki halli á kjósendur eftir búsetu. Í ljósi þess hve búseta er misdreifð um landið skapar uppskipting í kjördæmi veruleg vandkvæði: Annað hvort verða kjördæmin með mjög mismarga kjósendur – og þar með mismarga þingmenn – eða brytja verður höfuðborgarsvæðið niður í mörg smá og tilviljunarkennd kjördæmi.

Nú eru jöfnunarsætin níu og mega ekki vera færri. Raunar er engin trygging fyrir því að sú tala dugi til að ná megi flokkajafnræði. Meinið við jöfnunarsætin, eins og þau hafa verið útfærð, er að þeim er troðið upp á kjördæmin. Þannig fá t.d. stuðningsmenn Framsóknarflokksins á Suðvesturlandi þingmenn að norðaustan, e.t.v. þvert á vilja sinn. Það er og verður flækjufótur að búa til kosningakerfi þar sem blandað er saman fylgi úr kjördæmum við landsfylgi. Til er stærðfræðileg sönnun á því að enginn aðferð er til í þeim efnum sem er í senn gallalaus og einföld.

Að mínum mati er leiðin út úr þessum ógögnum einföld: Hún er sú að sleppa kjördæmunum, hafa alla þingsmenn landskjörna. Meginrök mín eru einfaldlega þau að við erum ein smáþjóð í einu eylandi. Við eigum og verðum að gæta hagsmuna okkar allra í jöfnum mæli. Ekki síst er það hlutverk þingmanna. Hrepparígur og kjördæmapot hafa valdið okkur ómældum skaða.

… er í takt við þróunina

Landsbyggðamenn óttast að með einu kjördæmi, með meirihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu, verði hlutur þeirra fyrir borð borinn. Ég er sannfærður um að svo verður ekki en við þeirri hættu má líka sjá með ýmsu móti. Fyrirkomulag framboða má hafa þannig að frambjóðendur geti höfðað sérstaklega til einstakra landshluta. Þetta gera Danir að nokkru leyti, svo og Hollendingar sem hafa sitt fjölmenna en litla land eitt kjördæmi. Í reynd er þetta fyrirkomulag líka í Þýskalandi þótt útfærslan þar sé óþarflega flókin. Ég mun útlista þessa hugsun síðar í tengslum við persónukjör og þá víkja samtímis að þriðja og fjórða markmiðinu; hvernig persónukjör og nærumhverfishugsun geta farið saman.

Er ekki kjördæmi í landfræðilegum skilningi fyrirbæri frá fyrri öldum og á vart við á tímum greiðra samgangna og rafrænna samskipta? Þeir sem ég samsama mig mest við og vildi helst vera í „kjördæmi“ með, búa ekki endilega í næsta landfræðilega umhverfi mínu. Grannar mínir eru öllu frekar í mínu félagslega umhverfi jafnvel þótt það kunni að spanna allt landið.

Sumir segja eitt landskjördæmi nýstárlegt og ótímabært fyrirkomulag. Því fer fjarri. Þegar árið 1927 var málið reifað á Alþingi, etv. fyrr. Þá hefur þróunin verið í þessa átt allan lýðveldistímann. 1944 voru kjördæmin 28 að tölu og aðeins með 1,5 þingsæti að meðaltali hvert. 1959 var þeim fækkað í 8 og aftur í 6 um síðustu aldamót. Það sem meira er þá hefur landið verið pólitískt eins og eitt kjördæmi allt frá 1987. Því er einsýnt hvert stefnt hefur.

Sagt er að stjórnlagaþingskosningin hafi afskrifað hugmyndina um landskjördæmi og persónukjör sérstaklega. Þessu er jafnvel öfugt varið að mínu mati. Um það má lesa meira á vefsíðunni http://thorkellhelgason.is/?p=715.

Að lokum: Útfærsla kosninga og kjördæmaskipunar er að nokkru leyti stærðfræðilegt og tæknilegt mál, en má þó ekki ráðast af þeim mælistikum einum. Þar er í fleiri horn að líta.

Brennt barn forðast eldinn

Alþingi samþykkti 15. mars. s.l. breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

13. gr. laganna var svona fyrir breytinguna:

  • [1. mgr.] Kjósandi getur sent kæru um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu, aðra en refsikærur, til Hæstaréttar eigi síðar en sjö dögum frá því að [ráðuneytið]1) auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar.
    [2. mgr.] Landskjörstjórn veitir Hæstarétti umsögn um atkvæðagreiðsluna. Umsögn skal veitt óháð því hvort kæra hafi borist skv. 1. mgr.
    [3. mgr.] Að fenginni umsögn landskjörstjórnar getur Hæstiréttur ákveðið að ógilda niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef verulegur ágalli hefur verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Séu slíkir verulegir ágallar á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í einu eða fleiri kjördæmum getur Hæstiréttur ákveðið að hún fari aftur fram þar.

Eftir breytinguna hljómar lagagreinin þannig:

  • [1. mgr.] Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.
    [2. mgr.] Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

[Feitletrun mín.] Samsvarandi ákvæði um að því aðeins megi ógilda kosningu að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna er einnig að finna í lögum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna.

Þetta er allt athyglisvert m.a. í ljósi þess að lög um stjórnlagaþing voru “næsti bær við” þjóðaratkvæðagreiðslulögin, þau höfðu númerin 90/2010 og 91/2010. Í lögunum um stjórnlagaþingið segir í 15. gr. m.a:

  • [1. mgr.] Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.

Hér segir ekkert um hvenær megi ógilda kosninguna. Voru mistök í lagasetningu eða vissi Alþingi hvað það var að gera?

Heildarúrslit stjórnlagaþingskosningarinnar

Heildarúrslit stjórnlagaþingkosningarinnar 27. nóv. 2010 má finna á vef landskjörstjórnar; sjá LandskjorstjornKosning. Þetta skjal er ekki auðvelt aflestrar.

Ég hef umbreytt þessari skrá landskjörstjórnar í hefðbundið birtingarform úrslita kosninga af þessu tagi (STV-kosninga). Hún er hér viðhengd sem Excel-skrá, en er harla stór! Stærðarinnar vegna er hún í tveimur hlutum. Í fyrri skránni SLÞkosningLoturWPI eru upplýsingar um þá frambjóðendur sem fengu mest fylgi. Upplýsingar um hina eru í SLÞkosningLoturWPII.

SLÞkosningLoturWPI

SLÞkosningLoturWPII